Rúmlega helmingur íslenskra karlmanna segist jákvæður gagnvart því að taka getnaðarvarnarpillu að staðaldri, ef slíkt væri í boði. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar 2019. Alls kváðust 27% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar vera mjög jákvæðir gagnvart því að taka getnaðarvarnarpillu, 28% frekar jákvæðir, 35% hvorki jákvæðir né neikvæðir, 5% frekar neikvæðir og 5% mjög neikvæðir.
Fréttir (birtar niðurstöður)
MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Kannanirnar eru jafnan unnar sem hluti af spurningavagni MMR og efnistök valin af starfsfólki MMR út frá þeim fréttum sem eru áberandi í umfjöllun þegar viðkomandi könnunin hefst. MMR birtir ekki fréttatilkynningar úr könnunum sem eru unnar fyrir aðra eða fjármagnaðar af öðrum.
Hatara spáð góðu gengi í Ísrael
Um fjórðungur landsmanna spáir því að framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni muni enda í einu af fimm efstu sætum keppninnar, sem haldin verður í Ísrael í næstu viku. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 30. apríl - 3. maí 2019. 24% svarenda sögðust halda að Hatari mundi enda í 1.-5. sæti keppninnar og 25% spáðu sveitinni 6.-10. sæti.
Kosningaætlan í maí 2019
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað um rúm tvö prósentustig frá síðustu fylgismælingu MMR og mælist nú 20,2%. Samfylkingin mældist með 14,1% fylgi, sem er nær óbreytt frá síðustu könnun. Þá minnkaði fylgi Framsóknarflokksins um tæplega eitt og hálft prósentustig en fylgi Vinstri grænna og Viðreisnar hækkaði um tæplega eitt og hálft prósentustig frá síðustu mælingu.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkaði um um rúm fjögur prósentustig og mældist nú 40,4% en var 44,6% í síðustu mælingu.
Mestar áhyggjur af spillingu og fátækt
Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum fara minnkandi. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar 2019. Svarendur voru spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Líkt og í fyrra voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum (44%), fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður (35%), heilbrigðisþjónusta (35%) og húsnæðismál (30%) sem reyndust helstu áhyggjuvaldar þjóðarinnar, þó að röðun þeirra hafi tekið breytingum á milli ára.
Kosningaætlan í apríl 2019
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkaði um tæp tvö prósentustig frá síðustu fylgismælingu MMR og mælist nú 21,7%. Píratar mældust með 15,0% fylgi, sem er tæplega einu og hálfu prósentustigi meira en flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Þá minnkaði fylgi Framsóknarflokksins um tæplega tvö og hálft prósentustig en fylgi Miðflokksins hækkaði um rúm tvö prósentustig frá síðustu mælingu.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst hins vegar um um tæp fimm prósentustig og mældist nú 46,5% en var 41,8% í síðustu mælingu.
Meirihluti andvígur innflutningi á fersku kjöti
Rúmlega helmingur landsmanna (55%) sagðist andvígur því að innflutningur á fersku kjöti frá löndum af Evrópska Efnahagssvæðinu (EES) verði heimilaður en 27% kváðust fylgjandi. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-14. mars 2019. Alls kváðust 38% aðspurðra mjög andvíg því að slíkur innflutningur verði heimilaður, 18% kváðust frekar andvíg, 17% hvorki fylgjandi né andvíg, 15% frekar fylgjandi og 12% mjög fylgjandi.
Kosningaætlan í mars 2019
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 23,6% landsmanna í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-14. mars. Fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst um tæpt prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 15. febrúar. Samfylkingin mældist með 13,8% fylgi, sem er rúmlega tveimur prósentustigum minna en flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Píratar mældust með 13,6% fylgi, sem er rúmum þremur prósentustigum meira en í síðustu mælingum. Þá minnkaði fylgi Framsóknarflokksins um rúm tvö prósentustig en fylgi Miðflokksins hækkaði um tæp tvö prósentustig frá síðustu mælingum.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkaði lítillega en 41,8% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 42,8% í síðustu mælingu.
Áframhaldandi andstaða gegn veggjöldum
Rúmlega helmingur landsmanna kveðst andvígur innheimtu veggjalda til að standa straum af rekstri þjóðvega á Íslandi en um þriðjungur er hlynntur. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 18.-28. janúar 2019. Kváðust 34% svarenda mjög andvíg slíkum veggjöldum, 18% frekar andvíg, 21% frekar fylgjandi og 11% mjög fylgjandi. Þá kváðust 17% hvorki fylgjandi né andvíg innheimtu veggjalda. Litlar breytingar voru á afstöðu landsmanna frá könnun MMR sem framkvæmd var í maí 2018.
