Í könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum voru flestir, eða 41,7% þeirra sem tóku afstöðu, sem sögðust bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Traust til Ólafs Ragnars eykst mikið frá síðustu könnun, sem gerð var í maí 2010, en þá sögðust 26,7% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til hans (sjá meðfylgjandi PDF skjal um þróun milli mælinga).
Í síðustu könnun sögðust 46,9% þeirra sem tóku afstöðu bera lítið traust til Ólafs Ragnars en voru nú 25,3%. Þá sögðust 22,3% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra borið saman við 37,6% í síðustu könnun. Þá kváðust 16,9% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttir borið saman við 23,9% í síðustu könnun. Vantraust á Steingrím J. Sigfússon hefur aukist verulega en 55,9% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til hans en þeir voru rúm 40% í síðustu könnun. Sömu sögu er að segja um Jóhönnu Sigurðardóttir en 60,5% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til hennar borið saman við 52,9% í síðustu könnun.
Traust til Bjarna Benediktssonar eykst en 19,1% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til hans nú en voru 13,8% í síðustu könnun. Þá voru 51,2% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðust bera lítið traust til formanns Sjálfstæðisflokksins en það eru mun færri en í fyrra þegar 67% sögðust vantreysta honum. Nú voru 9,8% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðust bera mikið traust til Margrétar Tryggvadóttur, formanns þinghóps Hreyfingarinnar samanborið við 16,1% sem sögðust bera mikið traust til Birgittu Jónsdóttur sem var formaður þinghóps Hreyfingarinnar í síðustu könnun. 52,9% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til Margrétar en í síðustu könnun sögðust 55,4% bera lítið traust til Birgittu. Traust á formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, er svipað og í síðustu könnun. Nú sögðust 15,3% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Sigmundar Davíðs borið saman við 15,7% í fyrra. Aftur á móti eru færri sem segjast nú bera lítið traust til Sigmundar Davíðs en 52% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til hans borið saman við 57,7% í síðustu könnun. Jón Gnarr kemur nú í nýr inn í mælinguna en 15,8 % þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til hans en 57,1% sögðust bera lítið traust til borgarstjórans.
Ef litið er til trausts til stjórnmálaleiðtoganna eftir stuðningi svarenda við stjórnmálaflokka, má t.d. sjá að Steingrímur J. Sigfússon nýtur trausts meðal 82,2% þeirra sem sögðust myndu kjósa Vinstri græna væri gengið til kosninga nú. Jóhanna Sigurðardóttir nýtur trausts meðal 72,5% stuðningsmanna Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýtur trausts meðal 68,4% Framsóknarmanna og Bjarni Benediktsson nýtur trausts meðal 55,4% Sjálfstæðismanna. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti íslands, nýtur mikils trausts meðal 67,7% Framsóknarmanna. Það er álíka fjöldi Framsóknarmanna sem segjast bera mikið traust til formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en 68,4% Framsóknarmanna segjast bera mikið traust til hans. Þá vekur athygli að 47,1% Sjálfstæðismanna segjast bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.Niðurstöðurnar í heild: 1103_tilkynning_trauststjornm.pdf