Í könnun MMR þar sem spurt var um breytingu á bifreiðanotkun í kjölfar hækkana á eldsneyti sögðust 28,2% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar hafa minnkað bifreiðanotkun sína mikið og 41,7% minnkað hana lítillega. 25% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu bifreiðanotkun sína ekkert hafa breyst og einungis 0,6% svarenda sögðust hafa aukið bifreiðanotkun sína. 4,5% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust ekki nota bifreið.
Fréttir (birtar niðurstöður)
MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Kannanirnar eru jafnan unnar sem hluti af spurningavagni MMR og efnistök valin af starfsfólki MMR út frá þeim fréttum sem eru áberandi í umfjöllun þegar viðkomandi könnunin hefst. MMR birtir ekki fréttatilkynningar úr könnunum sem eru unnar fyrir aðra eða fjármagnaðar af öðrum.
Stuðningur við forvirkar rannsóknarheimildir
MMR kannaði hvort landsmenn væru hlynntir eða andvígir því að lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir. Forvirkar rannsóknarheimildir heimila lögreglu að safna upplýsingum um einstaklinga jafnvel þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um lögbrot. Meirihluti þeirra sem tók afstöðu, eða 58,4%, voru hlynnt því að lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir og voru karlar (61,6%) hlynntari því en konur (54,8%).
Traust til forsetans eykst
Í könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum voru flestir, eða 41,7% þeirra sem tóku afstöðu, sem sögðust bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Traust til Ólafs Ragnars eykst mikið frá síðustu könnun, sem gerð var í maí 2010, en þá sögðust 26,7% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til hans (sjá meðfylgjandi PDF skjal um þróun milli mælinga).
Ólík persónueinkenni stjórnmálaleiðtoga
MMR kannaði álit almennings til persónueiginleika nokkurra stjórnmálaleiðtoga. Í könnuninni voru svarendur beðnir um að meta hvort nokkur persónueinkenni ættu við stjórnmálaleiðtogana eða ekki. Ef skoðuð eru svör þeirra sem tóku afstöðu má sjá að nokkur munur er á hvaða eiginleikum leiðtogarnir þykja gæddir.
Ríkið eigi og ráðstafi kvótanum
Í könnun MMR á afstöðu almennings til ráðstöfunar fiskveiðiheimilda kom í ljós nokkur stuðningur við hugmyndir sem halla í þá átt að ríkið afturkalli fiskveiðiheimildir, fari sjálft með eignarhald eða innheimti leigu fyrir afnotarétt sem endurspegli markaðsverðmæti kvótans. Þannig voru 69,7% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að greiða leigu til ríkisins sem endurspeglar markaðsverðmæti kvótans, 66,6% sögðust því hlynnt að kvótinn ætti að vera í eigu ríkisins og 64,9% sögðu að stjórnvöld ættu að afturkalla gildandi kvóta og úthluta að nýju með breyttum reglum.
Meirihluti hyggst staðfesta Icesave
MMR kannaði viðhorf Íslendinga til ákvörðunar forseta Íslands um að hafna nýjustu Icesave lögunum samþykkis. Af þeim sem tóku afstöðu voru 60,7% sem sögðust styðja ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki nýjustu Icesave lögin og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá voru 57,7% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðust myndu kjósa með lögunum kæmu þau til atkvæðagreiðslu í dag, það er að samþykkja lögin.
Traust á hæstarétti dvínar
MMR kannaði traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála. Af þeim stofnunum sem spurt var um nýtur Landhelgisgæslan (80,8%), Sérstakur saksóknari (59,8%) og Ríkislögreglustjóri (55,1%) mest traust meðal almennings. Helstu breytingarnar frá fyrri könnun eru þær að talsvert fleiri bera lítið traust til Hæstaréttar eða 34,7%, miðað við 29,1% í október 2010.
Erlendir vefir að skáka innlendum?
Skv. fjölmiðlakönnun MMR frá í janúar eru Google og mbl.is þau vefsetur sem flestir Íslendingar nota í viku hverri – en 87,3% þeirra sem tóku afstöðu sögðust nota Google vikulega eða oftar og 86,5% sögðust nota mbl.is vikulega eða oftar. Þá mældist fjöldi vikulegra notenda[1] visir.is 80,3%, Facebook 76,3%, ja.is 67,5%, pressan.is 57,7% og YouTube 57,5%.
