Samfélagsmál

|

Nær helmingur landsmanna (44,9%) taldi að fjöldi þess flóttafólks sem veitt er hæli á Íslandi væri nægilegur. Þetta kemur fram í nýlegri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 2. til 12. mars 2018. Alls töldu 29,4% svarenda of lítinn fjölda flóttamanna fá hælisveitingu á Íslandi en 25,7% kváðu of mikinn fjölda flóttafólks fá hæli á landinu.

FlóttafólkSpurt var: „Telur þú að fjöldi flóttafólks sem fær hæli á Íslandi sé of mikill, hæfilegur eða of lítill, eins og staðan er í dag?“
Svarmöguleikar voru: „Of mikill fjöldi flóttafólks“, „Hæfilegur fjöldi flóttafólks“, „Of lítill fjöldi flóttafólks“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 85,9% afstöðu til spurningarinnar.
 

Afstaða gagnvart hælisveitingum til flóttafólks hafði lítið breyst frá skoðanakönnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2017, þar sem 24% svarenda sögðu fjölda flóttafólks sem veitt er hæli á Íslandi vera of mikinn, 45% sögðu fjöldan hæfilegan og 31% sögðu fjöldan of lítinn. Hlutföll svarenda í öllum hópum helst nær óbreytt á milli ára og eru innan 95% vikmarka.

3004 Flottafolk 1718

Munur eftir lýðfræðihópum
Konur kváðu fjölda flóttafólks sem fær hæli á Íslandi vera of lítinn (33%) í meira mæli heldur en karlar (26%). Karlar voru hins vegar líklegri til að telja fjöldann nægilegan (46%) eða of mikinn (28%). Þegar litið var til aldurs svarenda mátti sjá að 33% yngsta aldurshópsins (18-29 ára) kváðu hælisveitingar ekki vera nægjanlegar en það hlutfall fór minnkandi með auknum aldri. Svarendur í elsta aldurshópi (67 ára og eldri) voru að sama skapi líklegri en yngri svarendur til að telja fjölda þeirra flóttamanna sem fá hæli á Íslandi vera of mikinn (34%).

Nokkurn mun mátti sjá á afstöðu eftir búsetu en 36% íbúa höfuðborgarsvæðisins töldu hælisveitingar til flóttafólks vegar ófullnægjandi, samanborið við 33% íbúa landsbyggðarinnar. Landsbyggðarbúar voru hins vegar líklegri til að segja hælisveitingar nægjanlegar (54%) heldur en svarendur af höfuðborgarsvæðinu (40%). Mun var einnig að finna þegar litið var til menntunar svarenda en háskólamenntaðir (45%) voru nokkuð líklegri til að telja fjölda flóttafólks sem veitt er hæli vera of lítinn, samanborið við svarendur sem lokið höfðu námi eftir útskrift úr grunn- (23%) eða framhaldsskóla (21%). Þá voru einstaklingar í lægri tekjuhópum líklegri til að telja of mikinn fjölda flóttafólks fá hæli á Íslandi heldur en svarendur úr hærri tekjuhópum.

Ef litið var til stuðnings við stjórnmálaflokka mátti sjá nokkra skiptingu á afstöðu svarenda. Stuðningsfólk Sjálfstæðis- (55%) og Framsóknarflokks (56%) voru líklegust til að telja hælisveitingar til flóttafólks vera hæfilegar. Svarendur sem lýstu stuðningi við Miðflokkinn (58%) og Flokk fólksins (70%) voru líklegastir til að telja slíkum hælisveitingum ofaukið en stuðningsfólk Vinstri grænna (45%), Viðreisnar (50%), Pírata (52%) og Samfylkingar (55%) kváðu hælisúthlutanir vera ónógar.

3004 Flottafolk x

 

MMR könnun 2017: Skiptar skoðanir um hælisveitingar

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 995 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 2. til 12. mars 2018