Dægurmál

|

Um fjórðungur landsmanna spáir því að framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni muni enda í einu af fimm efstu sætum keppninnar, sem haldin verður í Ísrael í næstu viku. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 30. apríl - 3. maí 2019. 24% svarenda sögðust halda að Hatari mundi enda í 1.-5. sæti keppninnar og 25% spáðu sveitinni 6.-10. sæti.

Þá sögðust 14% svarenda telja að lag Hatara muni lenda í 11.-15. sæti, 13% sögðust telja það að það muni lenda í 16.-20. sæti og 4% spáðu 21.-25. sæti. Alls voru það því rúmlega 80% svarenda sem spáðu því að íslenska lagið muni komast áfram á lokakvöld söngvakeppninnar. 4% Spáðu gegni á bilinu 26.-30. sæti, 3% kváðust telja að íslenska lagið myndi enda í 31.-35. sæti og 13% voru svartsýn á ágæti lagsins og töldu það líklegt til að reka lestina í 36.-14. sæti. Óhætt er að segja að landsmenn séu nokkuð bjartsýnni á gott gengi Hatara heldur en þeir voru fyrir Our choice, framlagi Íslands á síðasta ári en þá spáðu 34% Íslandi einu af átta neðstu sætum keppninnar (36.-43. sæti).

1904 EurovisionSpurt var: „Í hvaða sæti heldur þú að framlag Íslands lendi í Eurovision keppninni í ár?“
Svarmöguleikar voru: „1.-5. sæti“, „6.-10.sæti“, „11.-15. sæti“, „16.-20. sæti“, „21.-25. sæti“, „26.-30. sæti“, „31.-35. sæti“, „36.-41. sæti“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“. Samtals tóku 86,9% afstöðu til spurningarinnar.
*Þar sem að 43 lönd tóku þátt í Eurovision söngvakeppninni árið 2018 sýna samanburðartölur það hlutfall svarenda sem spáði framlagi Íslands 36.-43. sæti í keppni síðasta árs.

Munur eftir lýðfræðihópum

Jákvæðni gagnvart gengi Íslands í Eurovision keppni þessa árs var mest hjá yngri aldurshópum og spáðu 64% svarenda á aldrinum 18-29 ára og 58% þeirra 30-49 ára íslenska laginu einu af tíu efstu sætum keppninnar en 32% svarenda undir 50 ára aldri spáði laginu einu af fimm efstu sætunum. Hins vegar spáðu rétt 35% svarenda á aldrinum 50-67 ára og 25% þeirra 68 ára og eldri að Hatari næði að hreppa sæti á meðal þeirra tíu efstu.

Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu örlítið bjartsýnni á gengi íslensku strákana heldur en landsbyggðarbúar en 51% svarenda af höfuðborgarsvæðinu sögðust telja að íslenska framlagið myndi lenda í einu af tíu efstu sætum keppninnar, samanborið við 45% þeirra af landsbyggðinni. Landsbyggðarbúar reyndust hins vegar líklegri til að spá Hatara einu af 6 neðstu sætum keppninnar (17%) heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu (10%). Lítill munur reyndist á afstöðu eftir kyni.

1904 Eurovision x1

Stuðningsfólk Pírata (58%), Viðreisnar (56%) og Samfylkingar (56%) reyndust líklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að spá því að íslenska framlagið muni lenda í einu af tíu efstu sætum söngvakeppninnar. Stuðningsfólk Miðflokks (35%) og Framsóknar (18%) reyndust hins vegar líklegast af stuðningsfólki allra flokka til að spá því að Hatari lendi í 36.-41. sæti keppninnar í ár.

1904 Eurovision x2

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 941 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 30. apríl til 3. maí 2019


Eldri kannanir sama efnis:
MMR könnun, apríl 2018: Skiptar skoðanir um gengi Íslands á Eurovision