Tvö af hverjum þremur Íslendingum hyggjast gæða sér á hangikjöti sem aðalrétt á jóladag. Hangikjöt hefur verið langvinsælasti réttur Íslendinga á jóladag um árabil, en vinsældir hangikjöts mælast þó ívið lægri í ár í samanburði við árið í fyrra. Í könnuninni sögðust 67,9% svarenda ætla að eta hangiket sem aðalrétt á jóladag í ár, en 72,0% í fyrra. Munurinn er þó naumlega innan vikmarka.
Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 9,8% ætla að borða hamborgarhrygg, 4,3% lambakjöt (annað en hangiket), 4,4% kalkún og 13,5% sögðust ætla að borða eitthvað annað en fyrrgreinda kosti.Spurt var: „Hvað er líklegast að þú munir borða sem aðalrétt á jóladag?“ Svarmöguleikar voru: Fiskur/sjávarfang, gæs, grænmetisfæði, hangikjöt, hamborgarhryggur, hreindýrakjöt, kalkúnn, kjúklingur, lambakjöt (annað en hangikjöt), nautakjöt, rjúpur, svínakjöt (annað en hamborgarhryggur), önd, annað kjöt, annað og veit ekki/vil ekki svara.
Munur milli hópa
Stuðningsmenn Framsóknar eru sem fyrr helstu stuðningsmenn hangikjötshefðarinnar, en 80% þeirra sem styðja Framsókn sögðust líklegast borða hangikjöt sem aðalrétt á jóladag.
Elsta kynslóðin er töluvert líklegri en sú yngsta til að halda í hangikjötshefðina, en 79% þeirra sem voru 68 ára og eldri hugðust borða hangikjöt í aðalrétt þessi jólin en einungis 58% þeirra sem voru 18-29 ára. Fróðlegt verður að vita hvort að þau sem yngri eru muni stíga á hangikjötsbensínið með árunum eða hvort hangikjötsmáltiðum muni fari fækkandi með komandi kynslóðaskiptum.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 924 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 9.-14. desember 2016
Eldri kannanir sama efnis:
2015 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á jóladag
2014 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á jóladag
2013 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á jóladag
2012 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á jóladag
2011 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á jóladag
2010 desember: MMR könnun: hvað verður á borðum fólks á jóladag