Í fyrsta skipti frá því mælingar MMR á jólakortasendingum landans hófust kemur það í ljós að fleiri sögðust ætla að senda rafræn jólakort en hugðust senda jólakort með bréfpósti. Um leið bentu niðurstöðurnar til þess að í fyrsta skipti muni minna en fjórðungur senda jólakort með bréfapósti og að undir helmingi landsmanna muni senda einhver jólakort yfir höfuð.
Alls kváðust 19% svarenda eingöngu ætla að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár með bréfpósti, 22% kváðust ætla að senda jólakortin rafrænt, 5% kváðust bæði ætla að senda jólakort bæði með bréfpósti og rafrænt og 54% kváðust ekki ætla að senda jólakort í ár.
Athygli vekur að hlutfall þeirra sem kváðust ætla að senda jólakort með bréfpósti hefur lækkað með hverri könnun MMR frá árinu 2015 en lækkunin nemur alls 28 prósentustigum yfir tímabilin fimm (2015-2019). Samhliða því hefur hlutfall þeirra sem sögðust ekki ætla að senda jólakort aukist árlega, um alls 21 prósentustig. Þá hefur hlutfall þeirra sem kváðust eingöngu ætla að senda rafræna kveðju aukist um 11 prósentustig frá upphafi mælinga.
Spurt var: „Ætlar þú að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár?“
Svarmöguleikar voru: „Sendi með bréfpósti“, „Sendi rafrænt“, „Sendi bæði með bréfpósti og rafrænt“, „Sendi engin jólakort“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 96,9% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir kyni, aldri og búsetu
Þó nokkurn mun var að sjá á jólakortasendingum í ár eftir aldurshópum. Svarendur á aldrinum 18-29 ára kváðust öllu líklegri til að senda engin jólakort í ár (69%) heldur en svarendur annarra aldurshópa en hlutfallið fór lækkandi með auknum aldri. Svarendur á aldrinum 50-67 ára (29%) voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast eingöngu ætla að senda jólakort rafrænt en svarendur 68 ára og eldri (44%) reyndust líklegastir til að segjast eingöngu ætla að senda kveðju með bréfpósti í ár. Þá voru svarendur í elsta aldurshópnum (15%) einnig líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ætla að senda jólakveðjur bæði í pósti og rafrænt.
Íbúar landsbyggðarinnar reyndust líklegri en þeir á höfuðborgarsvæðinu til að segjast ætla að senda jólakort, hvort heldur eingöngu með bréfpósti (22% landsbyggðin; 17% höfuðborgarsvæðið), eingöngu rafrænt (23% landsbyggðin; 21% höfuðborgarsvæðið) eða bæði rafrænt og með pósti (7% landsbyggðin; 4% höfuðborgarsvæðið). Lítill munur reyndist á afstöðu kynjanna en hærra hlutfall karla (56%) heldur en kvenna (52%) kvaðst ekki ætla að senda nein jólakort í ár.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.014 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 19. desember 2019
Eldri kannanir sama efnis:
2018 desember: Einungis helmingur hyggst senda jólakort
2017 desember: Æ færri senda jólakort
2016 desember: Þeim fjölgar sem senda ekki jólakort
2015 desember: Þriðjungur landsmanna sendir engin jólakort