Snjallsímavæðing breytir markaðshlutdeild
Íslendingar hafa tekið svokölluðum snjallsímum með opnum örmum á síðustu misserum en samkvæmt könnun sem MMR gerði á íslenskum farsímamarkaði í nóvember 2010 sögðust 43,0% svarenda eiga snjallsíma.
Af öllum sem tóku afstöðu voru 63% sem sögðust nota mest farsíma frá Nokia. Ef svarendahópnum er skipt eftir því hvort símtæki svarenda eru snjallsímar eða ekki kemur hins vegar í ljós verulegur munur á fjölda notenda með Nokia síma.
Helmingur vill kjósa um nýjan Icesave samning
MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvort ákvarðanataka nýs Icesave samnings ætti að vera eingöngu í höndum Alþingis eða hvort bera ætti samninginn aftur undir þjóðaratkvæði. Af þeim sem tóku afstöðu voru 50,3% sem vildu að nýji samningurinn yrði sendur í þjóðaratkvæði en 49,8% sögðust vilja að hann yrði eingöngu afgreiddur af Alþingi. Niðurstöðurnar eru mjög svipaðar og voru í könnun MMR frá mars 2010 en þá vildu 49,5% nýjan Icesave samning í þjóðaratkvæði en 50,5% sögðust vilja samninginn afgreiddan eingöngu af Alþingi.
Andstaða við veggjöld
MMR kannaði hvort fólk væri almennt fylgjandi eða andvígt því að sett yrðu veggjöld til að fjármagna nýframkvæmdir í samgöngumálum. Mikill meirihluti þeirra sem tók afstöðu kváðust andvígir veggjöldum eða 81,9%. Lítill munur reyndist á afstöðu fólks eftir því hvort það býr á höfuðborgasvæðinu eða úti á landi. Andstaðan við veggjöld reyndist mest á meðal Sjálfstæðismanna, en 88,9% þeirra sögðust frekar eða mjög andvígir hugmyndum um veggjöld til fjármögnunar á nýframkvæmdum í samgöngumálum.
Mikill stuðningur við staðgöngumæðrun
MMR kannaði hvort landsmenn væru fylgjandi eða andvígir því að staðgöngumæðrun yrði gerð lögleg á Íslandi. Mikill meirihluti þeirra sem tók afstöðu var fylgjandi lögleiðingunni eða 86,7%.
Stuðningur við staðgöngumæðrun reyndist um og yfir 80% óháð því hvort niðurstöður eru greindar eftir kyni, aldri, búsetu, tekjum eða stuðningi við stjórnmálaflokka (sjá nánar í meðfylgjandi tilkynningu).
Færri treysta stjórnarflokkunum í tilteknum málaflokkum
MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvaða stjórnmálaflokka það teldi best til þess fallna að leiða þrettán málaflokka sem stjórnvöld þurfa eða gætu þurft að fást á við á næstu mánuðum.
Veðrið á Íslandi heillar
Íslendingar eru almennt ánægðir með veðrið, vinnuna og nágranna sína. Mikill meirihluti eða 93,4% landsmanna segjast ánægð með nágranna sína, 90,3% segjast ánægð með vinnuna sína og 85,5% eru ánægð með veðrið að undanförnu. Það hafa því ekki orðið miklar breytingar frá könnun MMR í ágúst 2010 þegar ánægja landsmanna með sumarveðrið, vinnu og nágranna var einnig mæld. Þá sögðust 94,7% ánægð með veðrið í sumar, 92,9% voru ánægð með nágranna sína og 91,4% með vinnuna sína. Það bendir því flest til þess að þrátt fyrir neikvæðar veðurspár á köflum þá séu Íslendingar yfirleitt ánægðir með veðrið á Íslandi.
