Ásmundur Einar Daðason, skóla og barnamálaráðherra er sá ráðherra sem nýtur mests trausts meðal landsmanna en fæstir treysta Jóni Gunnarssyni, dómsmálaráðherra. Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun MMR á trausti til ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Nokkurn mun má sjá á trausti til ráðherra eftir flokkslínum en ráðherrar Framsóknarflokksins njóta meira trausts og minna vantrausts heldur en allir aðrir ráðherrar, að forsætisráðherra undanskildri. Þá mældust ráðherrar Sjálfstæðisflokksins með meira vantraust en ráðherrar annarra ríkisstjórnarflokka.
Spurt var: „Hversu mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi ráðherra?“
Eftirfarandi svarmöguleikar voru birtir fyrir hvern aðila sem birtur er hér að ofan: „Mjög lítið traust“, „Frekar lítið traust“, „Hvorki mikið né lítið traust“,
„Frekar mikið traust“, „Mjög mikið traust“ og „Veit ekki/vil ekki svara“. Samtals tóku 97,4% afstöðu til eins eða fleiri aðila.
Munur eftir kyni og aldri svarenda
Karlar reyndust líklegri til að segjast bera mjög eða frekar mikið traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar (56%) og Willum Þórs Þórssonar (53%) heldur en konur (49% Sigurður Ingi, 34% Willum Þór) en konur voru öllu líklegri en karlar til að lýsa trausti til Katrínar Jakobsdóttur.
Traust til ráðherra reyndist almennt hærra hjá eldri svarendum en þeim yngri og mátti greina aukið traust til Ásmundar Einars Daðasonar, Sigurðar Inga og Willum Þórs með auknum aldri svarenda. Þá reyndust svarendur 68 ára og eldri líklegri til að lýsa trausti til Katrínar Jakobsdóttur en lítill munur reyndist á trausti til Lilju Alfreðsdóttur eftir aldri.
Karlar reyndust líklegri til að lýsa vantrausti til Jóns Gunnarssonar (50%), Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur (42%) og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur (33%) heldur en konur. Konur reyndust á móti líklegri til að lýsa vantrausti á Bjarna Benediktssyni (46%) heldur en karlar (42%).
Vantraust til Jóns Gunnarssonar (47%) og Bjarna Benediktssonar (51%) reyndist mest meðal svarenda yngsta aldurshópsins og fór minnkandi með auknum aldri svarenda. Svarendur 50 ára og eldri reyndust hins vegar líklegri en yngri svarendur til að lýsa vantrausti gagnvart Áslaugu Örnu (46% meðal 50-67 ára, 44% meðal 68 ára og eldri) og Þórdísi Kolbrúnu (41% meðal 50-67 ára, 36% meðal 68 ára og eldri).
Munur eftir stuðningi við stjórnmálaflokka
Nokkurn mun má sjá eftir stjórnmálaskoðunum svarenda. Traust til Ásmundar Einars Daðasonar mældist hátt þvert á flokka en yfir 70% stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna og um helmingur stuðningsfólks Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins kváðust bera frekar eða mjög mikið traust til hans. Katrín Jakobsdóttir mældist með nær algjöran stuðning meðal stuðningsfólks Vinstri-grænna - en 96% þeirra kváðust bera mikið traust til forsætisráðherrans. Katrín naut einnig mikils stuðnings meðal stuðningsfólks hinna ríkisstjórnarflokkanna en rúmlega þrír fjórðu hlutar stuðningsfólks Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins kváðust bera mikið traust til hennar, sem og um helmingur stuðningsfólks Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Traust til Sigurðar Inga Jóhannssonar og Lilju Alfreðsdóttur mældist einnig mest meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna en minna hjá stuðningsfólki annarra flokka en traust til Willums Þórs Þórssonar mældist mest meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Miðflokksins.
Athygli vekur hversu hátt hlutfall stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna lýsir vantrausti til Jóns Gunnarssonar en helmingur stuðningsfólks Vinstri-grænna, þriðjungur stuðningsfólks Framsóknar og fjórðungur stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins kvaðst bera frekar eða mjög lítið traust til dómsmálaráðherrans. Þá kváðust um helmingur stuðningsfólks Vinstri-grænna og fjórðungur stuðningsfólks Framsóknar bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar og rúmur helmingur stuðningsfólks Vinstri-grænna og þriðjungur stuðningsfólks Framsóknar lýsti vantrausti á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 933 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 29. nóvember til 2. desember 2021