MMR kannaði á dögunum afstöðu almennings til þess hvort til greina kæmi að kjósa nýtt framboð hægrimanna, sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokkins, ef það byði fram í næstu Alþingiskosningum. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 38,1% að til greina kæmi að kjósa nýtt framboð hægrimanna í næstu kosningum og 61,9% sögðu það ekki koma til greina.
Þetta er meiri stuðningur við mögulegt nýtt framboð en hefur mælst við önnur slík á síðastliðnum árum. Má þar til samanburðar vísa til könnunar MMR frá í janúar 2012 þar sem nýtt framboð Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins annars vegar og nýtt framboð Lilju Mósesdóttur hins vegar nutu stuðnings 23-24% þeirra sem tóku afstöðu. Hæst fór stuðningur við framboð Guðmundar Steingrímsonar í 34% í október 2011.
Spurt var: „Kæmi til greina að þú kysir nýtt framboð hægrimanna, sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, ef það byði fram í næstu Alþingiskosningum?"
Svarmöguleikar voru: Já, nei, veit ekki og vil ekki svara.
Samtals tóku 65,0% afstöðu til spurningarinnar.
Afstaða breytileg eftir hópum
Nokkur munur var á afstöðu fólks til þess hvort það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð hægrimanna eftir kyni, aldri, búsetu og heimilistekjum. Hlutfallslega fleiri karlar en konur sögðust vera jákvæðir fyrir framboðinu. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 47,4% karla að til greina kæmi að kjósa nýtt framboð hægrimanna í næstu kosningum, borið saman við 25,3% kvenna.
Þeir sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) voru neikvæðari gagnvart framboðinu en aðrir. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu elsta aldurshópnum sögðu aðeins 19,5% að til greina kæmi að kjósa framboðið í næstu kosningum, borið saman við 42,2% þeirra sem tilheyrðu aldurshópnum 50 til 67 ára.
Þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu voru jákvæðari gagnvart framboðinu en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu sögðu 43,9% að til greina kæmi að kjósa framboðið, borið saman við 28,3% þeirra sem voru búsettir á landsbyggðinni.
Þeir sem tilheyrðu tekjuhæsta hópnum (800 þúsund eða hærri heimilistekjur á mánuði) voru jákvæðari gagnvart framboðinu en aðrir. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu tekjuhæsta aldurshópnum sögðust 55,7% að til greina kæmi að kjósa framboðið í næstu kosninum, borið saman við 23,3% þeirra sem tilheyrðu tekjulægsta hópnum (undir 250 þúsund á mánuði).
Nokkur munur var á afstöðu fólks til framboðsins eftir því hvaða flokk það kaus í síðustu kosningum. Þannig kæmi framboðið til greina hjá 52,3% þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu kosningum, 48,7% Sjálfstæðisfólks, 42,7% Pírata, 35,9% Framsóknarfólks, 30,1% Samfylkingarfólks og 20,0% Vinstri-grænna.
Eldri kannanir sama efnis:
2012 janúar: MMR Könnun: Stuðningur við ný framboð
Október 2011: MMR Könnun: Stuðningur við nýtt framboð
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 960 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 28. mars til 1. apríl 2014
Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.