MMR kannaði traust almennings til helstu stofnana á sviði réttarfars og dómsmála [1]. Nú segist stór hluti svarenda (77,6%) bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar sem er nákvæmlega sama hlutfall og í síðustu könnun (í október 2009). Aftur á móti fækkar verulega í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Dómsmálaráðuneytisins, en 24,5% segjast bera mikið traust til þess nú samanborið við 42,3% í október 2009.
Það fækkar jafnframt í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til Hæstaréttar, fer úr 46,6% frá í október 2009 í 41,8% nú. Þá fjölgar í hópi þeirra sem segjast bera mikið traust til ríkislögreglustjóra, fer úr 47,1% í október 2009 í 52,0% nú.
Breytingar á trausti til annarra stofnana mældist innan vikmarka milli kannana. Sérstakur saksóknari nýtur nú mikils trausts meðal 54,8% svarenda, Fangelsismálastofnun nýtur trausts meðal 37,9% svarenda, Héraðsdómstólarnir njóta trausts 36,2% svarenda og 35,6% sögðust bera mikið traust til ríkissaksóknara. Þá sögðust 33,1% bera mikið traust til dómskerfisins í heild og 21,1% kváðust bera mikið traust til Útlendingastofnunar.
[1] Hér er gerð grein fyrir trausti til þeirra stofnana á sviði réttarfars og dómsmála sem mældar voru fyrir utan lögregluna. Lögreglan naut mikils trausts meðal 80,9% svarenda í sömu könnun (sjá: http://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/162-traust-til-helstu-stofnana-samfelagsins).
Niðurstöðurnar í heild: 1010_tilkynning_traustdoms.pdf