Samkvæmt nýlegri könnun MMR munu rúm 86% Íslendinga prýða heimili sín með jólatré þessi jólin og eru gervitrén töluvert vinsælli meðal Íslendinga. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 54,1% ætla að setja upp gervitré en 32,3% hyggðust setja upp lifandi tré.
Þeim sem ekki hyggjast setja upp jólatré hefur fjölgað um tæp 5 prósentustig síðan árið 2010. Á þessum tíma hefur jafnframt dregið töluvert saman í hópi þeirra Íslendinga sem segjast ætla að hafa lifandi tré um jólin og hefur þeim fækkað um rúm 9 prósentustig á 6 árum. Aftur á móti hefur aukist í hópi þeirra sem kjósa gervitré og nemur aukningin um 4,5%.
Spurt var: „Verður jólatré á þínu heimili í ár?“.
Svarmöguleikar voru: Já - lifandi tré, já – gervitré, nei og veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 97,0% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir aldri, tekjum og stuðningi við stjórnmálaflokka.
Þegar skoðaður var munur á milli aldurshópa reyndust Íslendingar á aldrinum 30-49 ára líklegri en aðrir aldurshópar til að setja upp jólatré. Af þeim sem tóku afstöðu og voru á aldrinum 30-49 ára sögðust 39% ætla að vera með lifandi jólatré og 55% með gervitré. Svarendur í aldurshópunum 18-29 ára (23%) og 68 ára og eldri (25%) reyndust líklegri en aðrir til að ætla ekki að setja upp jólatré en 12% svarenda á aldrinum 50-67 ára og 6% svarenda 30-49 ára sögðust ekki segja upp jólatré í ár.
Hlutfall þeirra sem sögðust ætla að hafa lifandi jólatré var nokkuð misjafnt eftir heimilistekjum. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu tekjuhæsta hópnum (milljón á mánuði eða meira) sögðust 50% ætla að vera með lifandi jólatré í ár, borið saman við 20% í tekjulægsta hópnum (undir 250 þúsund á mánuði). Einungis 4% svarenda í tekjuhæsta hópnum sögðust ekki ætla að hafa jólatré samanborið við 35% svarenda sem höfðu heimilistekjur 250-399 þúsund. Íslendingar búsettir á landsbyggðinni (60%) reyndust líklegri en þeir búsettir á höfuðborgarsvæðinu (50%) til að setja upp gervitré.
Af stuðningsfólki stjórnmálaflokka reyndust fylgjendur Framsóknarflokksins líklegastir til að setja upp gervitré (72%) en fylgjendur Samfylkingarinnar voru líklegastir til að setja upp lifandi tré (51%). Fylgjendur Pírata virðast langlíklegastir til að vera ekki með jólatré (26%) samanborið við aðra flokka en fylgjendur Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar reyndust líklegust til að vera með jólatré (9%).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 924 einstaklingar á aldrinum 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 9.-14. desember 2016
Eldri kannanir sama efnis:
2015 desember: MMR könnun: verður jólatré á heimilum fólks
2014 desember: MMR könnun: verður jólatré á heimilum fólks
2012 desember: MMR könnun: verður jólatré á heimilum fólks
2011 desember: MMR könnun: verður jólatré á heimilum fólks
2010 desember: MMR könnun: verður jólatré á heimilum fólks