Jólahefðir

|

Enn dregur úr jólakortasendingum landans en einungis þriðjungur hyggst senda jólakort í ár. Hlutfalli þeirra sem hyggjast senda jólakort með bréfpósti fækkar ört en einungis 15% hyggjast senda korti í pósti og 24% segjast ætla að senda rafræn kort í ár. Þetta kemur fram í nýrri jólakönnun MMR sem framkvæmd var dagana 13.-20. desember.

Alls kváðust 11% svarenda eingöngu ætla að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár með bréfpósti, 20% kváðust ætla að senda jólakortin rafrænt, 4% kváðust bæði ætla að senda jólakort bæði með bréfpósti og rafrænt og 65% kváðust ekki ætla að senda jólakort í ár.

Þeim sem sögðust munu senda jólakort fækkaði um 8 prósentustig frá síðustu könnun og er það mesta breyting sem mælst hefur á milli ára síðan 2016, þegar þeim fækkaði um 10 prósentustig á milli mælinga. Fækkun þeirra sem hyggjast senda jólakort í ár má að miklu leiti rekja samdráttar á kortasendingum með bréfpósti en hlutfall þeirra minnkaði um 5 prósentustig á milli ára, úr 16% svarenda í 11%. Öllu minni breytingar var að sjá á öðrum jólakortasendingum en þeim sem senda eingöngu rafrænar jólakveðjur fækkaði um þrjú prósentustig og hlutfall þeirra sem hyggjast senda kort sín bæði rafrænt og með bréfpósti hélst nær óbreytt á milli ára.

1912 JólakortSpurt var: „Ætlar þú að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár?“
Svarmöguleikar voru: „Sendi með bréfpósti“, „Sendi rafrænt“, „Sendi bæði með bréfpósti og rafrænt“, „Sendi engin jólakort“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 97,4% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir kyni, aldri og búsetu

Líkt og fyrri ár var nokkurn mun að sjá á jólakortasendingum eftir aldurshópum en jólakortahefðin virðist eiga sér sterkastar rætur meðal eldri landsmanna. Svarendur 68 ára og eldri reyndust öllu líklegri til að segjast senda jólakort í ár (60%) heldur en svarendur annarra aldurshópa og en svarendur yngsta aldurshópsins reyndust ólíklegust (21%). Um þriðjungur svarenda elsta aldurshópsins (32%) kvaðst ætla að senda jólakort rafrænt í ár, samanborið við 12% þeirra 18-29 ára. Minni munur reyndist á öðrum formum kortasendinga eftir aldri en 18% elstu svarenda kváðust ætla að senda kort með bréfpósti í ár og 10% bæði rafrænt og með pósti, samanborið við 8% með bréfpósti og undir 1% bæði rafrænt og í pósti hjá yngstu svarendunum.

Íbúar landsbyggðarinnar reyndust líklegri til að segjast ætla að senda jólakort með bréfpósti (15%) heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu (9%) en lítill munur reyndist á öðrum kortasendingum eftir búsetu. Þá reyndist einnig lítill munur á kortasendingum eftir kyni svarenda.

 

1912 Jólakort x

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 2.051 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 20. desember 2021

Eldri kannanir sama efnis:
2020 desember: Hefðbundin jólakort að líða undir lok
2019 desember: Jólakort á undanhaldi
2018 desember: Einungis helmingur hyggst senda jólakort
2017 desember: Æ færri senda jólakort
2016 desember: Þeim fjölgar sem senda ekki jólakort

2015 desember: Þriðjungur landsmanna sendir engin jólakort