Rúm 42% hugðust ferðast bæði innan- og utanlands í sumarfríi sínu samkvæmt könnun MMR sem framkvæmd var dagana 26. júní til 3. júlí. Þetta er 3 prósentustiga aukning frá síðustu könnun, sem framkvæmd var á sama tíma í fyrra. Hlutfall þeirra sem hugðu á ferðalög bæði innan- og utanlands hefur hækkað jafnt og þétt síðastliðin þrjú ár. Hlutfall þeirra sem hugðu eingöngu á ferðalög utanlands hélst í stað milli ára en hlutfall þeirra sem hugðu eingöngu á ferðalög innanlands lækkaði um þrjú prósent á milli ára.
Hlutfall þeirra sem hugðu á ferðalög í sumarfríi sínu, innanlands, utanlands eða bæði innan- og utanlands, hélst í stað milli ára eða 91%. Þá kváðust rúm 9% ekki ætla í nein ferðalög í sumarfríinu.
Spurt var: Ætlar þú að ferðast innanlands eða utan í sumarfríinu?
Svarmöguleikar voru: „Já, innanlands“, „Já, utanlands“, „Já, bæði innanlands og utanlands“, „Nei, ætla ekki að ferðast neitt“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 92,7% afstöðu til spurningarinnar.
Munur á ferðahögum Íslendinga eftir búsetu, heimilistekjum, aldri og stjórnmálaskoðunum
Fleiri konur (17%) en karlar (12%) kváðust ætla að ferðast utanlands í sumarfríi sínu en fleiri karlar (36%) en konur (31%) ætluðu að ferðast innanlands. Hlutfall karla og kvenna sem hugðust ferðast bæði innan- og utanlands var jafnt eða 42%.
Nokkur munur var á ferðatilhögunum eftir aldri. Ungt fólk (18-29 ára) virtist sérlega ferðaglatt en 46% þeirra kváðust ætla að ferðast bæði innan- og utanlands í sumarfríinu, samanborið við 38% þeirra 68 ára og eldri, 42% þeirra 50-67 ára og 41% þeirra 30-49 ára. Þá voru 68 ára og eldri líklegra en aðrir aldurshópar til að ætla ekki að ferðast neitt í sumarfríinu en 14% þeirra sögðust ætla að halda sig heima, samanborið við 9% þeirra 30-67 ára og 8% þeirra 18-29 ára.
Af þeim sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu kváðust 17% ætla að ferðast utanlands í sumarfríinu, samanborið við 10% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni. Þá voru þau búsett á landsbyggðinni (39%) líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðisins (31%) til að ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu.
Stuðningsfólk Miðflokksins reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að ætla að ferðast bæði innan- og utanlands í sumarfríinu eða 60%. Kváðust 48% stuðningsfólks Framsóknarflokksins, 44% stuðningsfólks Viðreisnar og 43% stuðningsfólks Vinstri grænna, ætla að ferðast innanlands í sumarfríinu. Af stuðningsfólki Flokks fólksins kváðust 20% ætla að ferðast utanlands, 18% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins og 17% stuðningsfólks Viðreisnar. Þá reyndist stuðningsfólk Pírata (17%) líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að ætla ekki að ferðast í sumarfríinu.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 946 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 26. júní til 3. júlí 2018
Eldri kannanir sama efnis:
2017 Júní Könnun MMR á ferðahögum Íslendinga í sumarfríinu
2016 Júlí Könnun MMR á ferðahögum Íslendinga í sumarfríinu
2015 Júlí Könnun MMR á ferðahögum Íslendinga í sumarfríinu
2014 Júní Könnun MMR á ferðahögum Íslendinga í sumarfríinu
2013 Júní Könnun MMR á ferðahögum Íslendinga í sumarfríinu
2012 Júní Könnun MMR á ferðahögum Íslendinga í sumarfríinu
2011 Júní Könnun MMR á ferðahögum Íslendinga í sumarfríinu