Fleiri hafa gervijólatré heldur en lifandi tré um jólin
MMR kannaði hvort það yrðu jólatré á heimilum landsmanna þessi jólin og hvort væri algengara gervi eða lifandi tré. Mikill meirihluti ætlar að hafa jólatré á sínu heimili um jólin og sögðu 91,2% að svo yrði. Fleiri hyggjast þó hafa gervitré en lifandi tré, 49,6% sögðust hafa gervitré á sínu heimili um jólin en 41,6% lifandi tré. Tæp 9% eða 8,8% landsmanna ætla ekki að hafa neitt jólatré á heimili sínu í ár.
Íslendingar halda fast í hefðir í jólamat á jólum
MMR kannaði hvað Íslendingar ætluðu að borða sem aðalrétt jólin 2010. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 52,9% líklegast hafa hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld, 9,8% töldu líklegast að þeir myndu borða rjúpu og 8,3% ætluðu að borða kalkún á aðfangadag. Á jóladag sögðust 72,7% landsmanna líklegast myndu borða hangikjöt og 8% hamborgarhrygg. Svo virðist sem breytileiki í jólamatnum sé aðeins meiri hjá landanum á aðfangadagskvöld en hefðir og venjur ráði ríkjum á jóladag.
Afstaða til lögleiðingar á neyslu kannabisefna
MMR kannaði hvort almenningur væri fylgjandi eða andvígur því að neysla kannabisefna yrði gerð lögleg á Íslandi. Af þeim sem tóku afstöðu voru 68,1% sem kváðust mjög andvígir, 15,0% sögðust frekar andvígir, 9,1% voru frekar fylgjandi og 7,8% sögðust mjög fylgjandi. Að samanlögðu voru 83,1% sem sögðust andvíg því að neysla kannabisefna yrði gerð lögleg á Íslandi en 16,9% voru því fylgjandi.
Þátttaka í kosningum til stjórnlagaþings
Í könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 3-5 nóvember, var spurt um væntanlega þátttöku almennings í komandi kosningum til stjórnlagaþings. Í könnuninni sögðust 54,8% þeirra sem tóku afstöðu ætla greiða atkvæði í kosningunum. 11,1% sögðust ekki ætla að taka þátt og 34,0% kváðust ekki hafa ákveðið hvort að þeir tækju þátt. Þá sögðust 57,4% þeirra sem tóku afstöðu ekki enn hafa kynnt sér neinn þeirra einstaklinga sem boðið hafa sig fram til stjórnlagaþings.
Síðasti flokkur í ríkisstjórn
MMR kannaði afstöðu almennings til þess hvaða stjórnmálaflokk, sem nú á sitjandi þingmenn á Alþingi, það vildi síst hafa í ríkisstjórn. Af þeim sem tóku afstöðu voru 37,9% sem sögðu að þeir vildu síst hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn, 27,0% tilgreindu Vinstrihreyfinguna-grænt framboð, 19,7% nefndu Samfylkinguna, 7,8% nefndu á Framsóknarflokkinn og 7,5% sögðu að þeir vildu síst hafa Hreyfinguna í ríkisstjórn.
Afstaða almennings til ríkisstjórnarkosta
MMR kannaði afstöðu almennings til nokkurra kosta við samsetningu ríkisstjórnar sem hafa verið í umræðunni að undanförnu. Af þeim sem tóku afstöðu voru 33,7% sem sögðu ákjósanlegast að mynduð yrði utanþingsstjórn, 21,7% vildu óbreytt stjórnarmynstur, 21,1% nefndu að mynduð yrðu samstjórn allra stjórnmálaflokka á Alþingi, 7,5% vildu að fleiri stjórnmálaflokkar kæmu að núverandi ríkisstjórn og 16,0% sögðu ákjósanlegast að mynduð yrði ný ríkisstjórn undir forystu annarra stjórnmálaflokka en nú sitja í ríkisstjórn.
Traust til Dómsmálaráðuneytisins minnkar
MMR kannaði traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála [1]. Nú segist stór hluti svarenda (77,6%) bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar sem er nákvæmlega sama hlutfall og í síðustu könnun (í október 2009). Aftur á móti fækkar verulega í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Dómsmálaráðuneytisins, en 24,5% segjast bera mikið traust til þess nú samanborið við 42,3% í október 2009.
MMR er skrásett vörumerki Markaðs og miðlarannsókna ehf.