Meirihluta Íslendinga, eða 56%, þykir mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Þetta eru ríflega tvöfalt fleiri en þeir sem þykir málið lítilvægt (23,5%). Um fimmtungur svarenda sagðist vera á báðum áttum í afstöðu sinni til mikilvægis þess að að Ísland fengi nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili.
Spurt var: „Hversu mikilvægt eða lítilvægt þykir þér að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili?“
Svarmöguleikar voru: Mjög lítilvægt, frekar lítilvægt, bæði og, frekar mikilvægt og mjög mikilvægt, auk veit ekki/vil ekki svara.
Samtals tóku 89,6% svarenda afstöðu til spurningarinnar (leiðrétt kl 13:25: í fyrri útgáfu var mishermt að svarhlutfall hefði verið 78,4%).
Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum
Töluverðan mun mátti sjá þegar afstaða til nýrrar stjórnarskráar á næsta kjörtímabili var skoðuð eftir lýðfræðihópum og stjórnmálaskoðun. Þegar horft var til búsetu mátti sjá að Íslendingar sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu (61%) voru líklegri til að þykja það mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá en þeim sem búsettir voru á landsbyggðinni (47%).
Eins kom í ljós að því lægri heimilistekjur sem svarendur höfðu því mikilvægara þótti þeim að fá nýja stjórnarskrá. Þannig fannst 64% svarenda með heimilistekjur undir 400 þúsund það vera mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili, samanborið við 51% þeirra sem höfðu milljón eða meira í heimilistekjur.
Ef munur var skoðaður eftir stuðningi við stjórnmálaflokka, kom í ljós að 91% af stuðningsfólki Samfylkingarinnar, 92% af stuðningsfólki Pírata og einungis 15% af stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins þótti það mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá. Af stuðningsfólki annarra flokka voru 76% Vinstri grænna, 40% Framsóknar og 39% Viðreisnar sem þótti það mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá fyrir næsta kjörtímabil.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1012 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 26.- 28. september 2017