Dægurmál

|

Rúmlega helmingur landsmanna segir að flugeldum verði skotið upp á sínum heimilum um þessi áramót. Litlar breytingar reyndust á sprengjuáformum landans en 55% svarenda kváðust ætla að skjóta upp flugeldum í ár og 57% sögðu flugeldum hafa verið skotið upp á sínum heimilum um síðustu áramót.

1912 FlugeldarSpurt var: „Verður flugeldum skotið upp á þínu heimili um þessi áramót (2019/2020)?“.
Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“ og „Veit ekki/vil ekki svara“. Svarhlutfall var 85,3%.
Einnig var spurt: "Var flugeldum skotið upp á þínu heimili um síðustu áramót (2018/2019)?“.
Svarmöguleikar voru: „Já“, „Nei“ og „Veit ekki/vil ekki svara“. Svarhlutfall var 99,4%.

Munur eftir lýðfræðihópum

Svarendur 30-49 ára (68%) reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja flugeldum verða skotið upp á sínum heimilum um áramótin en svarendur 68 ára og eldri (28%) reyndust ólíklegastir. Þá voru svarendur af landsbyggðinni (64%) líklegri en þau af höfuðborgarsvæðinu (50%) til að segjast hyggja á sprengingar á sínum heimilum. Lítill munur var á svörun eftir kyni.

1912 Flugeldar x1

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að skiptar skoðanir voru á meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna. Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (76%) og Framsóknar (72%) reyndist líklegast allra til að segja flugeldum yrði skotið upp á sínum heimilum um áramótin en stuðningsfólk Vinstri-grænna (28%) reyndist ólíklegast allra. Þá sögðu 65% stuðningsfólks Miðflokksins, 47% stuðningsfólks Viðreisnar, 38% stuðningsfólks Samfylkingarinnar og 29% stuðningsfólks Pírata ætla á flugeldaskot á sínum heimilum á gamlárskvöld.

1912 Flugeldar x2

Áhugavert er að sjá að 90% þeirra sem sögðu flugeldum hafa verið skotið upp á heimilum sínum um síðustu áramót hyggja á að slíkt verði endurtekið nú þegar nýtt ár gengur í garð en 10% kváðust ekki ætla að endurtaka leikinn. Af þeim sem sögðust ekki hafa skotið upp flugeldum í fyrra kváðust hins vegar 8% ætla að breyta til og taka þátt í gleðinni þetta árið en 92% sögðu að engu verði skotið upp á þeirra heimilum þetta árið, líkt og í fyrra.

1912 Flugeldar x3

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.014 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 13. til 19. desember 2019