MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvort kæmi til greina að kjósa nokkur „ný-framboð“, sem hafa verið í umræðunni, ef þau byðu fram í næstu Alþingiskosningum. Framboðin sem spurt var um voru eftirfarandi:
a: Björt framtíð (undir forystu Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins)
b: Nýtt framboð undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar
c: Nýtt framboð undir forystu Lilju Mósesdóttur og
d: Hægri-grænir (undir forystu Guðmundar Franklín Jónssonar)
Í ljós kom að 52,3% þeirra sem tóku afstöðu sögðu að eitthvert framboðanna fjögurra kæmu til greina sem valkostur við næstu Alþingiskosningar, byðu þau á annað borð fram lista. Lítill munur reyndist á fjölda þeirra sem sagði það koma til greina að kjósa einstök framboð (að Hægri-grænum undanskyldum). En um og yfir 23% þeirra sem tóku afstöðu sögðu það koma til greina að kjósa Bjarta framtíð (undir forystu Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins), nýtt framboð undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar eða nýtt framboð undir forystu Lilju Mósesdóttur. Öllu færri, eða 5,6% þeirra sem tóku afstöðu, sögðu það koma til greina að kjósa Hægri-græna (undir forystu Guðmundar Franklín Jónssonar).
Töluverður munur eftir stuðningi við stjórnmálaflokka
Athyglivert er að skoða niðurstöðurnar út frá stuðningi fólks við stjórnmálaflokka sem áður hafa boðið fram til Alþingis. Ber þar hæst að af þeim sem að öðrum kosti myndu kjósa Samfylkinguna nú voru 60,0% sem sögðu eitthvert ný-framboðanna fjögurrra koma til greina. Munaði þar mest um að 47,5% stuðningsfólks Samfylkingarinnar sagði að framboð Bjartrar framtíðar kæmi til greina. Sé litið til annarra stjórnmálaflokka má nefna að 49,2% Framsóknarmanna töldu að eitthvert framboðanna kæmu til greinar og þá helst nýtt framboð undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar (37,9%). Af kjósendum Vinstri-grænna voru 38,7% sem sögðu eitthvert framboðanna koma til greina, einkum Björt framtíð (21,5%) og nýtt framboð undir forystu Lilju Mósesdóttur (19,2%). Þá voru 31,7% Sjálfstæðismanna sem sögðu að eitthvert framboðanna koma til greina og þá helst möguleg ný-framboð Lilju Mósesdóttur (15,4%) eða Ólafs Ragnars Grímssonar (14,9%).
Niðurstöðurnar í heild: 1201_tilkynning_ny_frambod.pdf