Samfélagsmál COVID-19

|

Stór meirihluti landsmanna hefur miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag en einungis þriðjungur hefur miklar áhyggjur af því að smitast sjálfur. Þá segist um þriðjungur hafa miklar áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni sökum COVID-19 en um fimmtungur hefur miklar áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni. Þetta kemur fram í nýrri kórónavíruskönnun MMR.

COVID áhyggjur yfirlit alltSpurt var: „Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú í dag af...“ (atriði A til D birtust í handahófskenndri röð):
A: „...áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag“, B: „...að smitast sjálf(ur) af kórónaveirunni“,
C: „...að verða fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar“ og D: „...að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar“ .
Svarmöguleikar voru: „Mjög litlar eða engar“, „Frekar litlar“, „Hvorki miklar né litlar“, „Frekar miklar“, „Mjög miklar“, „Veit ekki“ og „Vil ekki svara“.
Svarhlutfall var 98,6% við atriði A, 99,1% við atriði B, 99,0% við atriði C og 98,8% við atriði D.

Alls kváðust 79% svarenda hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag en einungis 6% kváðust hafa frekar litlar, mjög litlar eða engar áhyggjur. Svarendur reyndust hafa öllu minni áhyggjur af því að smitast sjálfir af kórónaveirunni en 29% kváðust hafa miklar áhyggjur en 35% mjög litlar eða engar áhyggjur. Þá reyndust svarendur líklegri til að hafa litlar áhyggjur af persónulegu tjóni af völdum útbreiðslu veirunnar en 43% kváðust hafa litlar áhyggjur af að verða fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni (samanborið við 34% sem kváðust hafa miklar áhyggjur) og 54% kváðust hafa litlar áhyggjur og 21% kváðust hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni af völdum veirunnar.

COVID áhyggjur yfirlit

Munur eftir lýðfræðihópum

Konur (80%) reyndust líklegri en karlar (77%) til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónuveirunnar á íslenskan efnahag en 39% kvenna kvaðst hafa mjög miklar áhyggjur, samanborið við 32% karla. Konur reyndust einnig líklegri en karlar til að segjast hafa miklar áhyggjur af að smitast sjálfar (35%) eða verða fyrir heilsufarslegu tjóni (25%) heldur en karlar (24% smitast sjálfir; 17% heilsufarslegu tjóni) en karlar (36%) reyndust líklegri en konur (32%) til að segjast hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir alvarlegu fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu veirunnar.

COVID áhyggjur x1

Svarendur af höfuðborgarsvæðinu (80%) reyndust líklegri en þeir af landsbyggðinni (77%) til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag. Þeir svarendur sem búsettir voru á landsbyggðinni reyndust hins vegar líklegri til að segjast hafa miklar áhyggjur af því að smitast sjálfir af kórónaveirunni (30%) eða verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni af völdum hennar (24%) heldur en svarendur af höfuðborgarsvæðinu (28% smitast sjálfir; 19% heilsufarslegu tjóni).

Þá reyndust svarendur af landsbyggðinni (47%) líklegri en þeir af höfuðborgarsvæðinu (42%) til að segjast hafa litlar áhyggjur af fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu veirunnar.

 

COVID áhyggjur x2

Svarendur á aldrinum 18-29 ára reyndust ólíklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa miklar áhyggjur af að smitast af kórónaveirunni (26%) eða af áhrifum hennar á íslenskan efnahag eða eigið heilsufar (15%). Svarendur 30-49 ára (31%) reyndust líklegastir til að segjast hafa miklar áhyggjur af því að smitast af kórónaveirunni en hlutfall þeirra sem kváðust hafa litlar áhyggjur af smiti fór minnkandi með auknum aldri (43% 18-29 ára; 25% 68 ára og eldri). Svarendur 30-49 ára (40%) reyndust einnig líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar en svarendur 68 ára og eldri ólíklegastir (17%).

Þá jókst hlutfall þeirra sem kvaðst hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir alvarlegu heilsufarslegu tjóni af völdum veirunnar með auknum aldri en svarendur 68 ára og eldri (33%) voru líklegastir til að segjast hafa miklar áhyggjur. Samhliða því fór hlutfall þeirra sem kvaðst hafa litlar áhyggjur af heilsufarslegu tjóni af völdum veirunnar minnkandi með auknum aldri (66% 18-29 ára: 34% 68 ára og eldri).

 

COVID áhyggjur x3

Stjórnendur og æðstu embættismenn (85%) og tæknar og skrifstofufólk (84%) reyndust líklegri en svarendur innan annarra starfsstétta til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag en námsmenn (63%) og vélafólk og ófaglærðir (65%) ólíklegastir en bændur og sjómenn (15%) reyndust líklegastir til að segjast hafa litlar áhyggjur.

Þjónustu- og afgreiðslufólk (41%), tæknar og skrifstofufólk (34%) og þeir ekki útivinnandi (34%) reyndust líklegastir til að segjast hafa miklar áhyggjur af að smitast sjálfir af kórónaveirunni en bændur og sjómenn (15%) og iðnaðarmenn og sérhæfðir í iðnaði (17%) ólíklegastir. Námsmenn (49%) og stjórnendur og æðstu embættismenn (45%) reyndust aftur á móti líklegastir til að segjast hafa litlar áhyggjur af því að smitast.

Vélafólk og ófaglærðir (55%), iðnaðarmenn og sérhæfðir í iðnaði (47%) og þjónustu- og afgreiðslufólk (47%) reyndist líklegri en svarendur í öðrum starfsstéttum til að segjast hafa miklar áhyggjur af fjárhagslegu tjóni af völdu útbreiðslu kórónaveirunnar en námsmenn (20%), sérfræðingar (26%) og þeir svarendur sem ekki voru útivinnandi (27%) ólíklegastir.

Þá reyndust þeir svarendur sem ekki kváðust útivinnandi (34%), þjónustu- og afgreiðslufólk (28%) og tæknar og skrifstofufólk (24%) líklegast til að segjast hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir heilsufarslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar en námsmenn (11%), stjórnendur og æðstu embættismenn (14%) og sérfræðingar (15%) ólíklegastir.

 

 

COVID áhyggjur x4 2

Nokkurn mun var einnig að sjá eftir stjórnmálaskoðunum svarenda. Stuðningsfólk Viðreisnar (78%) reyndist líklegra en stuðningsfólk annarra flokka til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum útbreiðslu kórónaveirunnar á íslenskan efnahag en stuðningsfólk Miðflokks (70%) og Pírata (63%) ólíklegast. Stuðningsfólk Vinstri-grænna (37%) og Samfylkingar (31%) reyndist líklegra en aðrir til að segjast hafa miklar áhyggjur af að smitast sjálft af kórónaveirunni en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokks (22%) og Pírata (20%) ólíklegast.

Stuðningsfólk Pírata (45%) og Miðflokks (45%) reyndist líklegast allra til að segjast hafa miklar áhyggjur af að verða fyrir fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar en stuðningsfólk Samfylkingar (26%) og Framsóknar (26%) ólíklegast. Þá reyndist stuðningsfólk Miðflokks (27%), Vinstri-grænna (23%) og Samfylkingar (20%) líklegast allra til að segjast hafa miklar áhyggjur af heilsufarslegu tjóni af völdum veirunnar en stuðningsfólk Framsóknar (10%) og Pírata (8%) reyndist ólíklegast.

COVID áhyggjur x5

 

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 1.081 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 18. til 20. mars 2020