Kosningaætlan í febrúar 2019
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 22,7% landsmanna í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst um tæpt prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 28. janúar. Samfylkingin mældist með 15,9% fylgi, sem er tæplega hálfu prósentustigi meira en flokkurinn mældist með í síðustu könnun og fylgi Framsóknarflokksins jókst um tæpt prósentustig og mældist nú 13,5%. Þá minnkaði fylgi Vinstri grænna um rúmlega eitt prósentustig, fylgi Pírata minnkaði um rúmlega eitt og hálft prósentustig og fylgi Miðflokksins minnkaði um rúmlega tvö prósentustig frá síðustu mælingum.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst lítillega en 42,8% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 41,5% í síðustu mælingu.
Aukinn áhugi á notuðum rafbílum
Áhugi á notuðum rafbílum fer vaxandi en þeim fækkar sem sækjast eftir notuðum bensínbílum. Þetta kemur fram í Bílakaupakönnun MMR 2018-19 sem nú er fáanleg á skýrsluformi. Eftirspurn eftir notuðum rafbílum hefur aukist árlega frá árinu 2015 en af þeim svarendum könnunarinnar sem kváðust hyggja á kaup á notuðum (en ekki nýjum) bíl á næstu þremur árum kváðust 26% líkleg til að kaupa rafdrifinn bíl. Áhugi fyrir notuðum bensínbílum minnkar um 13% á milli ára en 29% svarenda í nýafstaðinni könnun kváðust líkleg til að kaupa bensínbíl, samanborið við 42% í könnun síðasta árs. Flestir kváðust þó líklegast að þeir myndu kaupa sér notaðan díselbíl á næstu þremur árum eða 44%. Þá kváðust 2% líklegust til að kaupa notaðan metanbíl.
Skaupið þótti gott
Töluverðrar ánægju gætti með Áramótaskaupið 2018 meðal landsmanna en 62% þátttakenda í könnun MMR sögðu Áramótaskaupið hafa verið gott. Töldu 33% svarenda Skaupið 2018 hafa verið mjög gott, 29% sögðu það frekar gott, 17% hvorki gott né slakt, 10% frekar slakt og 10% mjög slakt.
Kosningaætlan í janúar 2019
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 22,2% landsmanna í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 4.-14. janúar. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hélst nær óbreytt frá síðustu mælingu sem lauk 11. desember. Samfylkingin mældist með 15,0% fylgi, sem er tæplega tveimur prósentustigum minna en flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Þá minnkaði fylgi Vinstri grænna um rúmlega eitt og hálft prósentustig*, fylgi Miðflokksins jókst um eitt prósentustig og fylgi Flokks fólksins jókst um tvö og hálft prósentustig frá síðustu mælingum.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst lítillega en 41,1% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 40,3% í síðustu mælingu.
Dregur úr hangikjötsneyslu á jóladag
Færri hyggjast borða hangikjöt á jóladag heldur en í fyrra en neysla á fiski og öðru sjávarfangi eykst. Þetta kemur fram í nýlegri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember 2018. Kváðust 69% svarenda ætla að borða hangikjöt sem aðalrétt á jóladag, 9% hamborgarahrygg, 4% kalkún, 4% lambakjöt annað en hangikjöt og 3% grænmetisfæði. Þá ætla 2% að neyta fisks eða annars sjávarfangs í aðalrétt á jóladag en hlutfallið er það hæsta sem mælst hefur frá því að mælingar MMR hófust árið 2010. Að lokum kváðust 10% svarenda hafa hug á því að borða annars konar mat en nefndur var hér á undan.
Þriðjungur í skötu á Þorláksmessu
Rétt rúmur þriðjungur landsmanan heldur á vit skötunnar á Þorláksmessu. Þetta leiðir ný könnun MMR á jólahefðum landsmanna í ljós en hún var framkvæmd dagana 5. til 11. desember 2018. Alls voru 35,3% sem sögðust ætla að borða skötu á morgun, Þorláksmessudag, sem er nær óbreytt frá því í fyrra. Eitthvað er því farið að hægja á skötusamdrætti en hlutfall þeirra sem segjast ætla að borða skötu á Þorláksmessu hefur lækkað um 6,8 prósentustig frá því að tíðni skötuáts náði hámarki í mælingum MMR árið 2013.
Hamborgarhryggshefðin sterk á aðfangadag
Hamborgarhryggurinn á enn fastar rætur í hjörtum landsmanna en neysla á lambakjöti á aðfangadag fer minnkandi. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR á matarvenjum landsmanna á aðfangadag sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember 2018. Alls kváðust 49% landsmanna ætla að borða hamborgarhrygg sem aðalrétt á aðfangadagskvöld, 9% kváðust ætla að borða kalkún og önnur 9% lambakjöt (annað en hangikjöt), 8% sögðu rjúpu vera á boðstólnum á sínu heimili, 5% nautakjöt og 4% svínakjöt (annað en hamborgarhrygg). Þá kváðust tæp 16% ætla að gæða sér á annars konar aðalrétt en ofantöldu.
