Samfélagsmál

|

Íslendingar hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum. Þetta sýnir nýleg könnun MMR þar sem athugað var hverju landsmenn hafi mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi. Svarendur gátu merkt við allt að þrjú atriði. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar kváðust 49,2% hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu og 48,9% af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum. 

Rannsóknafyrirtækið Ipsos gerði sambærilega könnun í nóvember árið 2016 sem náði til 25 landa. Í þeirri könnun kom í ljós að heilt á litið hafði fólk í þessum löndum mestar áhyggjur af atvinnuleysi (38%), fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (34%) og spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (33%).

Þegar litið er til einstakra landa sést að líkt og á Íslandi höfðu landsmenn í Ungverjalandi (63%), Póllandi (49%) og Brasilíu (48%) mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu þar í landi. Í Ungverjalandi var spilling (56%) í öðru sæti yfir það sem fólk hafði mestar áhyggjur af og fátækt (56%) í því þriðja, líkt og á Íslandi. Í Ísrael (51%), Tyrklandi (66%) og Bandaríkjunum (33%) reyndust mestu áhyggjurnar snúa að hryðjuverkum. Þessu var öfugt farið á Íslandi en í könnun MMR kváðust einungis 1,7% svarenda hafa áhyggjur af hryðjuverkum hér á landi.

Tæplega 37% svarenda í könnun MMR kváðust hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði og tæp 24% höfðu áhyggjur af viðhaldi velferðakerfisins. Loftslagsbreytingar ollu um 17% svarenda áhyggjum. Um 14% höfðu áhyggjur af uppgangi öfgaskoðana, innflytjendamálum og siðferðishnignun, 13% höfðu áhuggjur af menntun, 12% tilgreindu verðbólgu, 10% nefndu glæpi/ofbeldi og ofþyngd barna, 9% höfðu áhyggjur af sköttum og 8% tilgreindu ógnir gegn umhverfinu. Íslendingar virtust síst hafa áhyggjur af hryðjuverkum, aðgengi að lánsfé og atvinnuleysi sem öll voru tilgreind af um 2% svarenda. 

 1702 ahyggjur 2Spurt var: „Hvaða þremur af neðangreindum atriðum hefur þú mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi?“ 
Samtals tóku 97,9% svarenda afstöðu til spurningarinnar.

Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum

Munur reyndist á svörum þátttakenda eftir lýðfræðilegum breytum. Konur (59%) höfðu meiri áhyggjur af heilbrigðisþjónustu en karlar (40%). Því var öfugt farið þegar kom að spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum en 53% karla kváðust hafa áhyggjur af spillingu samanborið við 45% kvenna. Yngra fólk reyndist almennt séð hafa minni áhyggjur af bæði spillingu og fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði, heldur en eldra fólk.  

Fólk búsett á landsbyggðinni hafði meiri áhyggjur af spillingu (55%) og fátækt (43%) heldur en fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar kváðust 45% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu hafa áhyggjur af spillingu og 33% af fátækt. Þau sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu (18%) reyndust þó hafa meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum heldur en þau búsett á landsbyggðinni (14%). 

Heil 60% námsmanna kváðust hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu en einungis 32% þeirra sögðust hafa áhyggjur af spillingu. Jafnframt höfðu 27% námsmanna áhyggjur af loftslagsbreytingum sem er nokkuð hærra hlutfall en hjá öðrum starfsstéttum. 

Töluverður munur reyndist á svörum eftir stjórnmálaskoðunum. Stuðningsmenn Framsóknar (6%) reyndust hafa minnstar áhyggjur af loftslagsbreytingum samanborið við 25% stuðningsmanna Vinstri grænna. Stuðningsmenn Samfylkingarinnar (43%) höfðu töluvert meiri áhyggjur af viðhaldi velferðakerfisins heldur en stuðningsmenn annarra flokka. Af stuðningsmönnum Pírata kváðust 74% hafa áhyggjur af spillingu, samanborið við 26% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks. Einungis 19% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins höfðu áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (samanborið við 37% í heild). Af stuðningsmönnum Vinstri grænna kváðust 59% hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu í landinu samanborið við 33% stuðningsmanna Framsóknarflokksins.   

 1702 ahyggjur x

 

Ipsos Public Affairs könnun 2016: What worries the world?

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 983 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 1.-5. febrúar 2017