Jólahefðir

|

Allt bendir til að jólakortasendingum landsmanna muni halda áfram að fækka en 57% segjast ekki ætla að senda nein jólakort í ár. Einungis fimmti hver Íslendingur kveðst ætla að senda hefðbundið jólakort með bréfpósti. Jólakortasendingum landans hefur farið fækkandi frá því að mælingar MMR hófust árið 2015 en þá kváðust 67% landsmanna ætla að senda jólakort. Þetta kemur fram í nýrri jólakönnun MMR sem framkvæmd var dagana 10.-16. desember 2020.

Alls kváðust 16% svarenda ætla að halda sig við að senda eingöngu jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna með bréfpósti, 23% kváðust eingöngu ætla að senda jólakortin rafrænt og 4% sögðust ætla að senda jólakort bæði með bréfpósti og rafrænt.

Þróunin yfir í rafræn jólakort hefur verið stöðug undanfarin ár og heldur hún áfram þetta árið. Hins vegar hefur hlutfall þeirra sem segjast ætla að senda jólakort með bréfpósti (annað hvort eingöngu eða ásamt rafrænum kveðjum) lækkað um 36 prósentustig frá upphafi mælinga. Samdráttur í bréfakortsendingum reyndist þó minni í ár en oft áður, en fækkunin taldi einungis um fjögur prósentustig. Til samanburðar hefur árlegur samdráttur síðustu fjögurra ára verið um 7 prósentustig. Á móti kemur að lítil sem engin fjölgun mældist í ár á fjölda þeirra sem hyggjast senda rafræn jólakort og er það í fyrsta sinn frá 2016 sem það hlutfall eykst óverulega milli ára.

1912 JólakortSpurt var: „Ætlar þú að senda jólakort til vina, ættingja og/eða vandamanna í ár?“
Svarmöguleikar voru: „Sendi með bréfpósti“, „Sendi rafrænt“, „Sendi bæði með bréfpósti og rafrænt“, „Sendi engin jólakort“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 96,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Mestan mun var að sjá á jólakortasendingum eftir aldri svarenda. Einungis 20% svarenda á aldrinum 18-29 ára kvaðst ætla að senda jólakort í ár og hefur hlutfallið minnkað um 11 prósentustig frá mælingu síðasta árs. Athygli vekur að fleiri svarendur í yngsta aldurshópnum kváðust ætla að senda kort eingöngu með bréfpósti (11%) heldur en eingöngu rafrænt (9%) og að enginn þeirra kvaðst ætla að nýta sér báða sendingarmáta. Hlutfall þeirra sem kváðust ætla að senda jólakort í ár jókst með auknum aldri og mældist mest meðal svarenda 68 ára og eldri (65%) en svarendur allra aldurshópa 30 ára og eldri kváðust líklegri til að senda jólakortin í ár rafrænt heldur en með bréfpósti.

Eflaust hefur Covid haft áhrif á jólahefðir svarenda þetta árið og virðast jólakortasendingar elstu svarenda vera þar á meðal. Hlutfall þeirra svarenda 68 ára og eldri sem kváðust eingöngu ætla að senda jólakortin rafrænt jókst um 12 prósentustig á milli ára, samhliða því að hlutfall þeirra sem ætla eingöngu að senda með bréfpósti minnkaði um 20 prósentustig. Þá minnkaði hlutfall svarenda elsta aldurshópsins sem kvaðst ætla að senda bæði rafrænt og með bréfpósti um 7 prósentustig á milli ára.

Konur (47%) reyndust líklegri en karlar (38%) til að segjast ætla að senda jólakort í ár en bæði kynin kváðust líklegust til að ætla að senda kortin eingöngu með rafrænum hætti í ár (24% konur; 22% karlar). Þá reyndust svarendur af landsbyggðinni (53%) líklegri en þau af höfuðborgarsvæðinu (37%) til að segjast ætla að senda jólakort í ár en jólakortasendingar höfuðborgarbúa minnkuðu um 6 prósentustig frá könnun ársins 2019. Litlar breytingar var hins vegar að sjá á jólakortaætlunum landsbyggðarbúa.

1912 Jólakort x

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 947 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 10. til 16. desember 2020

Eldri kannanir sama efnis:
2019 desember: Jólakort á undanhaldi
2018 desember: Einungis helmingur hyggst senda jólakort
2017 desember: Æ færri senda jólakort
2016 desember: Þeim fjölgar sem senda ekki jólakort

2015 desember: Þriðjungur landsmanna sendir engin jólakort