Stuðningur við 3. orkupakkann jókst á meðal kjósenda ríkisstjórnarflokkanna jafnframt því sem andstaða minnkaði á meðal stuðningsfólks Miðflokksins. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 7. - 14. júní 2019.
Alls kváðust 33% þeirra sem tóku afstöðu vera mjög andvíg innleiðingu 3. orkupakkans, 13% frekar andvíg, 20% bæði andvíg og fylgjandi, 15% frekar fylgjandi og 19% mjög fylgjandi. Lítill munur er því á heildarafstöðu frá könnun maímánaðar en líkt og í fyrri könnun tók tæplega þriðjungur þátttakenda (29,6%) ekki afstöðu til spurningarinnar.
Spurt var: „Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ert þú gagnvart því að þriðji orkupakki ESB taki gildi á Íslandi?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög andvíg(ur)“, „Frekar andvíg(ur)“, „Bæði og“, „Frekar fylgjandi“, „Mjög fylgjandi“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 70,4% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Karlar reyndust jákvæðari en konur gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans en 36% karla kváðust frekar eða mjög fylgjandi, sem er óbreytt frá síðustu könnun. Stuðningur kvenna við orkupakkann jókst um 7 prósentustig frá síðustu könnun en 31% þeirra kváðust frekar eða mjög fylgjandi innleiðingu.
Stuðningur við þriðja orkupakkann mældist mestur hjá svarendum á aldrinum 68 ára og eldri en 40% þeirra kváðust fylgjandi innleiðingu, sem er aukning um 5 prósentustig frá könnun maímánaðar. Andstaða við orkupakkann reyndist mest á meðal svarenda á aldrinum 50-67% en rúmur helmingur þeirra (55%) kvaðst frekar eða mjög andvíg innleiðingu, sem er nær óbreytt frá síðustu könnun.
Líkt og í síðustu könnun reyndust íbúar höfuðborgarsvæðisins jákvæðari gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans (40%) heldur en þau af landsbyggðinni (23%). Athygli vekur þó að hlutfall landsbyggðarbúa sem kváðust andvíg þriðja orkupakkanum mældist 54%, sem er 9 prósentustigum minna en við síðustu mælingu.
Stuðningur við þriðja orkupakkann jókst frá síðustu könnun á meðal stuðningsfólks allra ríkisstjórnarflokkanna. Alls kváðust 44% stuðningsfólks Vinstri grænna fylgjandi orkupakkanum, sem er aukning um 18 prósentustig frá síðustu könnun en 23% þeirra kváðust andvíg, samanborið við 55% í könnun maímánaðar. Stuðningur jókst um 12 prósentustig hjá stuðningsfólki Framsóknarflokksins og mældist nú 34% en 44% kváðust andvíg. Þá kváðust 33% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans en 48% andvíg.
Ef litið er til stjórnarandstöðuflokka má sjá að stuðningur við þriðja orkupakkann jókst mest hjá stuðningsfólki Viðreisnar en 74% þeirra kváðust fylgjandi innleiðingu, sem er aukning um 11 prósentustig á milli kannana. Þá kváðust 73% stuðningsfólks Samfylkingarinnar fylgjandi innleiðingu orkupakkans en 14% andvíg. Af stuðningsfólki Pírata kváðust 43% svarenda fylgjandi þriðja orkupakkanum en 34% kváðust andvíg, samanborið við þau 29% sem kváðust andvíg í könnun maímánaðar. Þá kváðust 90% stuðningsfólks Miðflokksins andvíg innleiðingu á þriðja orkupakkanum, sem er 10 prósentustigum minna en í síðustu könnun en 75% þeirra kváðust mjög andvíg (samanborið við 93% í könnun maímánaðar).
Ef litið er til ríkisstjórnarflokkanna sem heildar má sjá að rúmlega þriðjungur svarenda (35%) kváðust fylgjandi innleiðingu þriðja orkupakkans, sem er aukning um 9 prósentustig frá síðustu mælingu en 42% kváðust andvíg. Einnig virðist sem viðhorf stuðningsfólks Miðflokksins og Flokks fólksins gagnvart þriðja orkupakkanum hafi eitthvað mildast en 81% þeirra kváðust andvíg innleiðingu, 17 prósentustigum minna en við síðustu könnun. Þá kváðust 64% stuðningsfólks hinna þriggja stjórnarandstöðuflokkanna (Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata) fylgjandi innleiðingu orkupakkans en 22% andvíg.
Ef litið er til afstöðu svarenda til ríkisstjórnarinnar má sjá að stuðningur við þriðja orkupakkann jókst um 8 prósentustig hjá þeim svarendum sem styðja ríkisstjórnina og kváðust 39% fylgjandi innleiðingu en 38% andvíg. Svarendur sem kváðust ekki styðja ríkisstjórnina voru hins vegar líklegri til að segjast andvíg þriðja orkupakkanum (53%) heldur en fylgjandi honum (31%).
Þá reyndust þeir svarendur sem kváðust hlynntir inngöngu í Evrópusambandið líklegri til að segjast fylgjandi innleiðingu orkupakkans (69%) heldur en þau sem kváðust andvíg inngöngu í ESB (12%). Svarendur andvígir inngöngu í ESB reyndust hins vegar líklegri til að vera andvíg orkupakkanum (72%) heldur en þau sem kváðust hlynnt inngöngu Íslands í ESB (15%).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 988 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 7. til 14. júní 2019