Réttarfar

|

Meirihluti Íslendinga reyndist andvígur lögbanni Sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning fjölmiðla upp úr gögnum innan úr Glitni í könnun MMR, eða 77%. Þar af voru tæp 64% mjög andvígir lögbanninu og 13% frekar andvígir. Einungis 11,4% Íslendinga var fylgjandi lögbanninu og kváðust 11,6% hvorki fylgjandi né andvígir.

 

1710 lögbann1Spurt var: „Ert þú fylgjandi eða andvíg(ur) lögbanni Sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning fjölmiðla upp úr gögnum innan úr Glitni sem snúið hafa að viðskiptum Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, dagana fyrir hrun?“. Valmöguleikarnir voru: Mjög andvíg(ur), Frekar andvíg(ur), Hvorki né, Frekar fylgjandi, Mjög fylgjandi, auk veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 89,7% svarenda afstöðu til spurningarinnar.

Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum

Þegar munur á afstöðu er skoðaður eftir lýðfræðihópum kom í ljós að stjórnendur og æðstu embættismenn með milljón eða meira á mánuði voru líklegri en aðrir hópar til að vera fylgjandi lögbanninu.

Einnig mátti sjá að stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins var líklegra til að segjast fylgjandi lögbanninu, borið saman við aðra stjórnmálaflokka. Þannig voru 34% af stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins fylgjandi lögbanninu, á meðan enginn af stuðningfólki Vinstri grænna var fylgjandi því. Af stuðningsfólki annarra flokka kom í ljós að 18% af stuðningsfólki Framsóknar kváðust fylgjandi, 5% af stuðningsfólki Viðreisnar, 4% af stuðningsfólki Samfylkingarinnar og 1% af stuðningsfólki Pírata kváðust fylgjandi lögbanni Sýslumannsins í Reykjavík á fréttaflutning fjölmiðla.


1710 lögbann2

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1007 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 17.-18. október 2017