Um þrír af hverjum fjórum landsmanna (77%) telja hlutina vera að þróast í rétta átt á Íslandi en tæpur fjórðungur (23%) telur þá á rangri braut. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2021. Þegar litið er á þróun hlutanna í sögulegu samhengi má sjá að hlutfall þeirra sem töldu hlutina vera að þróast í rétta átt jókst um rúm 20 prósentustig eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst í mars 2020 og hefur það haldist stöðugt síðan. Af niðurstöðunum má ráða að fólki finnist íslensku samfélagi vegna betur eftir að kórónaveirufaraldurinn skall á með öllum þeim aðgerðum sem fylgdu í kjölfarið.
Spurt var: „Almennt séð, myndir þú segja að hlutirnir séu að þróast í rétta átt á Íslandi eða eru þeir á rangri braut?“
Svarmöguleikar voru: „Á rangri braut“, „Í rétta átt“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 81,2% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Konur reyndust líklegri en karlar til að segja hlutina vera á réttri braut en 80% þeirra sögðu hlutina vera að þróast í rétta átt, samanborið við 75% karla. Svarendur í elsta aldurshópi reyndust jákvæðastir fyrir þróun hlutanna en 84% þeirra 68 ára og eldri sögðu hlutina stefna í rétta átt, samanborið við 79% svarenda 18-29 ára, 76% þeirra 50-67 ára og 75% þeirra 30-49 ára. Þá voru svarendur af höfuðborgarsvæðinu (80%) líklegri en þau af landsbyggðinni (72%) til að segja hlutina vera að þróast í rétta átt.
Nokkuð skýra skiptingu mátti sjá á jákvæðni milli stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar. Alls sögðu 88% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins, 86% stuðningsfólks Framsóknar og 85% stuðningsfólks Vinstri-grænna hlutina vera að þróast í rétta átt á Íslandi, samanborið við 76% stuðningsfólks Samfylkingarinnar og Pírata, 75% stuðningsfólks Viðreisnar og 73% stuðningsfólks Miðflokksins.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 919 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 12. til 18. febrúar 2021
Eldri kannanir sama efnis:
2018: Meirihluti telur hlutina á réttri leið
2017: Hvert stefnir þetta alltsaman eiginlega?