MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Kannanirnar eru jafnan unnar sem hluti af spurningavagni MMR og efnistök valin af starfsfólki MMR út frá þeim fréttum sem eru áberandi í umfjöllun þegar viðkomandi könnunin hefst. MMR birtir ekki fréttatilkynningar úr könnunum sem eru unnar fyrir aðra eða fjármagnaðar af öðrum.
Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 6. til 13. mars 2017 mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi íslenskra flokka. Fylgi Sjálfstæðisflokks mældist nú 25,4% en það er 1,5 prósentustiga lækkun frá síðustu könnun sem lauk 24. febrúar 2017. Vinstri grænir mældust með næst mest fylgi eða 23,5% og er það eilítið lægra fylgi en í síðustu könnun þegar fylgið mældist 23,9%. Fylgi Pírata mældist nú 13,7% og er það hækkun um 2,1 prósentustig frá síðustu mælingu.
Stuðningur við ríkisstjórnina lækkaði milli mælinga. Alls kváðust 34,5% styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 37,9% í síðustu könnun.
Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 17. til 24. febrúar 2017 mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi íslenskra flokka. Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist nú 26,9% en var 24,4% í síðustu könnun sem lauk 15. febrúar 2017. Vinstri grænir mældust með næst mest fylgi eða 23,9%. Það er lækkun um 3,1 prósentustig frá síðustu mælingu en þó, líkt og fylgisbreytingar annarra flokka, innan vikmarka. Fylgi Framsóknarflokksins jókst um 1,5% milli kannana og mælist fylgið nú 12,2%.
Stuðningur við ríkisstjórnina hækkaði milli kannana og kváðust 37,9% styðja ríkisstjórnina. Það er 3 prósentustiga hækkun frá síðustu könnun.
Stór hluti Íslendinga er andvígur því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum á Íslandi. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem framkvæmd var dagana 10. til 15. febrúar 2017. Nokkur munur var á afstöðu eftir því hvort um var að ræða sölu á sterku áfengi eða léttu áfengi og bjór. Töluvert hærra hlutfall svarenda kváðust andvígir sölu á sterku áfengi (74,3%) í matvöruverslunum heldur en sölu á léttu áfengi og bjór (56,9%). Einungis 15,4% kváðust hlynnt sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en 32,7% kváðust hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór.
Nokkuð skiptar skoðanir eru uppi um þann fjölda flóttamanna sem fá hæli hér á landi. Nær helmingur Íslendinga (45,0%) telur að hæfilegum fjölda flóttamanna sé veitt hæli hér á landi eins og staðan er í dag. Þetta sýnir könnun MMR sem fram fór dagana 10. til 15. febrúar 2017. Alls töldu 30,9% svarenda að fjöldi flóttafólks sem fær hér hæli sé of lítill en 24,1% töldu of mikinn fjölda flóttamanna fá hæli.
Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 10. til 15. febrúar 2017 mælast Vinstri græn með mest fylgi íslenskra flokka. Fylgi Vinstri grænna var stöðugt milli mælinga og mældist 27,0% líkt og í síðustu könnun sem gerð var dagana 1. til 5. febrúar 2017. Sjálfstæðisflokkurinn kemur næst á eftir með 24,4% fylgi og er það hækkun um 0,6 prósentustig frá síðustu mælingu. Munurinn á milli þessa tveggja flokka er þó innan vikmarka og því ekki hægt að fullyrða hvor nýtur meira fylgist meðal þjóðarinnar allrar. Fylgi Pírata minnkaði um 1,7% milli mælinga og mælist nú 11,9%.
Stuðningur við ríkisstjórnina hækkaði milli kannana og kváðust 34,9% styðja ríkisstjórnina. Það er 2,3 prósentustiga hækkun frá síðustu könnun.
Meirihluti Íslendinga telur hlutina á Íslandi almennt séð vera á rangri braut. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem framkvæmd var 1.-5. febrúar 2017. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðu 54,3% hlutina vera á rangri braut en 45,7% sögðu þá vera að þróast í rétta átt.
