Nær helmingur Íslendinga (45%) telja það eins öruggt eða öruggara að ferðast með Boeing 737 MAX flugvélum samanborið við aðrar farþegaþotur en 22% telja það óöruggara. Þriðjungur aðspurðra kvaðst ekki hafa mótað sér afstöðu. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var í janúar 2021. Alls kváðust 10% telja það mun öruggara að ferðast með Boeing MAX þotunum heldur en öðrum farþegaþotum, 12% töldu það nokkuð öruggara, 23% eins öruggt/óöruggt, 11% nokkuð óöruggara og 11% mun óöruggara og 33% kváðust ekki viss.
Spurt var: „Í samanburði við aðrar farþegaþotur, hversu öruggt eða óöruggt telur þú það að ferðast með Boeing 737 MAX flugvélum?“
Svarmöguleikar voru: „Mun óöruggara“, „Nokkuð óöruggara“, „Eins öruggt/óöruggt“, „Nokkuð öruggara“, „Mun öruggara“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Samtals tóku 98,4% afstöðu til spurningarinnar.
Munur eftir lýðfræðihópum
Karlar (54%) reyndust líklegri heldur en konur (35%) til að segjast telja það eins öruggt eða öruggara að ferðast með Boeing 737 MAX vélunum heldur en öðrum farþegaþotum. Konur (41%) voru líklegri en karlar (25%) til að segjast óvissar um hvort MAX vélarnar væru öruggari en aðrar farþegaþotur eða ekki en lítill munur var á milli kynjanna á hlutfalli þeirra sem kváðust telja MAX vélarnar óöruggari en aðrar farþegaþotur (23% konur; 21% karlar).
Svarendur 50-67 ára (48%) reyndust líklegastir til að segjast telja ferðalög með Boeing flugvélunum eins örugg eða öruggari en með öðrum farþegaþotum og svarendur 18-29 ára ólíklegastir (41%). Svarendur yngsta aldurshópsins reyndust einnig ólíklegastir til að segja ferðalög með MAX vélunum óöruggari en með öðrum farþegaþotum (16%) og líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast ekki viss hvort MAX vélarnar séu öruggari eða óöruggari en annars konar farþegaþotur (43%).
Lítill munur reyndist á afstöðu eftir búsetu svarenda.
Athygli vekur að traust til Boeing 737 MAX vélanna jókst samhliða aukinni tíðni ferðalaga svarenda. Þeir svarendur sem kváðust að jafnaði hafa ferðast erlendis fimm sinnum á ári eða oftar áður en kórónuveirufaraldurinn skall á reyndust líklegastir til að segjast telja ferðir með Boeing 737 MAX flugvélunum jafn öruggar eða öruggari heldur en með öðrum farþegaþotum (56%). Traust til Boeing 737 MAX vélanna minnkaði samhliða fækkun á fjölda ferða erlendis og mældist lægst meðal þeirra svarenda sem kváðust að jafnaði ekki hafa ferðast erlendis á hverju ári (34%). Þá mældist óvissa um öryggi MAX flugvélanna mest meðal þeirra sem minnst kváðust ferðast en 46% þeirra sem kváðust að jafnaði ekki ferðast erlendis og 39% þeirra sem kváðust ferðast einu sinni á ári sögðust ekki viss um hversu öruggar MAX vélarnar væru, samanborið við 21% þeirra sem kváðust að jafnaði ferðast fimm sinnum á ári eða oftar.
Nokkurn mun var að sjá eftir stjórnmálaskoðunum svarenda. Stuðningsfólk Miðflokksins (56%), Sjálfstæðisflokksins (53%) og Framsóknar (52%) reyndist líklegast til að segjast telja ferðalög með Boeing 737 MAX flugvélum eins örugg eða öruggari heldur en ferðalög með öðrum farþegaþotum en stuðningsfólk Pírata (35%), Samfylkingarinnar (41%) og Flokks fólksins (44%) ólíklegast.
Þá reyndist stuðningsfólk Samfylkingarinnar (33%), Sjálfstæðisflokksins (29%) og Framsóknar (25%) líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast telja ferðalög með MAX vélunum óöruggari en með öðrum farþegaþotum en stuðningsfólk Vinstri-grænna (12%) og Viðreisnar (17%) ólíklegast.
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 2.002 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 30. desember 2020 til 11. janúar 2021