Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum fara minnkandi. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar 2019. Svarendur voru spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Líkt og í fyrra voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum (44%), fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður (35%), heilbrigðisþjónusta (35%) og húsnæðismál (30%) sem reyndust helstu áhyggjuvaldar þjóðarinnar, þó að röðun þeirra hafi tekið breytingum á milli ára.
Spurt var: „Hvaða þremur af neðangreindum atriðum hefur þú mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi?“
Svarmöguleikar voru: „Atvinnuleysi“, „Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum“, „Fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður“, „Glæpir og ofbeldi“, „Heilbrigðisþjónusta“,
„Hryðjuverk“, „Menntun“, „Skattar“, „Innflytjendamál“, „Siðferðishnignun“, „Verðbólga“, „Uppgangur öfgaskoðana“, „Viðhald velferðarkerfisins“, „Ógnir gegn umhverfinu“,
„Loftslagsbreytingar“, „Ofþyngd barna“, „Aðgengi að lánsfé“, „Húsnæðismál“, „Efnahagslegt hrun/samdráttur“, „Ekkert af ofangreindu“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 97,6% afstöðu til spurningarinnar.
Af þeim áhyggjuefnum sem spurt var um hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum aukist mest frá könnun ársins 2018. Voru loftslagsbreytingar nefndar af 20% svarenda í nýafstaðinni könnun en það er aukning um sem nemur 11 prósentustigum. Þá hafa áhyggjur af sköttum (7 prósentustiga aukning), verðbólgu (6 prósentustiga aukning), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (5 prósentustiga aukning) og efnahagslegu hruni/samdrætti (4 prósentustiga aukning) einnig aukist á milli ára.
Áhyggjur af menntun hafa minnkað mest af öllum málefnum eða um því sem nemur 13 prósentustigum frá könnun síðasta árs, úr 17% í 5%. Þá hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (9 prósentustig), glæpum og ofbeldi (6 prósentustig) og húsnæðismálum (4 prósentustig) einnig minnkað yfir sama tímabil.
Munur eftir lýðfræðihópum
Af fimm stærstu áhyggjuefnunum má sjá að konur sögðust hafa meiri áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (45%) og húsnæðismálum (35%) heldur en karlar (25% í báðum flokkum). Áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum fóru vaxandi með auknum aldri en 62% svarenda 68 ára og eldri kváðust hafa áhyggjur af spillingu, samanborið við 32% svarenda yngsta aldurshópsins (18-29 ára). Áhyggjur af húsnæðismálum fóru hins vegar minnkandi með auknum aldri svarenda og voru mestar á meðal þeirra í yngsta aldurshópi eða 50%. Þá lýstu svarendur á aldrinum 18-29 ára mest allra aldurshópa áhyggjum af heilbrigðisþjónustu (41%) og loftslagsbreytingum (25%) en svarendur á aldrinum 50-67 ára voru líklegastir til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði.
Íbúar landsbyggðarinnar reyndust líklegri til að segjast hafa mestar áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (51%) og fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (39%) heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu. Svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu voru aftur á móti líklegri til að segjast hafa mestar áhyggjur af húsnæðismálum (34%) og loftslagsmálum (21%) en þau af landsbyggðinni.
Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Pírata (71%), Miðflokks (63%) og Flokks fólksins (60%) reyndist líklegast til að segjast hafa mestar áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (26%) og Viðreisnar (30%) ólíklegast. Stuðningsfólk Flokks fólksins reyndist einnig líklegast til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (57%) og húsnæðismálum (47%) en stuðningsfólk Viðreisnar var líklegast til að segjast hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (42%). Þá reyndist stuðningsfólk Vinstri-grænna líklegra en stuðningsfólk annarra stjórnmálaflokka til að segjast hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum (33%).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 934 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 11. til 15. febrúar 2019
Eldri kannanir sama efnis:
2018 apríl: MMR könnun: Meirihluti telur hlutina á réttri leið
2017 mars: MMR könnun: Hvert stefnir þetta alltsaman eiginlega?
2019 mars: Ipsos Public Affairs könnun: What worries the world