Athyglisverður munur kemur í ljós þegar skoðaður er munur á svörum eftir því hverju Íslendingar sögðust hafa áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Þeir sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum, fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði og viðhaldi velferðakerfisins voru líklegri til að telja hlutina á Íslandi almennt séð á rangri brauti. Þeir sem höfðu mestar áhyggjur af glæpum og ofbeldi, ofþyngd barna og verðbólgu reyndust líklegri til að telja hlutina á réttri leið.
Íslendingar hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum. Þetta sýnir nýleg könnun MMR þar sem athugað var hverju landsmenn hafi mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Svarendur gátu merkt við allt að þrjú atriði. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar kváðust 49,2% hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og 48,9% af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum.
Rannsóknafyrirtækið Ipsos gerði sambærilega könnun í nóvember árið 2016 sem náði til 25 landa. Í þeirri könnun kom í ljós að heilt á litið hafði fólk í þessum löndum mestar áhyggjur af atvinnuleysi (38%), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (34%) og spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (33%).
Þegar litið er til einstakra landa sést að líkt og á Íslandi höfðu landsmenn í Ungverjalandi (63%), Póllandi (49%) og Brasilíu (48%) mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu þar í landi. Í Ungverjalandi var spilling (56%) í öðru sæti yfir það sem fólk hafði mestar áhyggjur af og fátækt (56%) í því þriðja, líkt og á Íslandi. Í Ísrael (51%), Tyrklandi (66%) og Bandaríkjunum (33%) reyndust mestu áhyggjurnar snúa að hryðjuverkum. Þessu var öfugt farið á Íslandi en í könnun MMR kváðust einungis 1,7% svarenda hafa áhyggjur af hryðjuverkum hér á landi.
Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 1. til 5. febrúar 2017 mælast Vinstri græn stærst íslenskra flokka. Fylgi Vinstri grænna mældist 27,0% en það er 3,8 prósentustiga aukning frá meðalfylgi Vinstri grænna í janúar 2017 (sem var 23,2%). Sjálfstæðisflokkurinn kemur næst á eftir með 23,8% fylgi en það er minnkun um 0,8 prósentustig frá síðustu mælingu. Fylgi Pírata stóð í stað milli mælinga og mældist 13,6%.
Stuðningur við ríkisstjórnina lækkaði milli kannana en 32,6% kváðust styðja ríkisstjórnina. Það er 2,6 prósentustiga minnkun frá því í síðustu könnun.
Á sama tíma og fjöldi þeirra sem býr í leiguhúsnæði hefur aukist telja fleiri leigjendur líkur á að þeir muni missa húsnæði sitt. Samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR frá í september síðastliðnum hafði hlutfall Íslendinga sem bjó í leiguhúsnæði aukist um fjögur prósentustig á þremur árum. Á sama tímabili hafði hlutfall leigjenda sem töldu líkur á að þeir myndu missa húsnæði sitt aukist um átta prósentustig.
Niðurstöður könnunar MMR sýna að um 85% Íslendinga telja að fjársektir fyrir notkun farsíma undir stýri þurfa að vera hærri en 10 þúsund krónur til þess að fæla ökumenn frá því að nota snjall- eða farsíma við akstur, en í dag eru fjársektir við slíku athæfi 5.000 kr.
Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 12. til 26. janúar 2017 mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 24,6% en það er 1,5 prósentustigum minna en í síðustu könnun sem lauk 10. janúar 2017. Vinstri-grænir koma næst á eftir með 22,0% fylgi en það er minnkun um 2,3 prósentustig frá síðustu mælingu. Píratar mælast nú með 13,6% fylgi sem er einu prósentustigi minna en í síðustu mælingu.
Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 35,0% sem er mun lægri stuðningur en aðrar ríkisstjórnir hafa mælst með við upphaf stjórnarsetu og í eina skiptið sem ný ríkisstjórn hefur ekki mælst með stuðning meirihluta kjósenda. Við upphaf stjórnarsetu síðustu tveggja ríkisstjórna mældist stuðningur við þær 56% (S+V) og 60% (B+D).
Ánægja með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands hefur aldrei mælst hærri. Þetta sýnir nýleg könnun MMR en alls kváðust 81,4% þátttakenda vera ánægð með störf forsetans. Ánægja landsmanna nær nýjum hæðum þar sem ánægja með störf forseta hefur aldrei mælst jafn há frá því MMR hóf slíkar mælingar (í mars 2011). Einungis 3,8% kváðust vera óánægð með störf Guðna Th. sem forseta Íslands.
