Um níu af hverjum tíu landsmönnum bera mikið traust til almannavarna og heilbrigðisstofnana í tengslum við viðbrögð þeirra við útbreiðslu kórónaveirunnar og 4 af hverjum fimm bera mikið traust til lögreglunnar. Fimmti hver Íslendingur ber lítið traust til ríkisstjórnarinnar og rúmlega fjórðungur segist bera lítið traust til alþingis, bankanna og lífeyrissjóðanna. Þetta kemur fram í nýrri kórónavíruskönnun MMR.
Spurt var: „Hversu mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila á Íslandi í tengslum við viðbrögð þeirra við útbreiðslu kórónaveirunnar í dag?“ (atriði A til L birtust í handahófskenndri röð):
A: „Almenningur í landinu“, B: „Matvöruverslanir“, C: „Ríkisstjórnin“, D: „Alþingi“, E: „Almannavarnir“, F: „Heilbrigðisstofnanir“,
G: „Lögreglan“, H: „Skólarnir“, I: „Lífeyrissjóðirnir“, J: „Bankarnir“, K: „Stéttarfélögin“ og L: „Seðlabankinn“ .
Svarmöguleikar voru: „Mjög lítið traust“, „Frekar lítið traust“, „Bæði og“, „Frekar mikið traust“, „Mjög mikið traust“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Svarhlutfall var 99,6%.
Alls kváðust 91% svarenda bera frekar eða mjög mikið traust til almannavarna í tengslum við viðbrögð þeirra við útbreiðslu kórónaveirunnar, 88% kváðust bera mikið traust til heilbrigðisstofnana, 82% til lögreglunnar, 67% til matvöruverslana, 62% til skólanna, 52% til Seðlabanka, 51% til ríkisstjórnarinnar, 50% til almennings í landinu, 39% til Alþingis, 37% til stéttarfélaganna, 27% til bankanna og 20% til lífeyrissjóðanna. Þá kváðust 28% bera frekar eða mjög lítið traust til bankanna, 27% kváðust bera lítið traust til Alþingis, 25% til lífeyrissjóðanna, 21% til ríkisstjórnarinnar, 19% til stéttarfélaganna, 14% til almennings í landinu, 11% til Seðlabankans, 9% til skólanna, 5% til matvöruverslana, 5% til lögreglunnar, 3% til heilbrigðisstofnana og 2% til almannavarna.
Munur eftir lýðfræðihópum
Konur (67%) reyndust líklegri en karlar (58%) til að segjast bera mikið traust til skólanna í tengslum við viðbrögð þeirra við COVID-19 en karlar (60%) reyndust líklegri en konur (44%) til að segjast bera mikið traust til Seðlabanka Íslands. Hlutfall þeirra sem kváðust bera mikið traust til almannavarna jókst með auknum aldri og mældist minnst á meðal svarenda á aldrinum 18-29 ára (84%) en mest á meðal þeirra 68 ára og eldri (96%). Svarendur í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) reyndust einnig líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast bera mikið traust til heilbrigðisstofnana (91%), lögreglunnar (89%), matvöruverslana (70%) og Seðlabankans (68%). Aldursskipting reyndist nokkur á hlutfalli þeirra sem kváðust bera mikið traust til Seðlabankans en 32% svarenda 18-29 ára og 52% þeirra 30-49 ára kváðust bera mikið traust til hans, samanborið við 64% þeirra 50-67 ára og 68% svarenda 68 ára og eldri. Þá reyndust svarendur í yngsta aldurshópi (18-29 ára) öllu ólíklegri til að segjast bera mikið traust til lögreglunnar (68%) en svarendur annarra aldurshópa.
Lítinn mun var að sjá á trausti eftir búsetu en svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust ögn líklegri til að segjast bera mikið traust til heilbrigðisstofnana (90%) og skólanna (64%) en þau af landsbyggðinni (85% heilbrigðisstofnanir; 59% skólar). Svarendur af landsbyggðinni reyndust aftur á móti líklegri til að segjast bera mikið traust til lögreglunnar (85%) en þau af höfuðborgarsvæðinu (81%).
Konur reyndust líklegri en karlar til að segjast bera mikið traust til Alþingis (41%) og stéttarfélaganna (40%) heldur en karlar (37% Alþingi; 34% stéttarfélögin). Karlar (22%) reyndust hins vegar líklegri til að segjast bera traust til lífeyrissjóðanna heldur en konur (17%).
Traust til ríkisstjórnarinnar fór vaxandi með auknum aldri svarenda en 59% svarenda elsta aldurshópsins kváðust bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar, samanborið við 44% þeirra 18-29 ára. Þá voru svarendur 50 ára og eldri einnig líklegri til að segjast bera mikið traust til almennings í landinu (59%), bankanna (30%) og lífeyrissjóðanna (24% 50-67 ára; 23% 68 ára og eldri) heldur en yngri svarendur. Traust til stéttarfélaganna fór hins vegar minnkandi með auknum aldri en svarendur 18-29 ára reyndust líklegastir til að segjast bera mikið traust til þeirra (47%) en svarendur 68 ára og eldri (29%) ólíklegastir.
Þá reyndust svarendur af höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segjast bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar (54%), Alþingis (40%), stéttarfélaganna (39%) og bankanna (28%) en íbúar landsbyggðarinnar (47% ríkisstjórnin; 37% Alþingi; 33% stéttarfélögin; 25% bankarnir).
