Matarvenjur

|

Landsmenn halda fast í hefðirnar þegar kemur að pylsuáti en nær fjórðungur fær sér helst eina með öllu. Tómatsósa og steiktur laukur eru vinsælasta meðlætið en skiptar skoðanir eru á því hvort remúlaðið eigi að vera undir eða ofan á pylsunni. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 23. - 28. júlí 2020. Klassíska meðlætið reyndist ofarlega í huga landsmanna en alls kváðust 91% þeirra sem tóku afstöðu vanalega fá sér tómatsósu með pylsu í pylsubrauði, 85% kváðust fá sér steiktan lauk, 74% pylsusinnep, 66% remúlaði og 60% hráan lauk. Öllu færri kváðust helst fá sér meðlæti sem kalla mætti óhefðbundið með pylsunni en 18% kváðust fá sér sætt sinnep / gult sinnep, 7% kartöflusalat og 17% tilgreindu eitthvað annað og öllu óhefðbundnara meðlæti.

Af öðru meðlæti reyndist markverðast að 4% kváðust vanalega fá sér hvíta pylsusósu með pylsunni sinni, 4% beikon, 2% ost og 2% súrar gúrkur en athygli vekur að 2% svarenda nefndu kokteilsósu. Af heild sögðust 95% svarenda borða pylsur í pylsubrauði.

MMRSpurt var: „Hvað, ef eitthvað, af eftirtöldu færð þú þér vanalega með pylsu í pylsubrauði?“
Svarmöguleikar voru: „Tómatsósu“, „Remúlaði“, „Steiktan lauk“, „Hráan lauk“, „Pylsusinnep“, „Sætt sinnep / gult sinnep“, „Kartöflusalat“, „Beikon“,
„Pylsusósu (hvíta)“, „Bakaðar baunir“, „Ost“, „Hvítlaukssósu“, „Rauðkál“, „Súrar gúrkur“, „Nacho flögur / Doritos“, „Franskar kartöflur“,
„Annað, hvað“, „Á ekki við - ég fæ mér ekki meðlæti með pylsu í pylsubrauði“, „Á ekki við - ég borða ekki pylsur í pylsubrauði“, og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 93,6% afstöðu til spurningarinnar.
 

Klassíkin var líka efst á blaði þegar litið var til þeirra samsetninga á pylsum sem finna má á diskum landsmanna. Nærri fjórðungur (23%) kvaðst helst fá sér eina með öllu (pylsu með tómatsósu, remúlaði, pylsusósu, hráum lauk og steiktum lauk, eins og flestum er eflaust kunnugt) og 8% kváðust fá sér eina með öllu ásamt viðbótarmeðlæti. Þá kváðust 9% fá sér eina með öllu en sleppa hráum lauk, 6% eina með öllu nema remúlaði og 6% kváðust sleppa bæði hráum lauk og remúlaði.

MMR

Einnig var spurt um hvar svarendur vilji helst hafa meðlætið í pylsubrauðinu. Ljóst er að meirihluta svarenda þótti klárt mál að tómatsósa (77%), steiktur (95%) og hrár laukur (94%) ætti heima undir pylsunni. Minni samstaða reyndist um um staðsetningu pylsusinnepsins, tveir af hverjum þremur sögðust kjósa að hafa pylsusinnepið ofan á pylsunni (65%) en tæpur fjórðungur kvaðst vilja það undir (23%). Skiptar skoðanir reyndust einnig á hvar rétt væri að staðsetja remúlaðið og kváðust 42% svarenda vilja hafa það undir pylsunni en önnur 42% ofan á henni.

MMRÞeir svarendur sem höfðu valið viðkomandi atriði í fyrri spurningu voru spurðir: „Hvar vilt þú helst setja/hafa eftirfarandi meðlæti með pylsunni í brauðinu?“
fyrir hvert af eftirtöldum atriðum (atriði birt í handahófskenndri röð): A: Tómatsósa, B: Remúlaði, C: Steiktur laukur, D: Hrár laukur, E: Pylsusinnep
Svarmöguleikar voru: „Undir pylsuna“, „Ofan á pylsuna“, „Við hliðina á pylsunni“, „Skiptir ekki máli“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,7% afstöðu til atriðis A, 100% til atriðis B, 100% til atriðis C, 99,5% til atriðis D og 99,6% til atriðis E.

