Mikil ánægja var á meðal landsmanna með Áramótaskaupið 2017 en heil 76% þátttakenda í könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 9-17. janúar 2018, sögðu Áramótaskaupið hafa verið gott. Frá því að MMR hóf að mælingar á ánægju með Áramótaskaupið árið 2011 hefur ánægjan aðeins einu sinni mælst meiri eða 81% árið 2013. Aðeins 10% kváðu Áramótaskaupið 2017 hafa verið slakt en óánægja með Skaupið mældist mest árið 2012 þegar 48% sögðu það hafa verið slakt.
Fréttir (birtar niðurstöður)
MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum sem unnar hafa verið meðal almennings um málefni líðandi stundar. Kannanirnar eru jafnan unnar sem hluti af spurningavagni MMR og efnistök valin af starfsfólki MMR út frá þeim fréttum sem eru áberandi í umfjöllun þegar viðkomandi könnunin hefst. MMR birtir ekki fréttatilkynningar úr könnunum sem eru unnar fyrir aðra eða fjármagnaðar af öðrum.
Skötunni fatast flugið
Þeim heldur áfram að fækka sem borða skötu á Þorláksmessu. Þetta leiðir ný könnun MMR á jólahefðum landsmanna í ljós. Alls voru 34,5% sem sögðust ætla að borða skötu í dag, Þorláksmessudag, sem er fækkun um eitt og hálft prósentustig frá því í fyrra og 7,6 prósentustiga fækkun frá því tíðni skötuáts náði hámarki í mælingum MMR árið 2013.
Hangikjötið á jóladag klassík
Íslendingar ríghalda í hangikjötshefðina og segjast 72% þeirra ætla að borða hangikjöt á jóladag í ár. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR sem fram fór dagana 12-15. desember. Helsta breytingin sem hefur orðið á undanförnum árum varðandi matarvenjur á jóladag er að nú sögðust heil 3,2% ætla að hafa grænmeti sem aðalrétt - sem er töluverð breyting frá árinu 2010 þegar ekki nema 0,6% sögðust ætla að borða grænmetisfæði á jóladag. Tæp 4% landsmanna ætla að borða kalkún, rúm 3% lambakjöt (annað en hangikjöt) og tæp 2% nautakjöt.
Margir gæða sér á hamborgarhrygg
Á aðfangadag mun stór hluti, eða 47%, landsmanna gæða sér á hamborgarhrygg. Þetta sýnir könnun MMR sem framkvæmd var dagana 12-15. desember. Næst vinsælasti jólamatur landsmanna er lambakjöt (annað en hangikjöt) en 13% munu að sögn gæða sér á því. Kalkúnn eða rjúpur verða á borði rúmlega 8% landsmanna hvort um sig, 5% ætla að borða nautakjöt og um 3% önd. Tæplega 15% munu hafa aðra rétti en fyrrgreinda á boðstólnum á aðfangadag.
Nokkur aukning reyndist á fjölda þeirra sem ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) á aðfangadag, eða um rúm 3 prósentustig. Breytingar á fjölda þeirra sem hyggjast borða aðra rétti reyndust óverulegar og ljóst að hefðir og venjur skipta miklu máli þegar kemur að vali á veisluföngum á aðfangadag.
Fleiri gervitré í stofum landsmanna en lifandi tré
Líkt og undanfarin ár verða gervijólatré töluvert algengari á heimilum landsmanna um jólin heldur en lifandi tré. Litlar breytingar virðast hafa orðið á jólatrjáahefðum frá því í fyrra. Í ár sögðust 54,8% svarenda ætla að hafa gervitré og 32,3% lifandi tré en 13% munu ekki setja upp neitt jólatré á heimili sinu í ár.
Æ færri senda jólakort
Æ færri landsmenn senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna með bréfpósti. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem framkvæmd var dagana 12-15. desember. Í ár munu 41.7% landsmanna senda jólakort með bréfpósti samanborið við 45,1,3% í fyrra og 56,3% árið áður. Á sama tíma fjölgar þeim sem eingöngu senda rafrænt jólakort en 13,1% segjast munu senda rafrænt jólakort í ár, samanborið við 11,5% í fyrra og 10,7% árið áður.
Þeim fjölgar jafnframt sem ekki senda jólakort en 45,2% kváðust ekki ætla að senda jólakort í ár. Þetta er aukning um tæp 2 prósentustig milli ára og aukning um rúm 12 prósentustig frá árinu 2015.
Mikill stuðningur við ríkisstjórnina
Sjálfstæðisflokkurinn mædist með með stuðning 23,2% landsmanna og þar með stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi samkvæmt nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 12-15.desember. Samfylkingin og Vinstri græn mælast nokkurn vegin jafn stór, með tæplega 17% fylgi, en Vinstri græn bæta við sig 3,7 prósentustigum frá því í síðustu könnun sem lauk þann þann 17. nóvember síðastliðinn. Píratar bæta við sig 4,2 prósentustigum milli kannana og Flokkur fólksins tapar 4,7 prósentustigum.
