Samgöngur

|

Þeir landsmenn sem hyggja á bílakaup á næstunni horfa í auknu mæli til Tesla bifreiða en Toyota er sem áður sú bíltegund sem flestir segja að verði líklegast fyrir valinu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í Bílakaupakönnun MMR 2021 sem er nú fáanleg.

Svarendur sem kváðust hyggja á bifreiðakaup á næstu þremur árum reyndust líklegastir til að segja að Toyota verði fyrir valinu (17%) en hlutfall þeirra fer þó lækkandi, annað árið í röð. Næst í röðinni reyndust Volvo (10%) og Kia (8%) en báðar tegundanna fara upp um eitt sæti á milli ára. Tesla (6%) kemur sterkt inn á listann í ár og mældist sjötta eftirsóttasta bíltegundin meðal kaupenda nýrra bíla en athygli vekur að Volkswagen (6%) fer úr öðru sæti á lista síðasta árs niður í það áttunda.

1902 BílakaupSpurt var: „Ef þú værir að kaupa þér bíl í dag, hvaða bíltegund yrði líklegast fyrir valinu?“
Svarmöguleikar voru: „Audi“, „BMW“, „Chevrolet“, „Citroen“, „Dacia“, „Ford“, „Honda“, „Hyundai“, „Isuzu“, „Jaguar“, „Jeep“, „Kia“, „Land Rover“,
„Lexus“, „Mazda“, „Mercedes-Benz“, „MG“, „Mitsubishi“, „Nissan“, „Opel“, „Peugeot“, „Porche“, „Renault“, „Skoda“, „Ssangyong“, „Subaru“,
„Suzuki“, „Tesla“, „Toyota“, „Volkswagen“, „Volvo“, „Önnur bíltegund, hvaða?“ og „Vil ekki svara“.
Tesla var nefnd í um 1% tilvika í könnun síðasta árs undir liðnum „Önnur bíltegund, hver?“.
Samtals tóku 95,2% afstöðu til spurningarinnar. Myndin sýnir þá svarmöguleika sem oftast voru valdir.

Munur eftir lýðfræðihópum

Af þeim sem kváðust hyggja á kaup á nýjum bíl á næstu þremur árum reyndust karlar (19%) líklegri en konur (13%) til að segja að Toyota verði líklegast fyrir valinu. Konur (11%) reyndust hins vegar líklegri en karlar (4%) til að segjast hallast að kaupum á Skoda.

Svarendur í yngsta aldurshópi (18-29 ára) reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segja Toyota (29%), Kia (11%) eða Tesla (9%) vera sínar eftirsóttustu bíltegundir. Svarendur 30-49 ára reyndust líklegri en aðrir til að segjast helst vera á höttunum eftir Volvo (14%) eða Skoda (12%), þau 50-67 ára voru líklegust til að segja að Mercedes-Benz yrði líklegast fyrir valinu og svarendur 68 ára og eldri reyndust líklegust til að segjast munu velja Hyundai (9%), Volkswagen (9%) eða aðrar bíltegundir en þær sem hér eru birtar (49%).

Þá reyndust svarendur af landsbyggðinni líklegri til að segja Toyota (25%), Skoda (10%) og Volkswagen (8%) vera sínar eftirsóttustu bíltegundir heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu. Íbúar höfuðborgarsvæðisins reyndust aftur á móti líklegri en þau af landsbyggðinni til að segja að Mercedes-Benz (7%) eða aðrar tegundir (40%) verði líklegast fyrir valinu við sín næstu bílakaup.

1902 Bílakaup x1


Um Bílakaupakönnun MMR:

Markmið Bílakaupakönnunar MMR er að meta markaðslega stöðu íslenskra bílaumboða og vörumerkja þeirra með því að kanna vörumerkjavitund, ímynd umboða, kaupáform neytenda og helstu samkeppnisaðila með rýni í valsett neytenda, auk viðhorfa til fjámögnunarmöguleika við bílakaup. Könnuninn í heild telur 29 mæld atriði og er endurtekin árlega. Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar í heild er fáanleg hjá MMR (nánari upplýsingar á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 2.002 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 30. desember 2020 til 11. janúar 2021

Eldri kannanir sama efnis:
2019: Aukinn áhugi á notuðum rafbílum
2018: Sífellt fleiri vilja rafmagnsbíla