Líkt og á meðal annarra lýðfræðihópa nutu almannavarnir mikils traust á meðal ýmissa starfsstétta. Heil 99% vélafólks og ófaglærðra kváðust bera mikið traust til almannavarna en námsmenn (79%), þjónustu- og afgreiðslufólk (85%) og þeir svarendur sem ekki voru útivinnandi (89%) voru ólíklegust til að segjast bera mikið traust til almannavarna. Iðnaðarmenn og sérhæfðir í iðnaði (93%) og þeir ekki útivinnandi (92%) reyndust líklegastir til að segjast bera mikið traust til heilbrigðisstofnana landsins en þjónustu- og afgreiðslufólk (81%) ólíklegast. Lögreglan naut mests trausts meðal bænda og sjómanna (92% mikið traust) en minnst á meðal námsmanna (64% mikið traust) og þjónustu- og afgreiðslufólks (74% mikið traust).
Iðnaðarmenn og sérhæfðir í iðnaði (77%), tæknar og skrifstofufólk og þeir ekki útivinnandi (71%) reyndust líklegust til að segjast bera mikið traust til matvöruverslana en bændur og sjómenn ólíklegastir (51%). Traust til skólanna mældist mest meðal sérfræðinga (72% mikið traust) og námsmanna (71% mikið traust) en minnst meðal þjónustu- og afgreiðslufólks (52% mikið traust). Þá voru stjórnendur og æðstu embættismenn líklegastir allra til að segjast bera mikið traust til Seðlabanka Íslands (72%) en námsmenn (24%), þjónustu- og afgreiðslufólk (42%) og vélafólk og ófaglærðir (44%) ólíklegastir.
Stjórnendur og æðstu embættismenn (64%), sérfræðingar (62%) og tæknar og skrifstofufólk (60%) reyndust líklegri en svarendur innan annarra starfsstétta til að segjast bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar í tengslum við viðbrögð hennar við útbreiðslu kórónaveirunnar en vélafólk og ófaglærðir (35%), námsmenn (42%) og þjónustu- og skrifstofufólk (43%) reyndist ólíklegast. Iðnaðarmenn og sérhæfðir í iðnaði (64%) og stjórnendur og æðstu embættismenn (59%) reyndust líklegastir til að segjast bera mikið traust til almennings í landinu en námsmenn (37%) og þjónustu- og afgreiðslufólk (40%) ólíklegast.
Traust til Alþingis mældist mest á meðal tækna og skrifstofufólks (49%), stjórnenda og æðstu embættismanna (48%) og sérfræðinga (45%) en minnst á meðal vélafólks og ófaglærðra (25%), iðnaðarmanna og sérhæfðra í iðnaði (31%) og þeirra ekki útivinnandi (31%). Vélafólk og ófaglærðir (48%) og þjónustu- og afgreiðslufólk (48%) reyndist líklegast allra til að segjast bera mikið traust til stéttarfélaganna en iðnaðarmenn og sérhæfðir í iðnaði (22%) og stjórnendur og æðstu embættismenn (24%) ólíklegastir. Þá nutu bankarnir (36%) og lífeyrissjóðirnir (26%) meira trausts á meðal stjórnenda og æðstu embættismanna en á meðal svarenda innan annarra starfsstétta.
Nokkurn mun var einnig að sjá eftir stjórnmálaskoðunum svarenda. Stuðningsfólk Miðflokksins (78%) og Pírata (82%) reyndist ólíklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast bera mikið traust til almannavarna. Stuðningsfólk Viðreisnar (97%) og Vinstri-grænna reyndist líklegast allra til að segjast bera mikið traust til heilbrigðisstofnana en stuðningsfólk Miðflokksins (79%) ólíklegast. Lögreglan naut mests trausts meðal stuðningsfólks Framsóknarflokksins (97%) en stuðningsfólk Pírata (72%) og Miðflokksins (79%) reyndist ólíklegast til að bera mikið traust til hennar.
Stuðningsfólk Vinstri-grænna (82%), Sjálfstæðisflokksins (76%) og Viðreisnar (74%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast bera mikið traust til matvöruverslana en stuðningsfólk Miðflokksins (49%) og Framsóknarflokksins (58%) reyndist ólíklegast. Traust til skólanna mældist minna á meðal stuðningsfólks Miðflokksins (36%) en á meðal stuðningsfólks annarra flokka. Þá mældist traust til Seðlabankans mest á meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins (79%) og Viðreisnar (78%) en stuðningsfólk Pírata (33%) og Miðflokksins (47%) reyndist ólíklegast til að segjast bera mikið traust til hans.
Traust til ríkisstjórnarinnar mældist mest á meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins (79%) og Vinstri-grænna (76%) en stuðningsfólk Miðflokksins (26%) og Pírata (29%) reyndist ólíklegast til að segjast bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar í tengslum við viðbrögð hennar við útbreiðslu kórónaveirunnar. Hið sama var uppi á teningnum þegar kom að trausti til Alþingis, stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins (62%) og Vinstri-grænna (55%) reyndist líklegast til að segjast bera mikið traust til þingsins en stuðningsfólk Miðflokksins (17%) og Pírata (26%) ólíklegast.
Stuðningsfólk Pírata (41%), Miðflokksins (41%) og Samfylkingarinnar (49%) reyndist ólíklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast bera mikið traust til almennings í landinu og stuðningsfólk Miðflokksins (24%) og Framsóknarflokksins (25%) var ólíklegra en aðrir til að segjast bera mikið traust til stéttarfélaganna.
Traust til bankanna og lífeyrissjóðanna mældist mest á meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins (47% bankarnir; 30% lífeyrissjóðirnir) og Viðreisnar (40% bankarnir; 32% lífeyrissjóðirnir) en minnst meðal stuðningsfólks Pírata (11% bankarnir; 13% lífeyrissjóðirnir) og Miðflokksins (11% bankarnir; 15% lífeyrissjóðirnir).
Upplýsingar um framkvæmd:
Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.081 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 18. til 20. mars 2020