Samkvæmt nýrri könnun MMR hyggjast aðeins um 38% landsmanna senda jólakort með bréfpósti þetta árið samanborið við tæplega 47% Íslendinga í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust 43,5% ekki ætla að senda nein jólakort í ár og er það 10,5 prósentustiga hækkun frá því í síðustu könnun. Ívið fleiri ætla að senda rafrænt jólakort í ár heldur en í fyrra eða 11,5% landsmanna. Þeim fækkar um tæp 3 prósentustig milli ára sem hyggjast senda jólakort bæði með bréfpósti og rafrænt.
Spurt var: Ætlar þú að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár?
Svarmöguleikar voru: Já, með bréfpósti; Já, rafrænt (s.s. með tölvupósti eða í
gegnum samfélagsmiðla); Nei, ég sendi ekki jólakort; og Veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 93,7% afstöðu til spurningarinnar. Þeir sem tóku ekki afstöðu svöruðu
Veit ekki/vil ekki svara. Hlutfallstölur eru reiknaðar sem hlutfall af þeim sem tóku
afstöðu til spurningarinnar.
Munur á hvort fólk sendir jólakort eftir kyni, aldri og atvinnu
Hærra hlutfall kvenna (42%) en karla (35%) hyggjast senda jólakort með bréfpósti og um 48% karla segjast ekki ætla að senda jólakort í ár samanborið við 38% kvenna. Íslendingar á aldrinum 18-29 ára eru ólíklegri til að senda jólakort samanborið við fólk 30 ára og eldra. Þannig sögðust 71% þeirra sem voru á aldrinum 18-29 ára ekki ætla að senda nein jólakort í ár. Hlutfall þeirra sem ætla að senda jólakort með bréfpósti fer stighækkandi með hærri aldri. Áhugavert er að að sjá hversu margir í aldurshópunum 68 ára og eldri ætla að senda jólakort með bæði rafrænum hætti og bréfpósti borið saman við aðra aldurshópa.
Þegar svardreifing er skoðuð með tilliti til atvinnu sést að 52% bænda og sjómanna ætla að senda jólakort með bréfpósti og einnig 52% stjórnenda og æðstu embættismanna. Námsmenn eru ólíklegastir til að senda jólakort en 74% þeirra sögðust ekki ætla að senda jólakort í ár. Þjónustu- og afgreiðslufólk (20%) er líklegast til að senda jólakort með rafrænum hætti.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 924 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 9. til 14. desember 2016
Eldri kannanir sama efnis:
2015 desember: MMR könnun: Ætla landsmenn að senda jólakort