Stjórnmál

|

Tveir af hverjum þremur landsmönnum vilja að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarps að nýrri stjórnarskrá. Þá kváðust ríflega fjórir af hverjum fimm vilja sjá ákvæði um að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign, aukið persónukjör til Alþingis og rétt þjóðarinnar krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu í nýrri stjórnarskrá. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 23. - 28. október 2020.

Alls kváðu 66% svarenda að þeir vilji að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem er óbreytt frá könnun MMR sem framkvæmd var í apríl 2012, hálfu ári áður en þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur Stjórnlagaráðs fór fram. Til samanburðar má geta þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar sjálfrar var að 67% þeirra sem tóku afstöðu kusu með tillögum Stjórnlagaráðs en 33% á móti.

1910 Stjórnarskrá 1Spurt var: „Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“
Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 64,2% afstöðu til spurningarinnar.
 

Mikill stöðugleiki mældist einnig á afstöðu Íslendinga gagnvart þeim atriðum sem kosið var um í þjóðaratkvæðagreiðslunni og reyndist afstaða landsmanna í ár nær óbreytt frá því sem mældist árið 2012. Svarendur reyndust líklegastir til að segjast vilja að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign (88%) en einnig reyndist mikill stuðningur við ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu (84%), að persónukjör í kosningum til Alþingis verði heimilað í meira mæli en nú er (83%) og við ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt (77%). Líkt og fyrir kosningarnar 2012 reyndist þjóðin hins vegar klofin um ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga en einungis 44% svarenda kvaðst vilja hafa ákvæðið óbreytt frá því sem nú er.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór fram árið 2012 reyndist stuðningur við ákvæði um auðlindaákvæðið 83%, persónukjör 78%, þjóðaratkvæðagreiðslur 73%, jafnt atkvæðavægi 66% og þjóðkirkju 57%. Líklegt er að skýringuna á mismun milli kosninga og könnunar megi að stórum hluta rekja til lágs þátttökuhlutfalls í kosningunum (sem rétt um helmingur þjóðarinnar tók þátt í) og þess að misjafn fjöldi svarenda tók afstöðu til málefnanna (sbr. sundurliðun á fjölda sem tók afstöðu til spurninganna aftar í fréttinni).

1910 Stjórnarskrá 1Spurt var eins og ofan greinir. Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“. Fjölda þeirra sem tóku afstöðu til hverrar spurningar er að finna hér að neðan. 

Þá var einnig spurt hversu mikilvægt svarendum þætti að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá. Af þeim sem tóku afstöðu reyndust 55% sem töldu nýja stjórnarskrá mikilvæga og 29% lítilvæga. Nánar tiltekið sögðu 20% telja mjög lítilvægt að Íslendingar fengju nýja stjórnarskrá, 9% frekar lítilvægt, 16% bæði og, 19% frekar mikilvægt og 36% mjög mikilvægt.

1910 Stjórnarskrá 1Spurt var: „Hversu mikilvægt eða lítilvægt þykir þér að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög lítilvægt“, „Frekar lítilvægt“, „Bæði og“, „Frekar mikilvægt“, „Mjög mikilvægt“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 90,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Mestur stuðningur við innleiðingu tillagna Stjórnlagaráðs meðal ungra

Konur (78%) reyndust líklegri heldur en karlar (59%) til að segjast vilja að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Yngsti aldurshópurinn hefur mikið látið að sér kveða undanfarið í umræðu um nýja stjórnarskrá og reyndust þau líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast vilja að tillögur Stjórnlagaráðs verði innleiddar en stuðningur minnkaði með auknum aldri. Þá voru svarendur af höfuðborgarsvæðinu (69%) líklegri en þau af landsbyggðinni (61%) til að segjast vilja sjá innleiðingu tillagna Stjórnlagaráðs.

1910 Stjórnarskrá 1 x1

Á meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna reyndist stuðningur við tillögur Stjórnlagaráðs mestur hjá stuðningsfólki Vinstri-grænna og sögðust 79% þeirra vilja sjá þær lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Öllu minni stuðning var að sjá á meðal stuðningsfólks Framsóknarflokksins (41%) og Sjálfstæðisflokksins (20%).

Af stuðningsfólki stjórnarandstöðuflokkanna voru það stuðningsfólk Pírata (99%) og Samfylkingarinnar (98%) sem reyndust líklegust til að segjast vilja tillögur Stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá en stuðningsfólk Miðflokksins (32%) reyndist ólíklegast.

