Samfélagsmál

|

Þeim fækkar stöðugt ökumönnum sem tala í farsíma án handfrjáls búnaðar. Samkvæmt könnun MMR voru 47% Íslendinga sem sögðust hafa talað í farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar á síðastliðnum 12 mánuðum en það er 9 prósentustiga fækkun frá sömu könnun fyrir ári síðan. Á móti hefur fjöldi þeirra sem tala í farsímann með handfrjálsum búnaði aukist nokkuð og stendur nú í 44%.

Þróun yfir tíma

Ef litið er á þróun yfir tíma má sjá að þeim sem tala í símann undir stýri án handfrjáls búnaðar hefur fækkað stöðugt frá árinu 2010. Þannig kváðust 47% svarenda tala í símann án handfrjáls búnaðar í síðustu könnun MMR en 71% árið 2010. Á móti hefur fjöldi þeirra sem tala í símann undir stýri með handfrjálsum búnaði aukist úr 24% árið 2010 í 44% árið 2017. Eins hefur fjölda þeirra sem ekki hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði aukist um 6 prósentustig, úr 17% árið 2010 í 23% árið 2017.

1711 simi keyrsla01 

Spurt var: Hefur þú notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði? Svarendur máttu merkja við einn eða fleiri af þeim svarmöguleikum sem sýndir eru í myndinni, auk „Veit ekki/vil ekki svara“. Samtals tóku 98,6% afstöðu til spurningarinnar.

 

Munur á lýðfræðihópum

Konur (28%) voru líklegri en karlar (18%) til að segjast ekki hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði. Þegar yngsti aldurshópurinn, 18 - 29 ára, var skoðaður mátti sjá að sá fólk í þeim hóp var líklegra en fólk í öðrum aldurshópum til að segjast hafa notað farsíma undir stýri til að skrifa/lesa skilaboð (33%), taka mynd (16%) og til að fara á internetið (17%). Ef það er borið saman við niðurstöður frá árinu 2016 mátti sjá töluverða breytingu á farsímanotkun undir stýri meðal ungs fólks, en þá kváðust 45% fólks á aldrinum 18 - 29 ára hafa notað farsímann undir stýri til að skrifa/lesa skilaboð, 29% kváðust hafa notað símann til að taka mynd og önnur 29% sögðust hafa notað símann til að fara á internetið.

Þegar niðurstöður voru skoðaðar eftir búsetu kom í ljós að fólk sem búsett var á landsbyggðinni (50%) reyndist líklegra en fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu (44%) til að tala í símann undir stýri án handfrjáls búnaðar. Fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu var aftur á móti líklegra (48%) heldur en fólk búsett á landsbyggðinni (36%) til að tala í símann undir stýri með handfrjálsum búnaði.

Auk þess kom í ljós að því lægri heimilistekjur sem svarendur höfðu því líklegri voru þeir til að nota ekki farsíma undir stýri. Þannig sögðust 41% þeirra sem höfðu undir 250 þúsund í heimilistekjur á mánuði ekki hafa notað farsíma undir stýri síðastliðna 12 mánuði, samanborið við 15% þeirra sem höfðu milljón eða meira á mánuði. Þeir svarendur sem höfðu hærri heimilistekjur voru þó líklegri til að tala í símann undir stýri bæði með og án handfrjáls búnaðar, borið saman við þá sem höfðu lægri heimilistekjur. Sem dæmi sögðust helmingur svarenda með milljón eða meira í heimilistekjur hafa talað í síma undir stýri án handfrjáls búnaðar á síðastliðnum 12 mánuðum, á meðan tæplega þriðjungur fólks með heimilistekjur undir 250 þúsund gerði slíkt hið sama.

1711 simi keyrsla 02

Fyrri kannanir sama efnis:

MMR könnun 2016: Notkun farsíma undir stýri
MMR könnun 2014: Notkun farsíma undir stýri

MMR könnun 2010: Notkun farsíma undir stýri

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 944 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 14. til 17. nóvember 2017