Umhverfismál verða sífellt fyrirferðameiri í samfélagsumræðunni og segjast nú tæp 70% Íslendinga hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar. Þetta kemur fram í umhverfiskönnun MMR sem framkvæmd var dagana 23. maí - 29. maí 2019. Mikill munur var á afstöðu eftir stjórnmálaskoðunum en stuðningsfólk Samfylkingar og ungt fólk hefur hvað mestar áhyggjur af hlýnun jarðar en stuðningsfólk Miðflokksins hvað minnstar.
Af þeim svarendum sem tóku afstöðu til könnunarinnar kváðust 35% hafa mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og 33% frekar miklar áhyggjur. Þá kváðust 21% hafa bæði miklar og litlar áhyggjur, 5% frekar litlar áhyggjur og 6% mjög litlar áhyggjur.
Spurt var: „Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af hlýnun jarðar?“
Svarmöguleikar voru: „Mjög litlar“, „Frekar litlar“, „Bæði/og“, „Frekar miklar“, „Mjög miklar“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,0% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Konur höfðu meiri áhyggjur af hlýnun jarðar heldur en karlar og kváðust 76% kvenna hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur, samanborið við 60% karla. Áhyggjur af hlýnun jarðar voru hvað mestar hjá yngsta og elsta aldurshópnum en 77% þeirra á aldrinum 18-29 ára kváðust hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur og 70% þeirra 68 ára og eldri. Þá hækkaði hlutfall þeirra sem kváðust hafa litlar áhyggjur jafnt og þétt í takt við aukinn aldur en 7% þeirra í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) kváðust hafa frekar eða mjög litlar áhyggjur samanborið við 16% þeirra 68 ára og eldri.
Nokkur munur reyndist á svörum eftir búsetu en íbúar höfuðborgarsvæðisins voru líklegri til að segjast hafa mjög miklar áhyggjur af hlýnun jarðar (40%) heldur en íbúar af landsbyggðinni (26%). Landsbyggðarbúar voru aftur á móti ívið líklegri til að hafa frekar eða mjög litlar áhyggjur (8%) heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu (16%).
Töluverður munur var á svörum eftir stjórnmálaskoðunum. Þá kvaðst 96% stuðningsfólks Samfylkingarinnar hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og 89% stuðningsfólks Vinstri grænna. Af stuðningsfólki Miðflokksins kvaðst 39% hafa miklar áhyggjur af hlýnun jarðar en 36% litlar áhyggjur.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 932 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 23. maí til 29. maí 2019