Dægurmál

|

Enn sem áður segjast um níu af hverjum tíu einstaklingum nota samfélagsmiðilinn Facebook reglulega og yfir helmingur segist nota YouTube, Snapchat, Spotify og Instagram. Þetta kemur fram í könnun MMR sem framkvæmd var dagana 4. til 8. maí. Alls kváðust 90% svarenda nota Facebook reglulega, 64% YouTube, 62% Snapchat, 57% Spotify og 55% Instagram. Athygli vekur að 14% svarenda kváðust nota Tik Tok reglulega en hlutfall reglulegra notenda forritsins reyndist einungis 0,2% í könnun síðasta árs.

2004 COVID vörur 1Spurt var: „Hvaða samfélagsmiðla notar þú reglulega?“.
Svarmöguleikar voru: „Facebook“, „Snapchat“, „YouTube“, „Spotify“, „Instagram“, „Pinterest“, „Twitter“, „Tinder“ „LinkedIn“, „Reddit“, „Strava“,
„Tumblr“, „Twitch“, „Flickr“, „Grindr“, „Tik Tok“, „Ask.fm“, „Imgur“, „Aðrir, hvaða?“, „Enginn ofantalinna“ og „Veit ekki/vil ekki svara“.
Samtals tóku 99,6% afstöðu til spurningarinnar.

Ekki var að finna marktækan mun á notkun þriggja vinsælustu samfélagsmiðlanna á milli ára en notkun á YouTube mældist í fyrsta skiptið meiri en Snapchat. Marktæk aukning reyndist hins vegar á notkun Spotify (+5% frá 2019), Instagram (+5% frá 2019), Tik Tok (+14% frá 2019) og Reddit (+3% frá 2019) frá síðustu könnun.


Munur eftir lýðfræðihópum

Konur reyndust líklegri til að segjast nota Facebook (97%), Snapchat (70%), Spotify (61%) og Instagram (67%) heldur en karlar en karlar (68%) reyndust hins vegar líklegri en konur (59%) til að segjast nota YouTube reglulega. Notkun kynjanna á Facebook virðist stefna í sitt hvora áttina en notkun kvenna jókst um 3 prósentustig frá mælingum síðasta árs, á sama tíma og notkun karla dróst saman um rúm 7 prósentustig. Þá jókst notkun kvenna á Youtube (+5 prósentustig), Spotify (+11 prósentustig) og Instagram (+9 prósentustig) yfir sama tímabil.

Regluleg notkun á Facebook reyndist mest meðal svarenda undir 50 ára aldri (93%) og fór hún minnkandi með auknum aldri. Svarendur í yngsta aldurshópi (18-29 ára) reyndust líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast nota YouTube (84%), Snapchat (84%), Spotify (85%) og Instagram (77%) reglulega en notkun allra samfélagsmiðlanna fór minnkandi með auknum aldri. Nokkur aukning reyndist á notkun yngsta aldurshópsins á YouTube (+6 prósentustig) og Spotify (+8 prósentustig) frá síðustu mælingu en notkun þeirra á Snapchat (-5 prósentustig) og Instagram (-2 prósentustig) mældist minni þetta árið heldur en í fyrra. Hins vegar var nokkra aukningu að sjá á notkun Instagram á meðal annarra aldurshópa, sér í lagi þeirra 30-49 ára (+11 prósentustig).

Þá reyndust svarendur af höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segjast nota YouTube (66%), Spotify (66%) og Instagram (64%) reglulega heldur en svarendur af landsbyggðinni en aukning var á notkun íbúa höfuðborgarsvæðisins á Spotify (+6 prósentustig) og Instagram (+6 prósentustig) á milli mælinga.

2004 COVID vörur x1 1

 

Tik Tok, hástökkvari ársins, hefur náð öllu meiri fótfestu meðal kvenna en 20% þeirra kváðust nota miðilinn reglulega, samanborið við 9% karla. Þá reyndust konur (30%) líkt og áður öllu líklegri en karlar (8%) til að segjast nota Pinterest reglulega, en karlar reyndust líklegri en konur til að segjast nota Twitter (20% karlar; 14% konur) og Reddit (12% karlar; 6% konur).

Nokkur aldursskipting reyndist á notkun landsmanna á Tik Tok en heil 42% svarenda yngsta aldurshópsins kváðust nota miðilinn reglulega, samanborið við 9% þeirra 30-49 ára, 2% svarenda 50-67 ára og enga svarendur elsta aldurshópsins. Notkun á Twitter mældist mest meðal svarenda 18-29 ára (27%) og þeirra 30-49 ára (22%) en aukningu var að merkja á milli ára á notkun 30-49 ára svarenda á miðlinum (+5 prósentustig). Svarendur í yngsta aldurshópi reyndust einnig líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast nota Reddit (23%) reglulega en notkun þeirra á miðlinum jókst um 8 prósentustig á milli ára.

Svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust líklegri en þau af landsbyggðinni til að segjast nota Twitter (21%), Reddit (11%) og LinkedIn (10%) reglulega en notkun höfuðborgarbúa á Twitter jókst um 5 prósentustig á milli ára.

2004 COVID vörur x1 1

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.023 einstaklingar
Dagsetning framkvæmdar: 4. til 8. maí 2020


Eldri kannanir sama efnis:
2019: Facebook enn vinsælasti samfélagsmiðillinn
2018: Facebook trónir á toppnum