Þeim fjölgaði milli ára sem helst lýstu áhyggjum af uppgangi öfgaskoðana, glæpum og ofbeldi í íslensku samfélagi. Fjöldi þeirra sem lýstu mestum áhyggjum af atvinnuleysi, sem hafði ríflega tvöfaldast við upphaf kórónuveirufaraldursins, mælist áfram hár en mikið dró úr fjölda þeirra sem lýstu áhyggjum af efnahagssamdrætti. Þá fækkaði þeim töluvert sem sögðust hafa mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var í febrúar 2021.
Af þeim atriðum sem spurt var um kváðust flestir svarendur hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (36%) en atriðið hefur verið á meðal efstu þriggja frá því að mælingar hófust árið 2017. Áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum hafa minnkað nokkuð frá upphafi kórónuveirufaraldursins og mælast nú meðal 34% svarenda, samanborið við 44% í febrúar 2020. Hið sama má segja um áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (26%) sem hafa minnkað um 10 prósentustig frá því í mars 2020 við upphaf lokana vegna COVID-19 og um 23 prósentustig frá febrúar sama ár.
Ekkert lát er á áhyggjum af atvinnuleysi en þær fóru úr 11% í febrúar 2020 upp í 23% í mars 2020 og mælast nú 24%. Þá ber einnig á auknum áhyggjum af uppgangi öfgaskoðana (23%) sem mælast nú 7 prósentustigum hærri en við síðustu könnun og glæpum og ofbeldi (18%) sem vaxið hafa um 11 prósentustig á milli mælinga. Áhyggjur af húsnæðismálum hafa hins vegar mælst stöðugar í 16% frá könnun 2018, þegar þær mældust 30%.
Spurt var: „Hvaða þremur af neðangreindum atriðum hefur þú mestar áhyggjur af á Íslandi eða í íslensku samfélagi?“
Svarmöguleikar voru: „Atvinnuleysi“, „Spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum“, „Fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður“, „Glæpir og ofbeldi“, „Heilbrigðisþjónusta“,
„Hryðjuverk“, „Menntun“, „Skattar“, „Innflytjendamál“, „Siðferðishnignun“, „Verðbólga“, „Uppgangur öfgaskoðana“, „Viðhald velferðarkerfisins“, „Ógnir gegn umhverfinu“,
„Loftslagsbreytingar“, „Ofþyngd barna“, „Aðgengi að lánsfé“, „Húsnæðismál“, „Efnahagslegt hrun/samdráttur“, „Ekkert af ofangreindu“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 97,4% afstöðu til spurningarinnar.
Athygli vekur að áhyggjur af loftslagsmálum hafa minnkað lítillega undanfarin ár og mælast nú 16% en mældust mestar 20% árið 2019. Áhyggjur af efnahagslegu hruni eða samdrætti jukust verulega í mælingu mars 2020 eftir að fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins hófst á Íslandi og mældust þá 32% en þær áhyggjur hafa minnkað umtalsvert á milli mælinga og mælast nú 12%. Þá er nokkurn stöðugleika að sjá yfir tíma á áhyggjum af innflytjendamálum (15%), viðhaldi velferðarkerfisins (15%) og verðbólgu (12%) en áhyggjur af siðferðishnignun aukast lítillega á milli mælinga og mælast nú 11%, fjórum prósentustigum meira en við síðustu mælingu.
Áhyggjur af sköttum (10%), ofþyngd barna (9%), ógnum gegn umhverfinu (6%) og menntun (5%) halda að mestu óbreyttar á milli mælinga en áhyggjur af aðgengi að lánsfé (2%) og hryðjuverkum (1%) mælast hverfandi líkt og fyrri ár.
Munur eftir lýðfræðihópum
Nokkurn mun var að sjá á áhyggjum svarenda eftir lýðfræðihópum. Konur reyndust líklegri heldur en karlar til að segjast hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustu (31%), glæpum og ofbeldi (20%) og húsnæðismálum (20%) en karlar reyndust líklegri til að lýsa áhyggjum af atvinnuleysi (29%) og uppgangi öfgaskoðana (26%).
Svarendur í yngsta aldurshópi (18-29 ára) reyndust líklegri en aðrir svarendur til að lýsa áhyggjum af heilbrigðisþjónustu (34%) og húsnæðismálum (39%) en áhyggjur af báðum málaflokkunum fóru minnkandi með auknum aldri og mældust minnstar meðal svarenda 68 ára og eldri (20% heilbrigðisþjónusta; 3% húsnæðismál). Svarendur elsta aldurshópsins voru einnig ólíklegri en aðrir svarendur til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (29%) og uppgangi öfgaskoðana (17%) en reyndust líklegri en aðrir svarendur til að hafa áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum (40%), atvinnuleysi (32%) og glæpum og ofbeldi (34%).
Þá reyndust svarendur búsettir á landsbyggðinni líklegri til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (39%) og atvinnuleysi (28%) en þau af höfuðborgarsvæðinu (34% fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður; 22% atvinnuleysi). Höfuðborgarbúar reyndust hins vegar líklegri til að lýsa áhyggjum af húsnæðismálum (19%) en íbúar landsbyggðarinnar (11%).
Mun var þó að finna á áhyggjum svarenda eftir stjórnmálaafstöðu þeirra. Á meðal stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna reyndist stuðningsfólk Vinstri-grænna (58%) líklegast til að segjast hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (58%), stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins kvaðst líklegast til að hafa áhyggjur af atvinnuleysi (38%) og stuðningsfólk Framsóknar reyndist líklegast til að segjast hafa áhyggjur af glæpum og ofbeldi (35%). Af stuðningsfólki stjórnarandstöðuflokkanna kvaðst stuðningsfólk Samfylkingarinnar líklegast til að hafa áhyggjur af fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (50%) en stuðningsfólk Pírata (51%), Viðreisnar (43%) og Miðflokksins (26%) reyndist líklegast til að segjast hafa áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum.
Þá var stuðningsfólk Framsóknar líklegra en aðrir til að lýsa áhyggjum af heilbrigðisþjónustu (25%), stuðningsfólk Samfylkingarinnar var líklegast til að lýsa áhyggjum af uppgangi öfgaskoðana (35%) og stuðningsfólk Pírata reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast hafa áhyggjur af húsnæðismálum (20%).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 919 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 12. til 18. febrúar 2021
Eldri kannanir sama efnis:
2019: Mestar áhyggjur af spillingu og fátækt
2018: Meirihluti telur hlutina á réttri leið
2017: Hvert stefnir þetta alltsaman eiginlega?