Sjá má aukningu á fjölda þeirra sem kváðust ætla að borða hamborgarhrygg þessi jól en hlutfall þeirra hefur aukist um tæp þrjú prósentustig frá könnun ársins 2017. Þá minnkaði hlutfall þeirra sem kváðust ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) um rúm fjögur prósentustig frá síðustu könnun.
Yfir helmingur heimila með gervijólatré í ár
Meirihluti heimila mun skarta gervitré yfir jólin líkt og fyrri ár. Litlar breytingar hafa orðið á jólatrjáahefðum landsmanna undanfarin ár en samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember segjast 54,5% landsmanna ætla að setja upp gervijólatré á heimili sínu þessi jól, 31,9% segjast ætla að setja upp lifandi jólatré en 13,6% segja ekkert jólatré verða á sínu heimili.
Einungis helmingur hyggst senda jólakort
Rétt tæplega helmingur landsmanna hyggst senda jólakort í ár en þeim fjölgar sem segjast ætla að senda rafræn kort. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5.-11. desember 2018. Kváðust um 26% landsmanna hyggjast senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna eingöngu með bréfpósti í ár, 19% kváðust einungis ætla að senda rafræn jólakort, 5% kváðust ætla að senda kort bæði rafrænt og með bréfpósti en heil 49% kváðust ekki ætla að senda nein jólakort í ár.
Þeim fækkaði því á milli ára sem kváðust ætla að senda jólakort fyrir hátíðarnar líkt og fyrri ár en um 51% sögðust ætla að senda kort þessi jólin, samanborið við 55% í fyrra og 67% árið 2015. Þeim sem kváðst ætla að senda jólakort eingöngu með bréfpósti fækkaði um 7 prósentustig á milli mælinga en þeim sem sögðust ætla að senda rafræn kort fjölgaði hins vegar um sem nemur 6 prósentustigum. Þá fækkaði þeim sem kváðust ætla að senda kort bæði rafrænt og bréfleiðis um 3 prósentustig frá mælingum síðasta árs.
Kertasníkir enn vinsælasti jólasveinninn
MMR stóð nýlega fyrir vinsældakosningu íslensku jólasveinanna, fjórða árið í röð. Kertasníkir reyndist hlutskarpastur líkt og fyrri ár og heldur titlinum "Uppáhalds jólasveinn Íslendinga" með 29% tilnefninga. Stúfur situr sem fastast í öðru sætinu með 25% tilnefninga en vinsældaukning hans frá því í fyrra gekk að mestu til baka í ár. Hurðaskellir var svo í þriðja sæti með 13% tilnefninga en hann hefur hreiðrað um sig í því sæti síðan mælingar hófust.
Þriðjungur á móti Brexit
Rúmlega þriðjungur Íslendinga er andvígur því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu en nær helmingur er hvorki fylgjandi né andvígur. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 15.-21. nóvember 2018. Alls sögðust 18% mjög andvígir úrsögn Breta úr ESB, 18% frekar andvígir, 9% frekar fylgjandi og 9% mjög fylgjandi. Þá kváðust 46% hvorki fylgjandi né andvíg.
Kosningaætlan í desember 2018
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með stuðning 22,1% landsmanna í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 5.-11. desember. Fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst um eitt prósentustig frá síðustu mælingu sem lauk 21. nóvember. Samfylkingin mældist með 16,9% fylgi, sem er svipað fylgi og flokkurinn mældist með í síðustu könnun. Píratar bættu rúmlega þremur prósentustigum við fylgi sitt frá síðustu könnun og mældust með 14,4% fylgi. Þá bættu Vinstri græn rúmlega tveimur og hálfu prósentustigi við fylgi sitt og Framsóknarflokkurinn bætti við sig fimm prósentustigum frá síðustu mælingu. Fylgi Miðflokksins féll hins vegar um rúmlega sjö prósentustig frá síðustu mælingum.
Stuðningur við ríkisstjórnina jókst lítillega en 40,3% sögðust styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 39,9% í síðustu mælingu.
Hressileg fækkun ökumanna sem hringja án handfrjáls búnaðar
Ólögleg notkun á farsímum undir stýri minnkar á milli ára en notkun á handfrjálsum búnaði eykst. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR á farsímanotkun landsmanna undir stýri sem framkvæmd var dagana 8.-12. nóvember 2018. Alls sögðust 49% svarenda hafa notað farsíma undir stýri fyrir símtöl með handfrjálsum búnaði á síðustu 12 mánuðum, 34% fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar, 30% til að nota leiðsögukort (svo sem Google Maps), 16% til að skrifa eða lesa tölvupósta, sms eða annars konar skilaboð, 6% til að fara á internetið, 6% til að taka mynd og 1% til að spila tölvuleik. Þá kváðust 22% svarenda ekki hafa notað farsíma undir stýri á síðustu 12 mánuðum.
MMR er skrásett vörumerki Markaðs og miðlarannsókna ehf.