Yfir helmingur landsmanna sögðust bera mikið traust til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og yfir þriðjungur til Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Rúmlega þrír af hverjum fjórum sögðust hins vegar bera lítið traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og um fjórir af hverjum fimm sögðust bera lítið traust til Guðmundar Franklín Jónssonar, formanns Frjálslynda lýðræðisflokksins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun MMR á trausti til stjórnmálaleiðtoga á Íslandi. Traust til leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna þriggja hefur aukist yfir síðastliðin tvö ár og mælist hærra en traust til leiðtoga annarra stjórnmálaflokka.
Spurt var: „Hversu mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila?“
Eftirfarandi svarmöguleikar voru birtir fyrir hvern aðila sem birtur er hér að ofan: „Mjög lítið traust“, „Frekar lítið traust“, „Hvorki mikið né lítið traust“,
„Frekar mikið traust“, „Mjög mikið traust“ og „Veit ekki/vil ekki svara“. Samtals tóku 98,8% afstöðu til eins eða fleiri aðila.
Traust til leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna farið vaxandi
Þegar litið er til breytinga yfir síðustu tvö ár má sjá að traust til leiðtoga ríkisstjórnarflokkana þriggja hefur farið vaxandi. Á sama tíma hefur traust til annarra stjórnmálaforingja ýmist staðið í stað eða lækkað.
Katrín Jakobsdóttir (23%) og Sigurður Ingi Jóhannsson (27%) eru þeir stjórnmálaleiðtogar sem hvað fæstir sögðust bera lítið traust til og hefur hlutfallið farið minnkandi eftir því sem nær dregur kosningum. Þá hefur þeim fækkað sem segjast bera lítið traust til Þorgerðar Katrínar (úr 47% í 43%) en vantraust í garð annarra leiðtoga hefur mælst næsta óbreytt eða vaxandi.
Munur eftir stuðningi við stjórnmálaflokka
Nokkurn mun má sjá eftir stjórnmálaskoðunum svarenda. Katrín Jakobsdóttir nýtur nær algers stuðnings meðal stuðningsfólks Vinstri-grænna - en 91% þeirra kváðust bera mikið traust til forsætisráðherrans. Katrín nýtur einnig mikils stuðnings meðal stuðningsmanna annarra flokka en nær þrír fjórðu hlutar stuðningsfólks Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins og yfir helmingur stuðningsfólks Framsóknar, Samfylkingar og Pírata kváðust bera mikið traust til hennar. Traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar mældist mest meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna og Viðreisnar en traust til Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur mældist takmarkað hjá öðrum en stuðningsmönnum eigin flokka.
66% stuðningsfólks Pírata og um helmingur stuðningsfólks Sósíalistaflokksins og Samfylkingarinnar kváðust bera mikið traust til Halldóru Mogensen. Þá reyndust Inga Sæland, Gunnar Smári Egilsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson helst njóta trausts stuðningsmanna eigin flokka en ekki annarra.
Guðmundur Franklín Jónsson reyndist efstur á lista þeirra stjórnmálaleiðtoga sem svarendur kváðust bera lítið traust til og var hlutfallið yfir 80% meðal stuðningsfólks allra flokka nema Miðflokksins og Flokks fólksins. Skiptar skoðanir reyndust á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni en yfir 90% stuðningsfólks Samfylkingarinnar, Vinstri-grænna, Pírata, Viðreisnar og Sósíalistaflokksins kváðust bera lítið traust til hans. Vantraust á Gunnari Smára Egilssyni reyndist mest meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins (87%), Framsóknar (74%) og Viðreisnar (74%) en minna meðal stuðningsfólks annarra flokka. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast bera lítið traust til Ingu Sæland (74%) og þá vekur athygli að hátt hlutfall stuðningsfólks Pírata (96%), Sósíalistaflokksins (92%), Samfylkingarinnar (82%) og Flokks fólksins (82%) kvaðst bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar.
Hlutfall þeirra sem kváðust bera lítið traust til Loga Más Einarssonar reyndist hæst meðal stuðningsfólks Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins og hið sama reyndist uppi á teningnum hvað Halldóru Mogensen varðaði. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir eiga það sameiginlegt hlutfallslega margir kjósendur Flokks fólksins, Miðflokks og Sósíalistaflokks segjast vantreysta þeim. Þá nýtur Sigurður Ingi Jóhannsson þeirrar sérstöðu að enginn kjósandi hans eigin flokks sagðist vantreysta honum en hjá öðrum stjórnmálaleiðtogum mældist það hlutfall á bilinu 1% (Inga Sæland) til 12% (Halldóra Mogensen).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 951 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 8. til 10. september 2021
Eldri kannanir sama efnis:
2016: 10% landsmanna bera mikið traust til Sigmundar Davíðs
2015: Ólafur Ragnar Grímsson og Katrín Jakobsdóttir njóta mest trausts
2014: Traust til forystufólks í stjórnmálum dregst saman
2013: Katrín Jakobsdóttir nýtur mests trausts
2012: Traust til Ólafs Ragnars eykst enn
2011: Traust til forsetans eykst
2010: Traust til forystufólks í stjórnmálum
2009: Steingrímur J. Sigfússon stendur styrkum fótum hvað traust áhrærir
2009: Traust til formanna stjórnarflokkanna mælist mun minna en í desember
2008: Jóhanna Sigurðardóttir nýtur mikils trausts hjá flestum.
2009: Steingrímur J. Sigfússon stendur styrkum fótum hvað traust áhrærir