Íslendingar hafa ekki verið jafn ánægðir með sumarveðrið síðan árið 2010 samkvæmt nýrri könnun MMR. Svarendur voru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir voru með veðrið á Íslandi í sumar og sumarfríið sitt, en 94% svarenda sögðust vera ánægðir með veðrið á Íslandi í sumar og 89% sögðust vera ánægðir með sumarfríið sitt.
Þegar litið er til afstöðu Íslendinga frá árinu 2010 til 2016 má sjá að ánægja með sumarveðrið var yfirburða mikil árin 2010 og 2016, þegar 95% (árið 2010) og 94% (árið 2016) sögðust vera ánægðir með veðrið það sumarið. Til samanburðar má sjá að einungis 44% Íslendinga voru ánægðir með veðrið sumarið 2013.
Sjá má að þrátt fyrir að ánægja með veðrið hafi sveiflast mikið með árunum hefur ánægja fólks með sumarfríið sitt breyst mun minna, en frá 87% til 91% Íslendinga hafa verið ánægðir með sumarfríiið sitt allt frá árinu 2010.

Spurt var: 'hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með eftirfarandi?' (atriði A til B birtust í tilviljunarkenndri röð).
A: Sumarfríið þitt, B: Veðrið á Íslandi í sumar.
Svarmöguleikar voru: mjög ánægð(ur), frekar ánægð(ur), frekar óánægð(ur), mjög óánægð(ur), á ekki við og veit ekki/vil ekki svara.
Niðurstöður sýna fjölda þeirra sem tóku afstöðu.
Fjöldi þeirra sem tók afstöðu til einstakra spurninga var á bilinu 83,3% (sumarfrí) til 99,0% (veður).

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 949 einstaklingar, 18 ára og eldri
Dagsetning framkvæmdar: 22. ágúst til 29. ágúst 2016
Eldri kannanir sama efnis:
2015 ágúst:MMR könnun á ánægju íslendinga
2014 ágúst:MMR könnun á ánægju íslendinga
2014 ágúst:MMR könnun á ánægju með veðrið
2013 ágúst: MMR könnun á ánægju íslendinga
2012 september: MMR könnun á ánægju íslendinga
2011 ágúst: MMR könnun á ánægju íslendinga