Sprengjuáform landsmanna dragast saman á milli ára en 46% landsmanna sögðu að flugeldum verði skotið upp á heimilum sínum í ár, 9 prósentustigum færri en í könnun síðasta árs.
Spurt var: „Verður flugeldum skotið upp á þínu heimili um þessi áramót (2020/2021)?“.
Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“ og „Veit ekki/vil ekki svara“. Svarhlutfall var 79,6%.
Einnig var spurt: "Var flugeldum skotið upp á þínu heimili um síðustu áramót (2019/2020)?“.
Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“ og „Veit ekki/vil ekki svara“. Svarhlutfall var 99,3%.
Munur eftir lýðfræðihópum
Svarendur 30-49 ára (59%) reyndust líkt og í fyrra líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja flugeldum verða skotið upp á sínum heimilum um áramótin en svarendur 68 ára og eldri (20%) reyndust ólíklegastir. Karlar (50%) reyndust líklegri en konur (42%) til að segja að flugeldum verði skotið upp á heimilum sínum en hlutfall kvenna minnkaði um 12 prósentustig á milli ára. Þá voru svarendur af landsbyggðinni (53%) líklegri en þau af höfuðborgarsvæðinu (43%) til að segjast hyggja á sprengingar á sínum heimilum þetta árið.
Nokkur munur reyndist á fyrirætlunum fólks eftir stuðningi þess við stjórnmálaflokka. Rúmur helmingur Sjálfstæðisfólks (53%) sagðist ætla að skjóta upp flugeldum í ár og fækkar þeim um 23 prósentustig frá mælingu síðasta árs, þar sem 76% Sjálfstæðisfólks hugðist skjóta upp flugeldum. Hið sama var uppi á teningnum hjá stuðningsfólki Framsóknarflokksins, sem fækkaði um 24 prósentustig milli ára og enduðu í 48% í ár. Stuðningsfólk Vinstri-grænna (32%) reyndist aftur á móti 4 prósentustigum líklegra til að segjast ætla að skjóta upp flugeldum nú heldur en í fyrra. Mest reyndist aukning milli ára hins vegar á meðal stuðningsfólks Viðreisnar (9 prósentustig) en 56% þeirra sögðust telja að flugeldum yrði skotið upp á sínum heimilum í ár. Líkt og hjá Sjálfstæðisfólki þá varð töluverður samdráttur milli ára í fjölda stuðningsfólks Miðflokksins sem hugðist skjóta upp flugeldum, úr 65% í 59%. Þá voru 34% stuðningsfólks Samfylkingarinnar og 26% stuðningsfólks Pírata ætla á flugeldaskot á sínum heimilum á gamlárskvöld - sem er samdráttur upp á þrjú til fjögur prósentustig hvort.
Samdráttur í flugeldaáætlunum reyndist bæði hjá þeim sem skutu upp og þeim sem skutu ekki upp flugeldum um síðustu áramót. Af þeim sem sögðu flugeldum hafa verið skotið upp á heimilum sínum um síðustu áramót sögðust 88% hyggja á að slíkt verði endurtekið nú þegar nýtt ár gengur í garð. Af þeim sem sögðust ekki hafa skotið upp flugeldum í fyrra kváðust hins vegar 5% ætla að breyta til og taka þátt í gleðinni þetta árið.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 947 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 10. til 16. desember 2020
Eldri kannanir sama efnis:
2019 desember: Flugeldum verður skotið upp á rúmum helmingi heimila