Matarvenjur Dægurmál

|

Það kemur ef til vill fæstum á óvart að Íslendingum finnst ásættanlegt að borða mat af hefðbundnum kringlóttum disk. En hvað með önnur matarílát sem í auknu mæli ryðja sér til rúms á veitingastöðum og heimilum landsmanna. MMR tók málið upp á sína arma og kannaði hvaða ílát eru ásættanleg og hvaða ílát eru óásættanleg að mati Íslendinga þegar kemur að því að reiða fram mat á þeim. Svarendum voru sýndar tíu myndir af mat í mismunandi ílátum og þeir spurðir hvort þeir töldu það ásættanlegt eða óásættanlegt að veitingastaðir, kaffihús eða barir reiði fram mat í þeim.

Af þessum tíu ílátum kom í ljós að Íslendingum fannst matur borinn fram í skó vera síst ásættanlegur, en einungis 13% Íslendinga fannst það ásættanlegt. Matur borinn fram í hundaskál var næstminnst ásættanlegt að mati Íslendinga, en 23% Íslendinga sögðu það ásættanlegt. Að auki var matur borinn fram í skóflu (33%) og blómapotti (39%) ekki líklegt til vinsælda meðal almennings. Strangheiðarlegur hellusteinn þótti ásættanlegt matarílát hjá 53% svarenda og þá komu krukka, tréplatti og steinskífa með velþóknun um og yfir 80% svarenda. Litlu munaði á kringlóttum og ferhyrndum diskum en þeir voru viðurkenndir sem matarílát af 98% og 97% svarenda.

1709 matardiskar02

Spurt var: „Að því gefnu að þau væru hrein, telur þú ásættanlegt eða óásættanlegt að veitingastaðir, kaffihús eða barir reiði fram mat í eftirfarandi ílátum?“ Svarmöguleikar voru ásættanlegt og óásættanlegt, auk „veit ekki/vil ekki svara“. Samtals tóku 97,0% svarenda afstöðu til spurningarinnar.

 

Munur eftir lýðfræðihópum 

Þegar munur eftir lýðfræðihópum var skoðaður kom í ljós að karlar virtust umburðarlyndari en konur gagnvart því að matur væri framreiddur í skó. Þannig töldu 18% karla það ásættanlegt, samanborið við 8% kvenna.

Hvað varðar stuðning við stjórnmálaflokka, kom í ljós að stuðningsfólk Bjartrar framtíðar var líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að telja ásættanlegt að matur sé framreiddur í hundaskál (50%) og í skó (26%). Jafnframt töldu 32% af stuðningsfólki Pírata og 30% af stuðningsfólki Framsóknar það ásættanlegt að matur væri reiddur fram í hundaskál.

1709 matardiskar 3

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 916 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 30. ágúst - 4. september 2017