Dægurmál

|

Mörgum er kunnugt um tannálfinn en hans hlutverk er að skipta nýdottnum tönnum undir koddum barna út fyrir peninga. Ekki eru þó allir sammála um upphæðina sem tannálfurinn ætti að skilja eftir fyrir hverja tönn en flestum Íslendingum finnst þó viðeigandi að tannálfurinn ætti að skilja eftir 100 krónur, eða 44% samkvæmt könnun MMR. Öðrum 30% Íslendinga finnst að tannálfurinn ætti að skilja eftir 500 krónur og 9% finnst að hann ætti að skilja eftir 1.000 krónur fyrir hverja tönn sem sett er undir kodda. Fæstir töldu að tannálfurinn ætti að skilja eftir lægri upphæðir en 100 krónur eða hærri upphæðir en 1.000 krónur.

 

1709 tannalfur01Spurt var: „Hvaða pening, ef einhvern, telur þú að 'tannálfurinn' eigi að skilja eftir fyrir hverja tönn sem sett er undir kodda?“ Svarmöguleikar voru 1 kr., 5 kr., 10 kr., 50 kr., 100 kr., 500 kr., 1.000 kr., 2.000 kr., 5.000 kr. og 10.000 kr. auk „veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 92,8% svarenda afstöðu til spurningarinnar.

Munur eftir lýðfræðihópum 

Þegar munur var skoðaður eftir lýðfræðihópum kom í ljós að töluvert fleiri konur (56%) en karlar (33%) sögðu að tannálfurinn ætti að skilja eftir 100 krónur fyrir hverja tönn undir kodda. Aftur á móti voru karlar (34%) líklegri en konur (25%) til að segja að tannálfurinn ætti að gefa 500 krónur. Jafnframt mátti sjá að því hærri sem heimilistekjur svarenda var því líklegri voru þeir til að segja að tannálfurinn ætti að skilja eftir 500 krónur fyrir hverja tönn. Þannig voru 20% þeirra sem sögðu að tannálfurinn ætti að skilja eftir 500 krónur með undir 400 þúsund í heimilistekjur og 39% með milljón eða meira í heimilistekjur. Karlar 68 ára og eldri með grunnskólamenntun voru líklegri en aðrir hópar til að segja að tannálfurinn ætti ekki að skilja eftir neinn pening.

Stuðningsfólk Vinstri grænna voru töluvert líklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að segja að tannálfurinn ætti að skilja eftir 100 krónur, eða 60%. Stuðningsfólk Samfylkingarinnar var jafnframt ólíklegasti hópurinn til að segja slíkt hið sama en voru hins vegar ívið líklegri en stuðningsfólk annarra flokka til að segja að tannálfurinn ætti að skilja 1.000 krónur eftir undir koddanum, eða 24%.


1709 tannalfur02

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 916 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 30. ágúst - 4. september 2017