Mikil og almenn ánægja mældist meðal landsmanna með nýja ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar en 66,7% þeirra sem tóku afstöðu sögðust styðja ríkisstjórnina. Þetta er meiri stuðningur en nokkur ríkisstjórn hefur notið frá hruni og ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að mun færri, eða rúm 48%, segjast myndu kjósa ríkisstjórnarflokkana.
Stúfur sækir stíft að Kertasníki
MMR stóð í ár, líkt og undanfarin tvö ár, fyrir vinsældakosningu íslensku jólasveinanna. Kertasníkir reyndist hlutskarpastur þriðja árið í röð og heldur titlinum "Uppáhalds jólasveinn Íslendinga" með 30% tilnefninga. Sú breyting hefur aftur orðið frá fyrra ári að sérlegum aðdáendum Stúfs hefur fjölgað nokkuð, úr 24% í 29% og munar því ekki nema einu prósentustigi á vinsældum bræðranna tveggja. Hurðaskellir var líkt og fyrri ár í þriðja sæti með 13% tilnefninga.
Færri ökumenn nota síma án handfrjáls búnaðar
Þeim fækkar stöðugt ökumönnum sem tala í farsíma án handfrjáls búnaðar. Samkvæmt könnun MMR voru 47% Íslendinga sem sögðust hafa talað í farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar á síðastliðnum 12 mánuðum en það er 9 prósentustiga fækkun frá sömu könnun fyrir ári síðan. Á móti hefur fjöldi þeirra sem tala í farsímann með handfrjálsum búnaði aukist nokkuð og stendur nú í 44%.
Meirihluti Íslendinga notar hljóð- eða myndefni af deilisíðum
Þeim Íslendingum fækkar sem aldrei hafa notað tónlist, sjónvarpsefni eða kvikmyndir sem hefur verið hlaðið niður af deilisíðum. Þannig voru 44% Íslendinga sem aldrei hafa notað efni sem hefur verið hlaðið niður með slíkum hætti, samanborið við 50% árið 2015 í könnun MMR. Auk þess kom í ljós að fólk á aldrinum 18 - 29 ára reyndist líklegasti aldurshópurinn til að nota efni sem hlaðið hefur verið niður af deilisíðum.
Kjósendur VG vilja ekki Sjálfstæðisflokk - fylgi VG dalar
Stuðningur við Vinstri græn hefur dalað um 3,6 prósentustig frá síðustu alþingiskosningum og mælist nú 13,0%. Á sama tíma hefur stuðningur við Samfylkingu aukist úr 12,1% í 16,0%.
Munaði 1,2% að meðaltali á fylgi flokka
MMR birtir reglulega niðurstöður úr könnunum á fylgi flokkanna sem buðu fram fyrir nýliðnar Alþingiskosningar og var hin síðasta birt þann 27. október 2017. Heild voru meðalfrávik frá raunfylgi flokkanna 1,2 prósentustig. Það er, að meðaltali munaði 1,2 prósentustigum á atkvæðahlutfalli flokkanna í könnuninni og kosningunum. Munurinn reyndist eitt prósentustig eða minna hjá 7 flokkum af 11 sem buðu fram (þ.e. Vinstri grænum, Samfylkingu, Miðflokki, Framsóknarflokki, Bjartri framtíð, Alþýðufylkingu og Dögun). Mestur var munurinn á fylgi Sjálfstæðisflokks þar sem skeikaði 4,0 prósentustigum, sem skýrist að einhverju marki af því að hve Sjálfstæðisflokkurinn nýtur hlutfallslega mests stuðnings meðal eldri kjósenda sem gegnumsneitt eru líklegri til að skila sér á kjörstað. Í tilfelli annarra flokka, þ.e. Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins reyndist munurinn á bilinu 1,4-2,5 prósentustig.
Miklar sveiflur á fylgi flokka
Miklar hreyfingar virðast á fylgi stjórnmálaflokkanna þessa síðustu daga fyrir kosningar. Frá síðustu könnun MMR á fylgi flokka sem birt var í byrjun vikunnar hefur fylgi Vinstri grænna minnkað um tæp 3 prósentustig og mælist flokkurinn nú, síðasta sólarhringinn, með 16,6% fylgi. Fylgi Framsóknarflokksins hefur aftur á móti farið vaxandi frá síðustu mælingu og mældist nú 11,7% borið saman við 8,6% í síðustu könnun. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 21,3% fylgi en mældist 22,9% í síðustu könnun.
Sjálfstæðisflokkurinn með tæp 23%
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með stuðning 22,9% kjósenda. Vinstri græn koma þar á eftir með 19,9% - munurinn á flokkunum mælist þó innan vikmarka. Gagnaöflun stóð yfir dagana 20. til 23. október 2017.
Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa bætt við sig fylgi frá síðustu mælingu MMR sem lauk 18. október 2017 en þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 19,9% og Vinstri græn með 19,1% fylgi. Fylgi Samfylkingar minnkar aftur á móti á milli mælinga og er nú í 13,5%, samanborið við 15,8% í síðustu mælingu. Jafnframt fækkar fylgjendum Pírata á milli mælinga og mældust nú 9,3% en mældust 11,9% í síðustu könnun.
Þeim fækkar sem búa í leiguhúsnæði
Þeim Íslendingum sem búa í leiguhúsnæði hefur fækkað um 3,5% á síðastliðnum 12 mánuðum. Á móti hefur þeim sem búa í foreldrahúsum fjölgað um tæp 2 prósentustig. Þannig sögðust 18,3% búa í leiguhúsnæði nú samanborið við 21,8% árið 2016 og 10,0% bjuggu í foreldrahúsum samanborið við 8,1% árið 2016. Þá sögðust 69,9% búa í eigin húsnæði sem er aukning um 1 prósentustig frá síðustu mælingu MMR.
77% Íslendinga andvígir lögbanni
Meirihluti Íslendinga reyndist andvígur lögbanni Sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning fjölmiðla upp úr gögnum innan úr Glitni í könnun MMR, eða 77%. Þar af voru tæp 64% mjög andvígir lögbanninu og 13% frekar andvígir. Einungis 11,4% Íslendinga var fylgjandi lögbanninu og kváðust 11,6% hvorki fylgjandi né andvígir.
Fylgi Samfylkingar eykst
Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með mest fylgi íslenskra stjórnmálaflokka samkvæmt könnun MMR, eða 19,9%. Vinstri græn fylgja strax á eftir með 19,1% fylgi. Gagnaöflun stóð yfir dagana 17. til 18. október 2017.
Athygli vekur að fylgi Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna heldur áfram að minnka en Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,1% fylgi og Vinstri græn með 21,8% fylgi í síðustu mælingu MMR þann 11. október 2017.
Vinstri græn með mest fylgi
Vinstri græn mælast nú með mest fylgi íslenskra stjórnmálaflokka samkvæmt könnun MMR, eða 21,8%. Þar á eftir mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins 21,1%. Gagnaöflun stóð yfir dagana 6. til 11. október 2017.
Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa tapað fylgi frá síðustu mælingu MMR sem lauk 28. september 2017 en þá mældust Vinstri græn með 24,8% fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5% fylgi. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 13,0% en það er aukning upp á 3 prósentustig frá síðustu mælingu. Miðflokkurinn mælist með stuðning 10,7% kjósenda og mælist þar með stærri en Píratar, Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn.
Fæstum finnst ásættanlegt að borða úr skó
Það kemur ef til vill fæstum á óvart að Íslendingum finnst ásættanlegt að borða mat af hefðbundnum kringlóttum disk. En hvað með önnur matarílát sem í auknu mæli ryðja sér til rúms á veitingastöðum og heimilum landsmanna. MMR tók málið upp á sína arma og kannaði hvaða ílát eru ásættanleg og hvaða ílát eru óásættanleg að mati Íslendinga þegar kemur að því að reiða fram mat á þeim. Svarendum voru sýndar tíu myndir af mat í mismunandi ílátum og þeir spurðir hvort þeir töldu það ásættanlegt eða óásættanlegt að veitingastaðir, kaffihús eða barir reiði fram mat í þeim.
Íslendingar ánægðir með nágranna sína
Meirihluti Íslendinga eru ánægðir með nágranna sína, eða 87,8%. Þetta kom fram í könnun MMR þar sem svarendur voru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir væru með nágranna sína. Einungis 12,1% Íslendinga voru óánægðir með nágranna sína og þar af voru 4,8% mjög óánægðir.
Tannálfurinn ætti að gefa 100 eða 500 krónur fyrir hverja tönn
Mörgum er kunnugt um tannálfinn en hans hlutverk er að skipta nýdottnum tönnum undir koddum barna út fyrir peninga. Ekki eru þó allir sammála um upphæðina sem tannálfurinn ætti að skilja eftir fyrir hverja tönn en flestum Íslendingum finnst þó viðeigandi að tannálfurinn ætti að skilja eftir 100 krónur, eða 44% samkvæmt könnun MMR. Öðrum 30% Íslendinga finnst að tannálfurinn ætti að skilja eftir 500 krónur og 9% finnst að hann ætti að skilja eftir 1.000 krónur fyrir hverja tönn sem sett er undir kodda. Fæstir töldu að tannálfurinn ætti að skilja eftir lægri upphæðir en 100 krónur eða hærri upphæðir en 1.000 krónur.
MMR er skrásett vörumerki Markaðs og miðlarannsókna ehf.