Meirihluti landsmanna segir það mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta sýna niðurstöður nýrrar könnunar MMR sem framkvæmd var dagana 18.-22. október 2018. Alls sögðu 34% aðspurðra það vera mjög mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá, 18% kváðu það frekar mikilvægt, 19% hvorki mikilvægt né lítilvægt, 11% frekar lítilvægt og 18% mjög lítilvægt.
Hlutfall þeirra sem segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá hefur minnkað um rúm 4 prósentustig frá könnun MMR sem framkvæmd var í september 2017, úr 56% niður í 52%. Þá hefur hlutfall þeirra sem telja nýja stjórnarskrá lítilvæga aukist um 5 prósentustig yfir sama tímabil, úr 24% í 29%.
Spurt var: „Hversu mikilvægt eða lítilvægt þykir þér að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög lítilvægt“, „Frekar lítilvægt“, „Bæði og“, „Frekar mikilvægt“, „Mjög mikilvægt“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 80,2% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Konur reyndust líklegri til að segja endurnýjun stjórnarskrár mikilvæga (56%) heldur en karlar (49%). Karlar (34%) voru hins vegar líklegri en konur til að telja slíkar breytingar lítilvægar heldur en konur (21%).
Svarendur elsta aldurshópsins (68 ára og eldri) voru líklegust til að segja það lítilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili (35%) en þeir yngstu (18-29 ára) ólíklegastir, eða 17%. Hlutfall þeirra sem kváðu breytingar á stjórnarskrá mjög mikilvægar fór einnig vaxandi með auknum aldri (28% þeirra 18-29 ára; 41% þeirra 68 ára og eldri). Þá voru þeir 18-29 ára líklegastir til að segja stjórnarskrárbreytingar hvorki mikilvægar né lítilvægar.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins (54%) voru líklegri en þeir búsettir á landsbyggðinni (48%) til að telja stjórnarskrárbreytingar mikilvægar en 37% svarenda af höfuðborgarsvæðinu kváðu slíkar breytingar mjög mikilvægar.
Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Pírata (90%), Flokks fólksins (85%) og Samfylkingar (83%) reyndist líklegast til að segja það mikilvægt að landsmenn fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili en 68% stuðningsfólks Pírata og 67% stuðningsfólks Samfylkingar kvað slíkar breytingar mjög mikilvægar. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (66%), Miðflokks (60%) og Framsóknarflokks (41%) reyndist líklegast til að segja stjórnarskrárbreytingar lítilvægar en 50% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokks kvað breytingarnar mjög lítilvægar.
MMR könnun 2017: Meirihluti vill nýja stjórnarskrá
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 964 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 18. til 22. október 2018