Yfir helmingur landsmanna neytir mjólkurvara og hvíts kjöts oft eða alltaf sem hluta af sínu daglega mataræði samkvæmt umhverfiskönnun MMR sem framkvæmd var dagana 23. maí - 29. maí 2019. Tæplega einn af hverjum fimm neyta sjaldan eða aldrei mjólkurvara eða rauðs kjöts og nærri fjórðungur landsmanna segir fisk sjaldan eða aldrei vera hluta af sínu daglega mataræði.
Af þeim sem tóku afstöðu í könnuninni sögðust 57% neyta mjólkurvara (úr kúamjólk) oft eða alltaf sem hluta af sínu daglega mataræði, 54% hvítt kjöt (svo sem kjúklingakjöt), 49% rautt kjöt (svo sem lamba-, nauta- og svínakjöt), 36% fisk, 34% grænmetisfæði, 29% umhverfisvæn matvæli, 24% lífræn matvæli og 7% veganfæði. Þá kváðust 19% sjaldan eða aldrei neyta mjólkurvara sem hluta af daglegu mataræði, 14% hvítt kjöt, 18% rautt kjöt, 24% fisk, 38% grænmetisfæði, 24% umhverfisvæn matvæli, 40% lífræn matvæli og 81% veganfæði.
Spurt var: „Hversu oft eða sjaldan eru eftirfarandi matvæli hluti af daglegu mataræði þínu?“ og voru átta spurningarliðir nefndir:
„Umhverfisvæn matvæli“, „Lífræn matvæli“, „Fiskur“, „Rautt kjöt (svo sem lamba-, nauta- og svínakjöt)“, „Hvítt kjöt (svo sem kjúklingakjöt)“,
„Grænmetisfæði“, „Mjólkurvörur (búnar til úr kúamjólk)“ og „Veganfæði“.
Svarmöguleikar voru: „Aldrei“, „Sjaldan“, „Í meðallagi oft/sjaldan“, „Oft“, „Alltaf“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,7% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Karlar (58%) reyndust líklegri en konur (39%) til að segja rautt kjöt oft eða alltaf vera hluta af daglegu mataræði sínu en konur reyndust líklegri en karlar til að segja grænmetisfæði (43%), umhverfisvæn matvæli (33%), lífræn matvæli (27%) og veganfæði (10%) vera oft eða alltaf til staðar í daglegu mataræði sínu.
Neysla fisks jókst með auknum aldri en svarendur á aldrinum 50-67 ára (46%) og 68 ára og eldri (59%) reyndust líklegri en yngri svarendur til að segjast borða fisk oft eða alltaf sem hluta af sínu daglega mataræði. Svarendur á aldrinum 18-29 ára (48%) og aldrinum 30-49 ára (33%) reyndust hins vegar líklegri en eldri svarendur til að segjast oft eða alltaf neyta grænmetisfæðis en svarendur yngsta aldurshópsins reyndust einnig líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja lífræn matvæli (37%) og veganfæði (13%) oft eða alltaf vera hluta af mataræði sínu.
Svarendur af landsbyggðinni reyndust líklegri til að segja mjólkurvörur (64%) og rautt kjöt (54%) oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði en þau af höfuðborgarsvæðinu (53% mjólkurvörur; 46% rautt kjöt). Íbúar höfuðborgarsvæðisins reyndust aftur á móti líklegri til að segjast oft eða alltaf neyta grænmetisfæðis (38%) og veganfæðis (10%) heldur en svarendur búsettir á landsbyggðinni (27% grænmetisfæði; 2% veganfæði).
Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Framsóknar (72%) og Miðflokks (72%) reyndist líklegast til að segjast neyta mjólkurvara oft eða alltaf sem hluta af sínu daglega mataræði en Framsóknarfólk reyndist einnig líklegast allra til að segjast oft eða alltaf neyta rauðs kjöts (73%). Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (66%) og Framsóknar (63%) var líklegast til að segja hvítt kjöt oft eða alltaf vera hluta af mataræði sínu og stuðningsfólk Samfylkingar (48%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast oft eða alltaf neyta fisks. Þá reyndist stuðningsfólk Vinstri-grænna (47%) og Pírata (44%) líklegast til að segjast oft eða alltaf neyta grænmetisfæðis og lífrænna matvæla (35% stuðningsfólks beggja flokka) og stuðningsfólk Vinstri grænna (19%) og Samfylkingar (14%) var líklegast til að segja veganfæði oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði.
Líkt og áður hefur verið greint frá var einnig spurt hvort að svarendur hefðu áhyggjur af hlýnun jarðar og hvort þeir hefðu tekið upp á breytingum á hegðun til að minnka umhverfisáhrif sín. Þegar litið er til mataræðis eftir þessum þáttum má sjá skýrar línur á neyslumynstri eftir viðhorfum svarenda. Sjá má að neysla á rauðu kjöti fór minnkandi með auknum áhyggjum af hlýnun jarðar en 72% þeirra sem kváðust hafa mjög litlar áhyggjur sögðu rautt kjöt oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði, samanborið við 39% þeirra sem kváðust hafa mjög miklar áhyggjur. Neysla grænmetisfæðis, umhverfisvænna matvæla, lífrænna matvæla og veganfæðis reyndist hins vegar tíðust á meðal þeirra svarenda sem kváðust hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af loftslagsmálum.
Ef litið er til hegðunarbreytinga má sjá að hlutfall þeirra sem kváðust neyta mjólkurvara og rauðs kjöts fór minnkandi með auknum breytingum á matarvenjum en þeir svarendur sem kváðust hafa breytt matarvenjum sínum mikið reyndust einnig ólíklegri en aðrir svarendur til að segjast neyta hvíts kjöts oft eða alltaf sem hluta af daglegu mataræði sínu. Þá reyndust þau sem kváðust hafa breytt matarvenjum sínum nokkuð eða mikið líklegri en aðrir til að segja grænmetisfæði, umhverfisvæn matvæli, lífræn matvæli og veganfæði oft eða alltaf vera hluta af sínu daglega mataræði heldur en aðrir.
Umhverfiskönnun MMR 2019:
68% hafa áhyggjur af hlýnun jarðar
Reyna að lágmarka umhverfisáhrif
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 932 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 23. maí til 29. maí 2019