HTC_snjallsimiÍslendingar hafa tekið svokölluðum snjallsímum með opnum örmum á síðustu misserum en samkvæmt könnun sem MMR gerði á íslenskum farsímamarkaði í nóvember 2010 sögðust 43,0% svarenda eiga snjallsíma.

Af öllum sem tóku afstöðu voru 63% sem sögðust nota mest farsíma frá Nokia. Ef svarendahópnum er skipt eftir því hvort símtæki svarenda eru snjallsímar eða ekki kemur hins vegar í ljós verulegur munur á fjölda notenda með Nokia síma.

Þannig voru 71% þeirra sem nota hefðbundin símtæki sem sögðust mest nota Nokia síma. Á móti voru 51% þeirra sem sögðust vera með snjallsíma með símtæki frá Nokia. Hlutdeild Nokia meðal snjallsímanotenda er því 28% lægri en hún er meðal notenda á hefðbundnum farsímum.

Þá voru 70% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu það koma til greina að kaupa snjallsíma frá Nokia ef slíkur sími væri keyptur í dag. Töluvert færri, eða 43%, nefndu Nokia hins vegar sem þann framleiðanda sem þeir myndu líklegast velja ef þeir keyptu snjallsíma í dag.

Þrátt fyrir að eingöngu 2% svarenda segðust vera með Apple (iPhone) þá var um fjórðungur svarenda sem sagðist líklegast kaupa sér símtæki frá iPhone ef þeir væru að kaupa snjallsíma í dag. Það virðist því sem eftirspurn eftir iPhone sé langt umfram markaðshlutdeild – sem skýrist ef til vill af verði, en iPhone símtæki kostar í dag frá 145.000 kr. út úr búð á Íslandi.

Aðrir framleiðendur njóta mun minni vinsælda sem kemur kannski á óvart þar sem Google Android stýrikerfið hefur styrkt verulega stöðu sína á heimsmarkaði á síðustu mánuðum og náði því marki að verða mest selda stýrikefið fyrir snjallsíma í desember síðastliðnum skv. Canalys. Meðal framleiðenda sem bjóða upp á Android síma eru Samsung, HTC, Sony Ericsson og LG.

1011_snjallsmr

Spurt var: “Frá hvaða framleiðanda er símtækið sem þú notar mest?“. Samtals tóku 99% afstöðu til spurningarinnar.  “Ef þú værir að fá þér snjallsíma í dag hvaða framleiðendur kæmu til greina? – veldu eitt eða fleiri vörumerki“ Samtals tóku 75% afstöðu til spurningarinnar.  “Ef þú værir að fá þér snjallsíma í dag - frá hvaða framleiðanda myndir þú líklegast kaupa?“  Samtals tóku 71% afstöðu til spurningarinnar.

Til samanburðar má nefna að í könnun sem YouGov gerði á breska farsímamarkaðinum í júní 2010 kom í ljós að þriðjungur snjallsímaeiganda myndi íhuga að fá sér snjallsíma frá Nokia en þeir voru 46% hálfu ári áður. Þá voru 10% sem töldu líklegast að þeir myndu kaupa snjallsíma frá Nokia samanborið við 19% hálfu ári áður. iPhone hélt aftur á móti stöðu sinni milli kannana en rúmlega helmingur breskra snjallsímaeigenda, eða 56%, sögðust myndu íhuga að kaupa iPhone og 41% segjast myndu líklegast kaupa iPhone ef þeir væru að kaupa sér snjallsíma í dag.

Niðurstöðurnar í heild:
1011_tilkynning-snjallsmar.pdf