Stjórnmál ESB

|

Helmingur landsmanna segist hafa litlar eða engar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakka ESB á hagsmuni þjóðarinnar en um þriðjungur hefur miklar áhyggjur. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 9. - 16. september 2019. Alls kváðust 22% hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans, 12% kváðust hafa frekar miklar áhyggjur, 16% bæði/og, 17% frekar litlar áhyggjur og 33% mjög litlar eða engar áhyggjur.

MMR hafði áður mælt hversu fylgjandi eða andvígir landsmenn væru gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans á Íslandi en í könnun sem framkvæmd var í júní 2019 reyndust 46% svarenda andvígir innleiðingunni og 34% hlynntir henni. Má því segja að um ákveðinn viðsnúning hafi orðið í afstöðu almennings til málsins.

1909 OrkupakkiSpurt var: „Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af áhrifum þriðja orkupakka ESB á hagsmuni þjóðarinnar?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög miklar áhyggjur“, „Frekar miklar áhyggjur“, „Bæði/og“, „Frekar litlar áhyggjur“, „Mjög litlar eða engar áhyggjur“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 81,9% afstöðu til spurningarinnar.
 

Munur eftir lýðfræðihópum

Karlar (55%) reyndust líklegri heldur en konur (43%) til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans á hagsmuni þjóðarinnar en 41% karla sögðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur, samanborið við 23% kvenna. Þá kváðust 27% kvenna hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans en 19% karla.

Svarendur í elsta aldurshópnum (67 ára og eldri) voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum innleiðingar orkupakkans (41%) en 34% þeirra sögðust hafa mjög miklar áhyggjur. Svarendur yngsta aldurshópsins (18-29 ára) reyndust hins vegar líklegastir allra aldurshópa til að segjast hafa litlar áhyggjur (55%) en 41% þeirra kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur.

Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum pakkans á hagsmuni þjóðarinnar (55%) heldur en íbúar landsbyggðarinnar (40%) en 37% höfuðborgarbúa kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur. Þá kváðust 28% landsbyggðarbúa hafa mjög miklar áhyggjur, samanborið við 19% þeirra af höfuðborgarsvæðinu.

1909 Orkupakki x1

 

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að skiptar skoðanir voru á meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna. Alls kváðust 68% stuðningsfólks Vinstri-grænna hafa litlar áhyggjur af áhrifum innleiðingar þriðja orkupakkans, samanborið við 59% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins og 51% stuðningsfólks Framsóknar. Þá reyndist rúmur helmingur stuðningsfólks Vinstri-grænna (51%) hafa mjög litlar eða engar áhyggjur. Áhyggjurnar reyndust meiri hjá stuðningsfólki Framsóknar heldur en hjá stuðningsfólki hinna ríkisstjórnarflokkanna en 36% þeirra kváðust hafa miklar áhyggjur, samanborið við 17% stuðningsfólks Vinstri-grænna og 20% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins.

Af stuðningsfólki stjórnarandstöðuflokkanna reyndist stuðningsfólk Samfylkingar (82%) og Viðreisnar (83%) líklegast til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans en stuðningsfólk Miðflokks ólíklegast (4%). Þá kváðust 90% stuðningsfólks Miðflokksins hafa miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans á þjóðarhagsmuni en alls kváðust 72% hafa mjög miklar áhyggjur.

 

1909 Orkupakki x2

 

Ef stjórnmálaflokkunum er skipt upp í blokkir eftir afstöðu til þriðja orkupakkans og setu í ríkisstjórn má sjá að stór hluti stuðningsfólks Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar, eða 77%, reyndist hafa litlar áhyggjur af áhrifum orkupakkans á þjóðarhagsmuni um leið og 60% stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna sögðust hafa litlar áhyggjur. Þvert á móti, og eins og áður greinir, reyndust 90% stuðningsfólks Miðflokksins hins vegar hafa miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans.

Þá voru þeir sem kváðust fylgjandi inngöngu Íslands í ESB (80%) líklegri til að segjast hafa litlar áhyggjur en þau sem kváðust andvíg inngöngu í ESB (29%) en um tveir af hverjum þremur Evrópusinnum (67%) kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur.

 

1909 Orkupakki x3

 

Eldri kannanir sama efnis:
MMR könnun 2019: Aukinn stuðningur við 3. orkupakkann
MMR könnun 2018: Evrópusinnar fylgjandi 3. orkupakkanum

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1045 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 9. til 16. september 2019