Traust til umsagna neytenda á netinu hefur aukist töluvert síðan 2010. Nýleg könnun MMR á trausti almennings til ýmissa miðla við leit af upplýsingum um vörur og þjónustu sýndi að 44% sögðust bera frekar mikið eða mjög mikið traust til umsagna neytenda á netinu, sem er 9 pórsentustiga aukning frá árinu 2010. Fjöldi þeirra sem bera mikið traust til SMS auglýsinga í farsíma hefur einnig aukist mikið, eða úr 4% árið 2010 í 9% árið 2016.
Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 3. til 10. janúar 2017 mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 26,1% en það er 3,2 prósentustigum minna en í síðustu könnun sem lauk 26. desember 2016. Vinstri-grænir koma næst á eftir með 24,3% fylgi en það er aukning um 3,6 prósentustig frá síðustu mælingu. Píratar mælast nú með 14,6% fylgi sem er tæpum 2 prósentustigum meira en í síðustu mælingu.
Fleiri bera lítið traust til fjölmiðla í dag heldur en fyrir tveimur árum síðan. Þetta sýnir könnun MMR á trausti til fjölmiðla sem lauk þann 14. desember síðastliðinn.
Tvö af hverjum þremur Íslendingum hyggjast gæða sér á hangikjöti sem aðalrétt á jóladag. Hangikjöt hefur verið langvinsælasti réttur Íslendinga á jóladag um árabil, en vinsældir hangikjöts mælast þó ívið lægri í ár í samanburði við árið í fyrra. Í könnuninni sögðust 67,9% svarenda ætla að eta hangiket sem aðalrétt á jóladag í ár, en 72,0% í fyrra. Munurinn er þó naumlega innan vikmarka.
Nýleg könnun MMR sýnir að 36% Íslendinga ætla að borða skötu á Þorláksmessu þetta árið. Vinsældir skötunnar hafa dalað nokkuð frá því að MMR hóf mælingar árið 2011.
MMR kannaði hvað Íslendingar ætla að borða í aðalrétt á aðfangadag á komandi jólahátíð. Hamborgarhryggur er enn sem áður algengasti aðalrétturinn á aðfangadagskvöldi en tæplega helmingur Íslendinga (46,4%) hyggst gæða sér á hamborgarhrygg næstkomandi laugardag.
Samkvæmt nýlegri könnun MMR munu rúm 86% Íslendinga prýða heimili sín með jólatré þessi jólin og eru gervitrén töluvert vinsælli meðal Íslendinga. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 54,1% ætla að setja upp gervitré en 32,3% hyggðust setja upp lifandi tré.
Samkvæmt nýrri könnun MMR hyggjast aðeins um 38% landsmanna senda jólakort með bréfpósti þetta árið samanborið við tæplega 47% Íslendinga í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust 43,5% ekki ætla að senda nein jólakort í ár og er það 10,5 prósentustiga hækkun frá því í síðustu könnun. Ívið fleiri ætla að senda rafrænt jólakort í ár heldur en í fyrra eða 11,5% landsmanna. Þeim fækkar um tæp 3 prósentustig milli ára sem hyggjast senda jólakort bæði með bréfpósti og rafrænt.
MMR stóð í ár, líkt og í fyrra, fyrir vinsældakosningu íslensku jólasveinanna. Kertasníkir reyndist hlutskarpastur annað árið í röð og heldur titlinum Vinsælasti jólasveinn Íslands. Kertasníkir var uppáhalds jólasveinn 30% þeirra sem sögðust eiga sér uppáhalds jólasvein, Stúfur (24%) var í öðru sæti og Hurðaskellir (11%) í því þriðja.
MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Kannanirnar eru jafnan unnar sem hluti af spurningavagni MMR og efnistök valin af starfsfólki MMR út frá þeim fréttum sem eru áberandi í umfjöllun þegar viðkomandi könnunin hefst. MMR birtir ekki fréttatilkynningar úr könnunum sem eru unnar fyrir aðra eða fjármagnaðar af öðrum. Kannanir MMR eru unnar samkvæmt siðareglum ESOMAR.
Notkun á efni heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er skýrt getið í heimildum um uppruna gagnanna.