Aldurs- og kynjaskipt laukval

Tómatsósan virðist vera nokkuð öruggt val þegar kemur að meðlæti á pylsur landsmanna en svarendur reyndust nokkuð sameinaðir um ágæti hennar, þó vinsældir hennar hafi farið minnkandi með auknum aldri (93% meðal 18-29 ára samanborið við 85% meðal 68 ára og eldri). Steiktan lauk var að finna í öðru sæti allra hópa þó vinsældir hans, líkt og tómatsósunnar, virðast þó fara minnkandi samhliða auknum aldri en 92% svarenda á aldrinum 18-29 ára kváðust vanalega fá sér steiktan lauk á pylsuna, samanborið við 75% þeirra 68 ára og eldri. Karlar (80%) reyndust líklegri en konur (68%) til að velja pylsusinnepið sem sitt þriðja meðlæti en remúlaðið reyndist líklegra til að eiga upp á borð hjá konum (69%) en körlum (64%).

Þá reyndust karlar (67%) líklegri en konur (52%) til að segjast vilja hráan lauk en dálæti á hráum lauk fór einnig vaxandi með auknum aldri (53% 18-29 ára; 67% 68 ára og eldri). Yngra fólkið virðist þó öllu ævintýragjarnara í meðlætisvali sínu en svarendur undir fimmtugu voru til dæmis líklegri en eldri svarendur til að segjast vilja kartöflusalat (10% 18-29 ára; 9% 30-49 ára) eða annað meðlæti (18% 18-29 ára; 19% 30-49 ára) með pylsunni sinni.

Pylsur

Ein með öllu vinsælust

Ein með öllu reyndist vinsælasta samsetningin meðal allra hópa en vinsældirnar reyndust mestar meðal karla (24%) og svarenda af höfuðborgarsvæðinu (26%) en minnstar meðal landsbyggðarbúa (17%).

Annar valkostur var þó ólíkur milli hópa en karlar (10%), yngstu svarendur (11%) og landsbyggðarbúar (10%) reyndust næst líklegastir til að velja eina með öllu og meiru til. Ein með öllu nema hráum lauk var næst vinsælust hjá konum (11%), svarendum 30-49 ára (10%) og þeim 50-67 ára (11%) en elstu svarendur reyndust hins vegar næst líklegastir til að segjast vilja eina með tómatsósu, steiktum lauk og pylsusinnepi (7%).

Pylsur
Remúlaðið tvístrar lýðfræðihópum

Þegar litið var til kyns, aldurs og búsetu kom í ljós að hitamálið sem klýfur pylsuþyrsta Íslendinga snýr að remúlaðinu - en hvar á það að vera?

Karlar (44%), svarendur í yngsta aldurshópi (53%) og þeir af landsbyggðinni (54%) reyndust líklegri til að segjast vilja hafa remúlaðið sitt undir pylsuna fremur en ofan á hana. Hins vegar vildu konur (44%), svarendur elsta aldurshóps (74%) og höfuðborgarbúar (46%) heldur vilja remúlaðið sitt ofan á.

Þá var hlutfall kvenna sem kvaðst vilja tómatsósu (81%) og pylsusinnep (28%) undir pylsuna hærra en karla en landsbyggðarbúar (32%) reyndust einnig líklegri en höfuðborgarbúar (18%) til að segjast vilja sinnepið sitt undir pylsunni.

PylsurMyndin sýnir hlutfallstölur þeirra sem notuðu meðlæti undir eða yfir pylsunni af þeim sem á annað borð sögðust nota hvert meðlæti.
Aðrir sögðust vilja meðlætið til hliðar við pylsuna eða sögðu það ekki skipta máli.

Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 951 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 23. til 28. júlí 2020