Samfélagsmál

|

Nokkuð skiptar skoðanir eru uppi um þann fjölda flóttamanna sem fá hæli hér á landi. Nær helmingur Íslendinga (45,0%) telur að hæfilegum fjölda flóttamanna sé veitt hæli hér á landi eins og staðan er í dag. Þetta sýnir könnun MMR sem fram fór dagana 10. til 15. febrúar 2017. Alls töldu 30,9% svarenda að fjöldi flóttafólks sem fær hér hæli sé of lítill en 24,1% töldu of mikinn fjölda flóttamanna fá hæli. 

 

 1702 flóttafólk 2Spurt var: „Telur þú að fjöldi flóttafólks sem fær hæli á Íslandi sé of mikill, hæfilegur eða of lítill, eins og staðan er í dag?“ Svarmöguleikar voru: Of lítill fjöldi flóttafólks, hæfilegur fjöldi flóttafólks, of mikill fjöldi flóttafólks,
veit ekki og 
 vil ekki svara.

Samtals tóku 87,5% svarenda afstöðu til spurningarinnar.

Munur á afstöðu eftir lýðfræðihópum 

Af körlum töldu 28% fjölda flóttamanna sem fær hæli hér á landi vera of mikinn, samanborið við 20% kvenna. Konur voru töluvert líklegri en karlar til að telja að hæfilegur fjöldi flóttamanna fái hér hæli eins og staðan er í dag. Þegar afstaða er skoðuð með tilliti til aldurs sést að yngra fólk var líklegra en eldra til að telja of fáum flóttamönnum vera veitt hæli hér á landi. Fólk á aldrinum 50-67 ára voru líklegust til að telja of marga flóttamenn fá hér hæli, eða 35%. Aldurshópurinn 68 ára og eldri var líklegastur til að telja fjölda þeirra sem fá hæli vera hæfilegann.

Nokkuð mikill munur var á svörum eftir menntun. Af þeim sem höfðu háskólapróf töldu 50% að of fáir flóttamenn fái hér hæli, samanborið við 26% þeirra með framhaldsskólapróf og 15% grunnskólamenntaðra. Af þeim sem höfðu grunnskólapróf töldu 38% að of margir flóttamenn fái hér hæli, samanborið við 27% þeirra með framhaldsskólapróf og 9% háskólamenntaðra.

Stuðningsmenn Pírata reyndust líklegastir til að telja of fáum flóttamönnum vera veitt hér hæli, eða 57%. Af stuðningsmönnum Framsóknarflokksins töldu 7% að of fáum flóttamönnum sé veitt hæli hér á landi og 8% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks. Stuðningsmenn Framsóknar (36%) og Sjálfstæðisflokksins (34%) voru líklegastir til að telja of mörgum flóttamönnum hafi verið veitt hæli. Jafnframt voru stuðningsmenn Framsóknar (57%) og Sjálfstæðisflokks (58%) líklegastir til að telja fjölda flóttamanna sem fá hér hæli vera hæfilegan.

 1702 flóttafólk x 2

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar, 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 908 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 10.-15. febrúar 2017