SamsungSIII

Íslendingar virðast hafa tekið svokölluðum snjallsímum opnum örmum samkvæmt könnun MMR á íslenskum farsímamarkaði í október 2012. Af þeim sem tóku afstöðu ti spurningar þess eðlis sögðust 54,0% eiga snjallsíma sem er fjölgun frá nóvember 2010 þegar 43,0% sögðust eiga snjallsíma.

 Af öllum sem tóku afstöðu voru 43,4% sem sögðust nota mest farsíma frá Nokia. Þegar svarendahópnum var skipt eftir því hvort símtæki svarenda voru snjallsímar eða ekki kom hins vegar í ljós verulegur munur á fjölda notenda með Nokia síma. Þannig voru 74,0% þeirra sem nota hefðbundin símtæki sem sögðust mest nota Nokia síma. Á móti voru aðeins 17,1% þeirra sem sögðust vera með snjallsíma með símtæki frá Nokia. Hlutdeild Nokia meðal snjallsímanotenda var því nokkuð lægri en meðal notenda á hefðbundnum farsímum. Hlutdeild Nokia á meðal snjallsímanotenda hefur lækkað stöðugt frá því í nóvember 2010 þegar hún mældist 50,8%.

Flestir snjallsímanotendur voru með símtæki frá Samsung eða 33,5% þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar. Hlutdeild Samsung meðal snjallsímanotenda hefur aukist stöðugt frá því í nóvember 2010 þegar hún mældist 3,8%. Apple (iPhone) og HTC hafa einnig bætt við sig hlutdeild meðal snjallsímanotenda en hlutdeild annara framleiðenda hefur ýmist staðið í stað eða dregist saman.

1210 mobile 1-2Spurt var: Frá hvaða framleiðanda er símtækið sem þú notar mest? Samtals tóku 99% afstöðu til spurningarinnar.


Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 37,6% það koma til greina að kaupa snjallsíma frá Nokia ef slíkur sími væri keyptur í dag. Nokkuð færri, eða 13,7%, nefndu Nokia hins vegar sem þann framleiðanda sem þau myndu líklegast velja ef keyptur væri snjallsími í dag.

Þá reyndust 11,8% þeirra sem tóku afstöðu vera með apple (iPhone) símtæki en mikill áhugi virtist á símum frá Apple (iPhone) þar sem rúmur þriðjungur sagðist líklegast kaupa sér símtæki frá Apple (iPhone) ef þau væru að kaupa sér snjallsíma í dag. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu flestir, eða 38,5%, að þeir myndu líklegast kaupa Samsung símtæki ef þau væru að kaupa sér snjallsíma í dag. Áhugi á því að eignast Samsung snjallsíma hefur aukist stöðugt frá nóvember 2010 þegar 3,9% aðspurðra sögðu líklegast að þau myndi kaupa sér Samsung snjallsíma.

1210 mobile 3-4Spurt var:
Ef þú værir að fá þér snjallsíma í dag hvaða framleiðendur kæmu til greina? (82% tóku afstöðu).
Ef þú værir að fá þér snjallsíma í dag - frá hvaða framleiðanda myndir þú líklegast kaupa? (78% tóku afstöðu).

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar á aldrinum 18-67 ára valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 829 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára
Dagsetning framkvæmdar: 9.-12. október 2012

Eldri kannanir sama efnis:
2010 nóvember: MMR könnun á farsímamarkaði

Niðurstöðurnar á PDF:
pdf1210_tilkynning-snjallsímar.pdf

Notkun heimil svo lengi sem heimilda (vörumerkis MMR) er getið.
Allur réttur áskilinn: 2006 © Markaðs- og miðlarannsóknir ehf.