1910 Stjórnarskrá 1 x1

Mestur stuðningur við að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign

Af mögulegum ákvæðum í nýrri stjórnarskrá sem spurt var um reyndist ákvæði um að náttúruauðlindir yrðu lýstar þjóðareign njóta mests stuðnings meðal allra lýðfræðihópa. Konur reyndust líklegri en karlar til að lýsa stuðningi við öll þau ákvæði sem nefnd voru en 94% kvenna kváðust fylgjandi því að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign og 90% kváðust vilja að persónukjör í kosningum til Alþingis verði heimilað í meira mæli en nú er.

Svarendur 18-29 ára reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast fylgjandi ákvæðum um náttúruauðlindir í þjóðareigu (92%), aukið persónukjör til alþingis (89%) og um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu (90%). Svarendur elsta aldurshóps reyndust hins vegar líklegastir allra til að segjast vilja að ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga verið óbreytt við það sem nú er (69%) en stuðningur við ákvæðið fór minnkandi hjá yngri aldurshópum og mældist minnstur á meðal svarenda 18-29 ára (32%).

Sem fyrr þá reyndist hlutfall þeirra sem sögðu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga hæst í aldurshópnum 67 ára og eldri (50%) en töluverð breyting varð hvað aldurshópinn 18-29 ára varðaði, þar sem hlutfall þeirra sem töldu endurnýjun stjórnarskrárinnar mjög mikilvæga jókst úr 24% í 46%.
Hlutfall þeirra sem kváðu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga jókst einnig í öðrum aldurshópum - úr 29% í 35% meðal 30-49 ára og úr 34% í 37% meðal 50-67 ára.

Þá reyndust landsbyggðarbúar (52%) líklegri en þau af höfuðborgarsvæðinu (39%) til að segjast vilja óbreytt ákvæði um þjóðkirkju en svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust líklegri til að segjast fylgjandi öðrum tillögum um breytingar á ákvæðum stjórnarskrárinnar.

1910 Stjórnarskrá 1 x1

Greina mátti stuðning við að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign þvert á flokka, mestan stuðning var að finna meðal stuðningsfólks Vinstri-grænna (100%) og Viðreisnar (100%) en minnstan meðal stuðningsfólks Miðflokksins (69%) og Sjálfstæðisflokksins (69%). Öllu meiri breytileika var að finna meðal stuðningsmanna flokka á afstöðu til ákvæðis um þjóðkirkju Íslendinga. Stuðningsfólk Framsóknarflokksins (73%) og Miðflokksins (73%) reyndist líklegast til að segjast vilja halda ákvæðinu óbreyttu en stuðningsfólk Pírata (7%) ólíklegast.

Stuðningur við aukið persónukjör til Alþingis reyndist almennt mikill en mestur mældist hann meðal stuðningsfólks Pírata (98%) og Samfylkingarinnar (93%). Hið sama var uppi á teningnum varðandi ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem stuðningsfólk Pírata (96%), Samfylkingarinnar (93%) og Vinstri-grænna (90%) reyndust líklegastir til að lýsa yfir stuðningi. Þá reyndust skoðanir skiptar um ákvæði um jafnt vægi atkvæða óháð búsetu og reyndist stuðningur mestur á meðal stuðningsfólks Pírata (95%), Viðreisnar (95%) og Samfylkingarinnar (90%) en minntur hjá stuðningsfólki Framsóknarflokksins (50%) og Miðflokksins (51%).

1910 Stjórnarskrá 1 x1

 

Eldri kannanir sama efnis:
MMR könnun 2020: Nærri 60% vildu nýja stjórnarskrá
MMR könnun 2019: Telja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá
MMR könnun 2018: Meirihluti telur enn mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá
MMR könnun 2017: Meirihluti vill nýja stjórnarskrá
Allar kannanir MMR um tengd efni: Kannanir um stjórnarskrá

Fjöldi sem tók afstöðu til spurninga:
Hversu mikilvægt eða lítilvægt þykir þér að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili: 90,6%
Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá: 64,2%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...náttúruauðlindir lýstar þjóðareign: 81,7%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er: 67,5%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er: 76,0%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt: 79,7%
Í nýrri stjórnarskrá Íslands verði...ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu: 77,3%

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 933 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 23. til 28. október 2020