Dægurmál

|

Mikil ánægja var á meðal landsmanna með Áramótaskaupið 2017 en heil 76% þátttakenda í könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 9-17. janúar 2018, sögðu Áramótaskaupið hafa verið gott. Frá því að MMR hóf að mælingar á ánægju með Áramótaskaupið árið 2011 hefur ánægjan aðeins einu sinni mælst meiri eða 81% árið 2013. Aðeins 10% kváðu Áramótaskaupið 2017 hafa verið slakt en óánægja með Skaupið mældist mest árið 2012 þegar 48% sögðu það hafa verið slakt.

1801 SkaupidSpurt var: Hvernig fannst þér Áramótaskaupið 2017? Svarmöguleikar voru: Mjög slakt, frakar slakt, bæði og, frekar gott, mjög gott, ég horfði ekki á áramótaskaupið, veit ekki/vil ekki svara. Samtals tóku 95,1% afstöðu til spurningarinnar. 

Skaupið sérlega vinsælt meðal yngri kynslóðarinnar

Ívið fleiri konur (78%) en karlar (74%) sögðu Skaupið hafa verið gott og sögðu 13% karla skaupið hafa verið slakt samanborið við 8% kvenna.

Af yngsta aldurshópnum, 18-29 ára voru 84% sem sögðu Skaupið hafa verið gott, samanborið við 67% þeirra 68 ára og eldri. Skaupið virðist hafa fallið betur í kramið hjá þeim sem yngri eru og fer ánægjan stiglækkandi með hækkandi aldri. Aðeins 6% þeirra á aldrinum 18-29 ára sögðu Skaupið hafa verið slakt, samanborið við 18% þeirra 68 ára og eldri.

Skaupið virðist hafa höfðað betur til íbúa höfuðborgarsvæðisins heldur en íbúa landsbyggðarinnar en 14% þátttakenda búsettir á landsbyggðinni kváðu Skaupið hafa verið slakt, samanborið við 8% íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Stuðningsfólk Viðreisnar virðist hafa verið sérlega ánægt með Skaupið en 89% kváðu Skaupið hafa verið gott og einungis 2% kváðu það hafa verið slakt. Minnst ánægja með Skaupið var hjá stuðningsfólki Flokks fólksins (63%) og Miðflokksins (65%) en af stuðningsfólki Flokks fólksins sögðu 17% skaupið hafa verið slakt og 19% af stuðningsfólks Miðflokksins.

1801 Skaupid x

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1594 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 9. til 17. janúar 2018

Eldri kannanir sama efnis:
2015 janúar: MMR könnun: Viðhorf til Áramótaskaupsins 2014
2014 janúar: MMR könnun: Viðhorf til Áramótaskaupsins 2013
2013 janúar: MMR könnun: Viðhorf til Áramótaskaupsins 2012
2012 janúar: MMR könnun: Viðhorf til Áramótaskaupsins 2011