Stjórnmál

|

JonGnarrMMR kannaði álit almennings til persónueiginleika nokkurra stjórnmálaleiðtoga. Í könnuninni voru svarendur beðnir um að meta hvort nokkur persónueinkenni ættu við stjórnmálaleiðtogana eða ekki. Ef skoðuð eru svör þeirra sem tóku afstöðu má sjá að nokkur munur er á hvaða eiginleikum leiðtogarnir þykja gæddir.

Þannig voru 35,7% þeirra sem tóku afstöðu sem töldu Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þinghópsformann Hreyfingarinnar, hafa þann eiginleika að standa við eigin sannfæringu og 22,9% töldu hana í tengslum í almenning. Hins vegar voru eingöngu 1,1% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu að  Birgitta væri fæddur leiðtogi.

Þá voru 36,6% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vera ákveðinn, 29,2% töldu hann sterkan einstakling, 25,8% sögðu hann vinna vel undir álagi. Töluvert færri eða 9,5% þeirra sem tóku afstöðu töldu hins vegar að Steingrímur væri í tengslum við almenning.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er helst talin vera ákveðin (26,9%) og standa við eigin sannfæringu (26,6%). Aftur á móti voru einungis 5,4% sem töldu hana vera í tengslum við almenning og 1,8% töldu hana gædda persónutöfrum.

Tæpur þiðjungur þeirra sem tóku afstöðu sögðu Jón Gnarr, borgarstjóra, gæddan persónutöfrum (29,5%) eða heiðarlegan (28,8%) og um fjórðungur sagði hann í tengslum við almenning (23,7%). Á móti voru um og yfir fimm prósent þeirra sem tóku afstöðu sem töldu Jón sterkan einstakling (5,6%) eða ákveðinn (5,0%) og 3,5% þeirra sem tóku afstöðu töldu að Jón ynni vel undir álagi.

Tæpur fimmtungur þeirra sem tóku afstöðu sögðu Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, gæddan persónutöfrum (19,4%) og 17,1% sögðu Bjarna vera sterkan einstakling en einungis 7,0% töldu Bjarna í tengslum við almenning.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, voru þeir stjórnmálamenn sem flestir, eða tæp 52% þeirra sem tóku afstöðu, sögðu að byggju ekki yfir neinum af þeim eiginleikum sem spurt var um.

1102_eiginleikarStjornm

Niðurstöðurnar í heild:
1103_tilkynning_eiginleikarStjornm.pdf