Samfélagsmál Tilveran

|

Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum veldur landsmönnum mestum áhyggjum en áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og húsnæðismálum fara minnkandi. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-15. febrúar 2019. Svarendur voru spurðir um hvaða þrjú atriði þeir hefðu mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Líkt og í fyrra voru það spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum (44%), fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður (35%), heilbrigðisþjónusta (35%) og húsnæðismál (30%) sem reyndust helstu áhyggjuvaldar þjóðarinnar, þó að röðun þeirra hafi tekið breytingum á milli ára.

1902 Áhyggjur 1Spurt var: „Hvaða þremur af neðangreindum atriðum hefur þú mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi?“
Svarmöguleikar voru: „Atvinnuleysi“, „Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum“, „Fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður“, „Glæpir og ofbeldi“, „Heilbrigðisþjónusta“,
„Hryðjuverk“, „Menntun“, „Skattar“, „Innflytjendamál“, „Siðferðishnignun“, „Verðbólga“, „Uppgangur öfgaskoðana“, „Viðhald velferðarkerfisins“, „Ógnir gegn umhverfinu“,
„Loftslagsbreytingar“, „Ofþyngd barna“, „Aðgengi að lánsfé“, „Húsnæðismál“, „Efnahagslegt hrun/samdráttur“, „Ekkert af ofangreindu“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 97,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Af þeim áhyggjuefnum sem spurt var um hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum aukist mest frá könnun ársins 2018. Voru loftslagsbreytingar nefndar af 20% svarenda í nýafstaðinni könnun en það er aukning um sem nemur 11 prósentustigum. Þá hafa áhyggjur af sköttum (7 prósentustiga aukning), verðbólgu (6 prósentustiga aukning), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (5 prósentustiga aukning) og efnahagslegu hruni/samdrætti (4 prósentustiga aukning) einnig aukist á milli ára.

1902 Áhyggjur 2

Áhyggjur af menntun hafa minnkað mest af öllum málefnum eða um því sem nemur 13 prósentustigum frá könnun síðasta árs, úr 17% í 5%. Þá hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (9 prósentustig), glæpum og ofbeldi (6 prósentustig) og húsnæðismálum (4 prósentustig) einnig minnkað yfir sama tímabil.

1902 Áhyggjur 3

Munur eftir lýðfræðihópum

Af fimm stærstu áhyggjuefnunum má sjá að konur sögðust hafa meiri áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (45%) og húsnæðismálum (35%) heldur en karlar (25% í báðum flokkum). Áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum fóru vaxandi með auknum aldri en 62% svarenda 68 ára og eldri kváðust hafa áhyggjur af spillingu, samanborið við 32% svarenda yngsta aldurshópsins (18-29 ára). Áhyggjur af húsnæðismálum fóru hins vegar minnkandi með auknum aldri svarenda og voru mestar á meðal þeirra í yngsta aldurshópi eða 50%. Þá lýstu svarendur á aldrinum 18-29 ára mest allra aldurshópa áhyggjum af heilbrigðisþjónustu (41%) og loftslagsbreytingum (25%) en svarendur á aldrinum 50-67 ára voru líklegastir til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði.

Íbúar landsbyggðarinnar reyndust líklegri til að segjast hafa mestar áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (51%) og fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (39%) heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu. Svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu voru aftur á móti líklegri til að segjast hafa mestar áhyggjur af húsnæðismálum (34%) og loftslagsmálum (21%) en þau af landsbyggðinni.

1902 Áhyggjur x1

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Pírata (71%), Miðflokks (63%) og Flokks fólksins (60%) reyndist líklegast til að segjast hafa mestar áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (26%) og Viðreisnar (30%) ólíklegast. Stuðningsfólk Flokks fólksins reyndist einnig líklegast til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (57%) og húsnæðismálum (47%) en stuðningsfólk Viðreisnar var líklegast til að segjast hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (42%). Þá reyndist stuðningsfólk Vinstri-grænna líklegra en stuðningsfólk annarra stjórnmálaflokka til að segjast hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum (33%). 

1902 Áhyggjur x2

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 934 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 11. til 15. febrúar 2019

Eldri kannanir sama efnis:
2018 apríl: MMR könnun: Meirihluti telur hlutina á réttri leið
2017 mars: MMR könnun: Hvert stefnir þetta alltsaman eiginlega?

2019 mars: Ipsos Public Affairs könnun: What worries the world