Stjórnmál Stjórnarskrá

|

Rúmlega helmingur landsmanna telur mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili og rúmur þriðjungur kveðst óánægður með núgildandi stjórnarskrá. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 21. - 25. október 2019. Alls kváðust 18% telja það mjög lítilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá, 8% frekar lítilvægt, 21% bæði og, 20% frekar mikilvægt og 32% mjög mikilvægt.

Af þeim sem tóku afstöðu kváðust 52% telja nýja stjórnarskrá mikilvæga og 27% lítilvæga en hlutfall þeirra sem telja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá hefur mælst um eða yfir 50% frá því téðar mælingar MMR hófust í september 2017.

1910 Stjórnarskrá 1Spurt var: „Hversu mikilvægt eða lítilvægt þykir þér að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög lítilvægt“, „Frekar lítilvægt“, „Bæði og“, „Frekar mikilvægt“, „Mjög mikilvægt“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 85,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Einnig var spurt um ánægju svarenda með núgildandi stjórnarskrá og kváðust 35% svarenda óánægð en 25% ánægð. Alls sögðust 11% mjög óánægð með stjórnarskrána, 24% frekar óánægð, 40% bæði og, 19% frekar ánægð og 6% mjög ánægð.

1910 Stjórnarskrá 2Spurt var: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með núgildandi stjórnarskrá?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög óánægð(ur)“, „Frekar óánægð(ur)“, „Bæði og“, „Frekar ánægð(ur)“, „Mjög ánægð(ur)“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 78,5% afstöðu til spurningarinnar.
 


Stuðningur við endurnýjun stjórnarskrár jókst með aldri

Konur (56%) reyndust líklegri heldur en karlar (49%) til að segja það mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Karlar (24%) reyndust hins vegar líklegri en konur (11%) til að segja endurnýjun stjórnarskrár mjög lítilvæga.

Hlutfall þeirra sem sögðu endurnýjun stjórnarskrár mjög mikilvæga jókst með auknum aldri en 49% svarenda í elsta aldurshópi (67 ára og eldri) sögðu endurnýjun mjög mikilvæga, samanborið við 24% þeirra 18-29 ára. Þá voru svarendur á aldrinum 30-49 ára (30%) og 50-67 ára (29%) líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja það lítilvægt að fá nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili.

Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segja endurnýjun stjórnarskrár mikilvæga (56%) heldur en íbúar landsbyggðarinnar (46%).

1910 Stjórnarskrá 1 x1

 

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að skiptar skoðanir voru á meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna. Meirihluti Vinstri-grænna (83%) sagði endurnýjun stjórnarskrá vera mikilvæga, samanborið við 17% stuðningsfólks Framsóknar og 19% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokks. Þá sögðu 43% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokks og 34% stuðningsfólks Framsóknar slíka breytingu vera mjög lítilvæga, samanborið við 3% stuðningsfólks Vinstri grænna.

Af stuðningsfólki stjórnarandstöðuflokkanna reyndist stuðningsfólk Samfylkingar (85%), Flokks fólksins (78%) og Pírata (75%) líklegast til að segja nýja stjórnarskrá mikilvæga en stuðningsfólk Miðflokks ólíklegast (19%). Þá kváðust 47% stuðningsfólks Miðflokksins telja endurnýjun stjórnarskrár mjög lítilvæga.

 

1910 Stjórnarskrá 1 x2

 

Ef litið er til stuðnings við ríkisstjórnina má sjá að 35% þeirra sem kváðust styðja ríkisstjórnina sögðu endurnýjun stjórnarskrár mikilvæga, samanborið við 64% þeirra sem kváðust ekki styðja ríkisstjórnina.

Þá voru þeir sem kváðust fylgjandi inngöngu Íslands í ESB (69%) líklegri til að segja endurnýjun stjórnarskrár mikilvæga heldur en þau sem kváðust andvíg inngöngu í ESB (33%) en nær helmingur Evrópusinna (47%) sagði breytingar á stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili vera mjög mikilvægar.

Ef afstaða er skoðuð eftir ánægju með núgildandi stjórnarskrá má sjá að 91% þeirra sem segjast óánægð með stjórnarskrána telja mikilvægt að hún væri endurnýjuð, samanborið við 46% þeirra sem kváðust bæði ánægð og óánægð og 15% þeirra sem kváðust ánægð með núgildandi stjórnarskrá.

 

1910 Stjórnarskrá 1 x3


Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks og Miðflokks ánægðust með núgildandi stjórnarskrá

Karlar (31%) reyndust líklegri heldur en konur (19%) til að segjast ánægðir með núgildandi stjórnarskrá en 9% kváðust mjög ánægðir, samanborið við 3% kvenna.

Hlutfall þeirra sem kváðust ánægðir með stjórnarskrána var hærra hjá svarendum 50-67 ára (30%) og 68 ára og eldri (28%) en hjá yngri svarendum en svarendur í elsta aldurshópi reyndust líklegust til að segjast mjög ánægð (10%).

Svarendur af höfuðborgarsvæðinu (39%) reyndust líklegri til að segjast óánægð með núgildandi stjórnarskrá en þau af landsbyggðinni (26%).

1910 Stjórnarskrá 2 x1

 

Þegar litið er til stjórnmálaskoðana má aftur sjá aftur sjá nokkurn mun á milli stuðningsfólks flokka. Stuðningsfólks Miðflokksins (59%) og Sjálfstæðisflokksins (56%) var líklegast til að segjast frekar eða mjög ánægt með núgildandi stjórnarskrá en stuðningsfólks Pírata (5%) og Samfylkingar (7%) ólíklegast.

Þá var stuðningsfólk Pírata (78%), Samfylkingar (64%) og Flokks fólksins (53%) líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast óánægt með stjórnarskrána en 38% stuðningsfólks Pírata kvaðst mjög óánægt.

 

1910 Stjórnarskrá 2 x2

 

Þeir svarendur sem kváðust styðja ríkisstjórnina reyndust líklegri (44%) til að segjast ánægðir með núgildandi stjórnarskrá heldur en þeir sem kváðust ekki styðja ríkisstjórnina (15%).

Þá reyndust Evrópusinnar (13%) ólíklegri til að vera ánægðir með stjórnarskrána heldur en svarendur sem kváðust andvíg inngöngu Íslands í ESB (39%) en um fimmti hver Evrópusinni (20%) kvaðst mjög óánægður með núgildandi stjórnarskrá.

1910 Stjórnarskrá 2 x3

 

Eldri kannanir sama efnis:

MMR könnun 2018: Meirihluti telur enn mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá
MMR könnun 2017: Meirihluti vill nýja stjórnarskrá

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 972 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 21. til 25. október 2019