Samfélagsmál

|

Ólögleg notkun á farsímum undir stýri minnkar á milli ára en notkun á handfrjálsum búnaði eykst. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR á farsímanotkun landsmanna undir stýri sem framkvæmd var dagana 8.-12. nóvember 2018. Alls sögðust 49% svarenda hafa notað farsíma undir stýri fyrir símtöl með handfrjálsum búnaði á síðustu 12 mánuðum, 34% fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar, 30% til að nota leiðsögukort (svo sem Google Maps), 16% til að skrifa eða lesa tölvupósta, sms eða annars konar skilaboð, 6% til að fara á internetið, 6% til að taka mynd og 1% til að spila tölvuleik. Þá kváðust 22% svarenda ekki hafa notað farsíma undir stýri á síðustu 12 mánuðum.

Þróun yfir tíma

Hlutfall þeirra landsmanna sem notað hafa farsíma undir stýri fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar hefur lækkað með hverri mælingu frá árinu 2010 og er nú í fyrsta skipti lægra en hlutfall þeirra sem notað hafa farsíma fyrir símtöl með handfrjálsum búnaði við akstur. Þá lækkar hlutfall þeirra sem nota farsíma til að lesa skilaboð, vafra um á netinu, taka myndir og spila leiki einnig á milli ára en hlutfall þeirra sem hafa ekki notað farsíma við akstur helst að mestu óbreytt frá mælingu síðasta árs.

1811 simi keyrsla v2Spurt var: „Hefur þú notað farsíma undir stýri á síðastliðna 12 mánuði?“
Svarmöguleikar voru: „Já, fyrir símtöl með handfrjálsum búnaði“, „Já, fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar“, „Já, til að nota leiðsögukort (t.d. Google Maps)“,
„Já, til að skrifa/lesa sms, tölvupóst eða önnur skilaboð“, „Já, til að fara á internetið (t.d. skoða fréttasíður eða samfélagsmiðla“, „Já, til að taka mynd“, „Já, til að spila tölvuleik“,
„Nei“ og „Veit ekki/vil ekki svara“. Samtals tóku 99,0% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Konur (26%) reyndust líklegri heldur en karlar (19%) til að segjast ekki nota farsíma undir stýri. Mestan mun á farsímanotkun eftir kynjum var að sjá í símtölum án handfrjáls búnaðar en 41% karla sögðust hafa átt slík símtöl við akstur, samanborið við 27% kvenna.

Notkun farsíma undir stýri minnkaði með auknum aldri en 47% svarenda í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) kváðust ekki hafa notað farsíma undir stýri á síðustu 12 mánuðum, samanborið við 14% þeirra 18-29 ára og 13% þeirra 30-49 ára. Svarendur á aldrinum 30-49 ára voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa átt símtöl með handfrjálsum búnaði við akstur en þau 18-29 ára reyndust líklegust til að segjast hafa stundað aðra farsímanotkun við akstur en 46% þeirra kváðust hafa átt símtal án handfrjáls búnaðar, 58% kváðust hafa notað farsíma sem leiðsögukort við akstur og 32% til að skrifa eða lesa skilaboð.

Þá voru svarendur búsettir á landsbyggðinni (37%) líklegri en þeir af höfuðborgarsvæðinu (33%) til að tala í síma undir stýri án þess að nota handfrjálsan búnað. Íbúar höfuðborgarsvæðisins reyndust hins vegar líklegri til að nota leiðsögukort í farsíma við akstur (35%), skrifa eða lesa skilaboð (18%) og nota handfrjálsan búnað (51%) en þau af landsbyggðinni.

1811 simi keyrsla x1

MMR könnun 2017: Notkun farsíma undir stýri
MMR könnun 2016: Notkun farsíma undir stýri
MMR könnun 2014: Notkun farsíma undir stýri
MMR könnun 2010: Notkun farsíma undir stýri

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1048 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 8. til 12. nóvember 2018